Þegar látið er svona í veðrinu vaka ...

Við getum reyndar horft aðeins til Íslands í þessu sambandi. Sjálfstæðisflokkurinn er á Evrópuvettvangi í samstarfi við AKP, flokk Erdogans Tyrklandsforseta. Þetta er í samtökum sem nefnast AECR, en þar eru líka Íhaldsflokkurinn breski, Laga- og réttlætisflokkurinn í Póllandi, Likud í Ísrael en Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum hefur aukaaðild.

Þetta segir Egill Helgason, í pistli á Eyjunni. Hann lætur í það skína að Sjálfstæðisflokkurinn sé afar varasamur af því að hann er aðili að samtökum sem nefnast „Aliance of Conserevatives and Reformists in Europe“, AECR, og í þeim er tyrkneski stjórnmálaflokkurinn sem hinn illræmdi Erdogan Tyrklandsforseti er í.

Erfitt er að gera sumum til hæfis. Stundum er Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýndur fyrir hatur á Evrópu en Egill gagnrýnir hann fyrir samskipti við aðra evrópska stjórnmálaflokka.

Egill Helgason hefur aldrei þótt hlutlaus í skrifum sínum um Sjálfstæðisflokkinn, þvert á móti. Út af fyrir sig er það í lagi. Hitt er alveg furðulegt þegar gripið er til ómerkilegra aðferða eins og að láta að því liggja að Sjálfstæðisflokkurinn sé í slæmum félagsskap vegna þess að tyrkneski AKP flokkurinn er í sömu samtökum.

Einu sinni reyndi Egill Helgason í pistli á Eyjunni að gera lítið úr Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrum forseta Íslands fyrir að eiga auðugan tengdaföður.

Egill upplýsti svo sem ekkert um Sclomo Moussaieff en tengdi Ólaf við aflandsfélag tengdaföðurins og lét að því liggja að hann væri „ævintýralegur náungi", „margt dularfullt í sögu hans“ og hann beitti vafasömum aðferðum við störf sín. Og svo segir hann orðrétt:

Þetta veikir stöðu Ólafs vissulega, en samt er spurning hvort þetta telst ekki vera það sem heitir á ensku heitir guilt by association.

Sá sem vill koma óorði á einhvern notar þá aðferð að benda á sök vegna samskipta. Hún er afar áhrifamikil en um leið í hæsta máta vafasöm í fjölda tilvika. Sök Ólafs Ragnars Grímssonar er samkvæmt Agli að hafa gifst dóttur manns sem hann telur „vafasaman“. Þessu myndi enginn halda fram nema sá sem vill koma höggi á Ólaf, gera lítið úr honum.

Á sama hátt er það ekki vegna væntumþykju Egils á Sjálfstæðisflokknum að hann bendir á að flokkurinn sé í sömu samtökum og flokkur Tyrklandsforseta. Lesandinn fær það á tilfinninguna að þar sé Erdogan að kenna öðrum trixin, hvernig eigi spilla fyrir lýðræðinu, fangelsa andstæðinga og eitthvað fleira ljótt.

Egill lætur svona í veðrinu vaka eins og Páll Árdal orti:

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

Þetta er hreint ömurlegur málflutningur hjá Agli Helgasyni. Hins vegar lesa margir pistla Egils, áhrif hans eru ábyggilega mikil og þar af leiðandi engin ástæða til annars en að benda á misfellurnar í málflutningi mannsins.

AusturvöllurÍ sama pistli og Egill reynir að gera lítið úr Ólafi Ragnari Grímssyni er mynd af fólki á Austurvelli. Þar berja þrír menn sömu tunnuna í mótmælum vegna spillingar. Einn þeirra er Vilhjálmur Þorsteinsson, fyrrum gjaldkeri Samfylkingarinnar og eigandi fyrirtækja í skattaskjólum, og þarna er líka Illugi Jökulsson, dagskrárgerðarmaður.

Með röksemdafærslu Egils Helgasonar mætti ábyggilega gera lítið úr Illuga, „sakfella“ hann vegna þess að hann stendur þarna við hlið „spillts“ manns.

Er þetta ekki klárt dæmi um „Guilt by Association“ ... eða hvað? 

Einhvern tímann heyrði ég af íslenskum kommúnista sem var í MR, ábyggilega löngu áður en að ég gekk í þann skóla. Hann harðneitaði að læra prósentureikning af því að sú stærðfræði var notuð af ljótum kapítalistum við að hlunnfara alþýðuna.

Þessi litla saga leiðir hugann að því hvað þeir Adolf Hitler, Jósef Stalín, Mao Tse Tung og ábyggilega fleiri einræðisherrar og morðingjar sameiginlegt. Jú, þeir sögðu að einn plús einn væri sama sem tveir. Getur þú, ágæti lesandi, virkilega verið sammála helstu morðingjum tuttugustu aldar?

Ég veit að flestir lesenda minna skilja nú hvað ég á við. En hvenær í ósköpunum mun pólitísk umræða breytast úr rógi í rökræðu? Líklega aldrei, ekki frekar hér en annars staðar í heiminum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Mannorðsmorðin dynja á,

mannlegum góðum mönnum.

Fráleitt þannig finna má,

"sektinni" fyrir, sönnun.

Kerfið í sjálfu sér, kann ekki eigin kerfislög og reglur. Hvernig eiga þá óupplýstir, bankarændir, sviknir og blekktir þrælar þess skattpíningar ríkiskerfisins að finna út hvað er rétt, og hvað er rangt?

Hvernig á fólk að forðast það að brjóta lög?

Það er að mínu mati óvinnandi vegferð heiðarlega unnu verkanna fólksins og varnarlausra sjúklinga, að skilja muninn á lögréttu og lögröngu hjá falda lög-yfirvaldinu lögmannatúlkandi.

Banka/kauphallar-stofnanastýrðir viðskiptanna "fræðingar", eins og t.d. valdamiklir lögmenn og dómsstólar stýra eftir sinni eigin óskiljanlegu lögfræðitúlkunar tækifærismennsku? Dæma samkvæmt flokkaforystuklíkum, tækifærismennsku og spilltum framtíðarmarkmiðum heimsfrípassanna, hverjir séu lögbrjótar og hverjir ekki?

Þetta er ekki svo virðingarvert, glæsilegt og mannanna siðmenntað laga/réttarkerfi, sem oft er haldið fram á plottklæddra manna ræðuhaldanna fegrunaráróðurs fundum. Hvorki hér á Íslandi né víðar í veröldinni.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 19.4.2017 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband