Íbúðaskorturinn er vinstri meirihlutanum í Reykjavík að kenna
10.4.2017 | 11:47
Nú eru helstu vinstri gáfumenn landsins búnir að fatta það að frjáls markaður getur ekki leyst húsnæðisvandann í Reykjavík, sjá hér. Við liggur að þeir fagni þessu ómögulega ástandi.
Trúir sannfæringu sinni líta þeir ekki á vandamálið í heild sinni. Þeim finnst engu skipta þó að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hafi í fjölda ára ekki boðið upp á nægilegan fjölda lóða. Þeir sjá enga tengingu á milli aukins straums ferðamanna, útleigu íbúðarhúsnæðis og að leiga á íbúðarhúsnæði hefur hækkað svo hátt að fólk flýr höfuðborgina, þar á meðal sá sem hér skrifar.
Skortur á leiguhúsnæði byggist á tvennu: framboði og eftirspurn. Sé framboðið ekki nægilegt þýðir það einfaldlega að húsnæðisverð hækkar og þar með húsaleiga. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst. Þokkalegar íbúðir sem áður voru verðlagðar á 250.000 krónur í leigu á mánuði eru hreinlega ekki fáanlegar. Og hver í ósköpunum hefur efni á að borga þessa fjárhæð í leigu.
Sökin liggur hvergi annars staðar en hjá Reykjavíkurborg. Vinstri meirihlutinn er upptekinn við að andskotast tefja fyrir bílaumferð og reyna að loka Reykjavíkurflugvelli. Á meðan gleymist fólkið sem vantar íbúðir til kaups eða leigu.
Og nýsósíalistarnir kenna markaðnum um vandann en líta með vilja framhjá ábyrgð Reykjavíkurborgar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.