Ekki vera svona reið ...
6.4.2017 | 09:54
Athyglisverð grein er í viðskiptablaði Moggans. Þar skrifar dálkahöfundurinn Wolfgang Münchau grein undir nafninu Hvernig má koma Bretlandi aftur inn í ESB.
Meginefni greinarinnar fjallar þó ekki um fyrirheit fyrirsagnarinnar heldur hvernig stuðningsmenn ESB ættu að sleikja sárin og sætta sig við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um að yfirgefa sambandið.
Hann nefnir fjögur mikilvæg atriði sem stuðningsmenn ESB þurfa að tileinka sér:
- Sættið ykkur við niðurstöðuna, Brexit er óumflýjanlegt.
- Ekki vera svona reið, niðurstaðan er komin, skiptir engu þó ykkar blekkingar hafi reynst léttvægari en blekkingar annarra ...
- Takið andstæðinga ESB alvarlega.
- Hætti að vera svona öskuill yfir marmiðum Bretlands í samvinaviðræðunum við ESB.
Þetta eru skynsamleg ráð, ekki aðeins vegna Brexit heldur í stjórnmálum almennt. Ekki síst er það rétt sem höfundurinn segir:
Fólk sem er á annarri skoðun en Evrópusinnar er ekki endilega ófært um að hugsa rökrétt. Það er ekki algilt að þeir sem kusu Donald Trump eða Brexit séu heimskir.
Þetta eru auðvitað heimspekileg sannindi en í hita stjórnmálanna er allt tengt og yfirfært þvert á allan sannleika og skynsemi - hér á landi og erlendis.
Ekki vera svona reið.
Þetta er gott ráð í stjórnmálum. Takið til dæmis eftir fýlunni sem yfirleitt lekur af sumum þingmanna Vinstri grænna í umræðum á Alþingi. Þá er eins og yfir þeim sé þungbúið rigningaskýr í eilífu skammdegi. Óháð því að VG getur oft á tíðum staðið fast að góðum málstað þá eyðileggur þetta fas afskaplega mikið fyrir flokknum.
Öskuillska.
Í rökræðum um stjórnmál þurfa þingmenn til dæmis ekki að vera með leikræna tilburði í ræðustól. Taka frekar þingmann Pírata, Gunnar Hrafn Jónsson, sem sagðist í ræðustól um hörmulega lágar fjárveitingar til Hugarafls vera ... satt að segja brjálaður yfir þessu..
Rödd Gunnars var yfirveguð, allt fas mannsins hófstillt þrátt fyrir orðin. Hverjar virðast lyktir þessa máls vera. Jú, nú lítur út fyrir að þessi smánarlega greiðsla verði hækkuð að mun, ábygglega fyrir harðorðan en kurteisilegan málflutning Gunnars Hrafns.
Ef eitthvað er mættu íslensk stjórnmál taka mið af kjarnanum í ofangreindri grein. Minna af reiði, virðing fyrir andstæðingum og að sætta sig við niðurstöðu mála.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.