Gullið í bílnum og snjóboltinn

Maður nokkur keypti ársgamlan Toyota Landcrusier bíl, upphækkaðan og á 38 tommu dekkjum. Verð bílsins var 8.400.000 krónur, áhvílandi veðskuld var jafnhá. Hann greiddi fjárhæðina út í hönd og skuldin var afskráð.

Efsti hluti gírstangarinnar í bílnum var máluð og farin að flagna af. Í ljós kom að hún var úr gulli. Kaupandi bílsins seldi hnúðinn og fékk fyrir hann 8.100.000 krónur í reiðufé.

Líkur benda til þess að maðurinn hafi vitað um gullið í bílnum og þess vegna keypt hann. Ástæðan er einfaldega sú að nokkrum vikum seinna seldi hann bílinn á 9.300.000 krónur. Enn ekur hann á Mercedes Benz bíl sem hann keypti fyrir lítið á uppboði fyrir nokkrum árum enda kaupir hann ekki neitt nema á opinberum uppboðum.

Margir velta fyrir sér hvort seljandinn hafi vitað af gullinu. Aðspurður neitaði hann því og sagðist fyrst og fremst ánægður yfir því að einhver hafi viljað kaupa bílinn sinn.

Þessi litla saga minnir á leik í útvarpsþætti á æskuárum þess sem þetta ritar. Þá var ekkert sjónvarp og afþreyingin á laugardagskvöldum voru spurningaþættir, leikþættir og annað álíka að viðstöddum áheyrendum í útvarpssal.

Eitt laugardagskvöldið fengu fjórir keppinautar það verkefni að fara út fyrir húsið, búa til snjóbolta og selja hann fyrir tíu krónur í votta viðurvist. Öllum nema einum mistókst þetta.

Fjórði maðurinn ákvað að fara óvenjulega leið í sölustarfi sínu. Hann stakk eitthundrað króna seðli í snjóboltann og bauðst til að selja hann á tíkall. Eftirspurnin var meiri en framboðið og hrósaði hann sigri.

Þessi saga minnir á að nú er banki fullur af peningum að selja sjálfan sig.


mbl.is Salan losar milljarðatugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Góð samlíking hjá síðuhafa. Borgunarþvælan að endurtaka sig og Engeyjarfrændur kætast, sem aldrei fyrr. Annað hvort er heimska þeirra alger, eða þeir og þeirra slekti með í plottinu. Þetta er eiginlega of vitlaust til að geta verið satt.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 23.3.2017 kl. 04:19

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Halldór. Vandinn með samsæriskenningar er að óskhyggjan ræður oft uppbyggingu þeirra. Ríkið er hins vegar ekki að selja hlut í Arion banka enda á það aðeins um 13% í bankanum. Slitabúsfélagið er að selja bankann, það er bankinn er að selja bankann. Þaðan má búa til skemmtilegar samsæriskenningar. Kveðja til suðurs.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.3.2017 kl. 08:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband