Er hættulegt að kaupa lyf í apóteki án ráða frá lyfjafræðingi?
8.2.2017 | 22:29
Flestir hafa einhvern tímann þurft að leita í apótek vegna einhverra kvilla. Í slíkum tilvikum er oftast um að ræða eitthvað smávægilegt, kvef, nefrennsli, hálsbólgu og álíka eða vegna lítilsháttar skaða á líkama.
Ég hef hingað til talið að þau lyf sem standa til boða án tilvísunar læknis séu hættulaus og sjálfsögð til notkunnar en svo virðist ekki vera, þvert á móti:
Flest lausasölulyfja geta verið skynsamleg í litlu magni eftir ráðleggingum lyfjafræðings og í samræmi við heilbrigði og kvartanir þeirra sem í hlut eiga. [
...] Ýmsar alvarlegar aukaverkanir geta hins vegar fylgt með í kaupunum. Otrivin menthol nefdropar t.d. gegn kvefi og flensueinkennum sem nú herjar, hefur skemmt nefslímhúðir landans meira en nokkuð annað gegnum tíðina, aðallega vegna óhóflegrar notkunar. Mörg gigtarlyf geta t.d. verið varasöm og jafnvel lífhættuleg.
Þetta segir Vilhjálmur Ari Arason, læknir, í pistli á Pressunni og manni hreinlega snarbregður. Og hann heldur áfram:
Ofurlyf eru þau lyf stundum kölluð sem markaðssett eru með það í huga að virka að einhverju leiti kröftugar en eldri lyfin, þótt áhrifin komi oft í reynd ekki nema takmörkuðum fjölda að gagni. Lyf sem eru ætluð fáum en síðan markaðssett fyrir fjöldann, jafnvel sem lausasölulyf. Í flokki ofurlyfja eru t.d. nýjustu maga, ofnæmis og gigtarlyfin. Lyf sem Lyfjastofnun Evrópu hefur í sumum tilvikum verið með til sérstakrar athugunar á, hvort taka eigi ekki alfarið af lausasölumarkaði.
Þetta eru fréttir fyrir mig. Í sakleysi mínu hélt ég að staðan væri þveröfug, hægt væri að treysta því að apótekin seldu aðeins öruggar vörur.
Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um málið:
Brynjúlfur segir að uppi séu hugmyndir um að auka framboð af smærri pakkningum verkjalyfja ef sala á lausasölulyfjum verður gefin frjáls. Sem dæmi séu hugmyndir um að selja paracetamol með tíu skömmtum.
Það er 1,6 sinnum hámarksskammtur samkvæmt leiðbeiningum frá Lyfjastofnun en það sem þú getur keypt í apótekum núna er fimmfaldur og allt upp í ríflega þrjátíufaldur hámarksskammtur. Þannig að það eru miklu meiri líkur á að misnotkunin verði af völdum pakkninga sem eru seldar í apótekum.
Þetta er haft eftir Brynjúlfi Guðmundssyni, sem í fréttinni er sagður fara fyrir starfshópi Samtaka verlsunar og þjónustu um lausasölulyf.
Sannast sagna finnst mér það hrikalegt mál að maður gæti hreinlega skaðast á því að kaupa lyf í apóteki rétt eins og sagt er að hafir gerst með einfalda nefndropa. Maður röltir inn og biður um nefdropa, verkjalyf eða eitthvað álíka og fær skammtinn vel útilátinn, yfirleitt án nokkurra varnaðarorða. Má vera að maður þurfi að biðja um ráð frá lyfjafræðingnum áður en kaupin eru gerð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.