Þraut að vera á ómerkilegum bíl í umferðinni

bíllÍ umferðinni ríkir undarleg „stéttaskipting“, ef svo má að orði komast. Staðreyndin er að sumir bílar njóta almennrar viðurkenningar en aðrir þykja ómerkilegri. Þetta segi ég vegna þess að í tvær vikur hef ég ekið á Toyta Yaris, nýlegum og fallegum bíl. Hann er engu að síður álitinn í neðri stéttum umferðarinnar, réttlægri en flestir aðrir og niðurlæging mín sem ökumanns fylgir.

Aki ég á hægri akrein vestur Miklubraut og er með þeim öftustu í bylgju frá síðustu ljósum gerist það ósjaldan að sprækir ökumenn þeysa fram úr mér og troða sér fyrir framan mig til þess eins að beygja til hægri örskömmu síðar.

Það dugir einfaldleg ekki að halda sig fyrir aftan Yarisinn. Enginn, alls enginn ökumaður með snefil af sjálfsvirðingu vill vera fyrir aftan Yaris. Undantekningar eru stelpur, sem mega ekkert vera að því að fylgjast með umferðinni því þær eru að senda sms, og svo kínverskir ökumenn sem eru ekki vissir á því hvort aka eigi á grænu grasi eða svörtu malbiki.

Jafnvel strætó vill ekki vera fyrir aftan Yaris. Ef leigubílstjórar gætu sent dimman reykjarmökk út um púströrið myndi þeir gera það um leið og þeir svína á Yaris. Slík er fyrirlitningin.

Ég tek þessu öllu með jafnaðargeði en læri af og hef stundum lúmskt gaman af. Fyrst fannst mér þetta hrikaleg ókurteisi en núna veit ég að í umferðinni ríkir stéttaskipting. Hún fer eftir stærð bíls.

Hver kannast svo sem ekki við stóra jeppann sem druslast ekki af stað á grænu ljósi því bílstjórinn er að bora í nefið, og hann kemst upp með það, klárar úr báðum nösum áður en þeir sem eru fyrir aftan voga sér að flauta.

Eða flutningabílinn sem silast á vinstri akrein af því að ökumaðurinn er að tala í símann. Líklega eru meiri líkur á því að ná árangri við hryðjuverkamann með sprengjubelti en að fá flutningabílstjóra til að halda sig á hægri akrein.

Já, það er margt mannanna bölið. Ég þarf pottþétt að skipta um bíl á næstunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

KANNAST VIÐ ÞETTA ! bÍLLINN MINN FÓR Í VIÐGERÐ OG EG FEKK GAMLANN BÍL AÐ LÁNI, hÆTTI AÐ FARA ÚTÍ UMFERÐINA AF ÓTTA VIР HÁKARLALIÐIÐ !

Erla Magna Alexandersdóttir, 21.1.2017 kl. 21:57

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þeir sitja oft eftir blessaðir á leið frá stór'Reykjavík í Garðabæ (norður).Þrjár akreinar eru yfir Arnarneshæðina,ein til hægri hinar til vinstri.Ég keyri oft framhjá lest af þeim lengst til vinstri og er því langtum fyrr yfir á ljósunum.Þeim sést yfir að báðar eru til vinstri. 

Helga Kristjánsdóttir, 22.1.2017 kl. 13:17

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sennilega hefur enginn Íslendingur kynnst þessu fyrirbæri betur en ég, af því að ég hef lengst af á bílstjóraferli mínu ekið á allra minnstu bílum landsins. 

Lengst komst þetta þegar ég var á leið frá Siglufirði til Reykjavíkur sumarið 2010 á 1972 árgerð af Fiat 500, þá minnsta bílnum í umferðinni hér á landi. 

Á einu kafla var möl á splunkunýjum olíumalarkafla og þá kom stór jeppi af dýstustu gerð á öskrandi ferð aftan að mér og gaf svo hressilega í þegar hann fór fram úr mér, að hann sprautaði mölinni framan á mig og braut framrúðuna. 

Ég náði bílstjóranum á Blönduósi og það svaraði hann bara: "Hvaða væl er þetta? Tryggingarnar borga." 

Ég var svo hissa að ég átti ekki orð en hefði átt að svara honum: "Það er ekki rétt hjá þér. Það er ég og aðrir tryggingatakar sem borga þá hækkun trygginga sem svona akstur kostar. Og það var hætt að framleiða þennan bíl minn fyrir 35 árum og löngu hætt að útvega framrúður í hann.

Það er áberandi hve margir þeirra sem eru á stærstu, þyngstu og krafmestu bílunum, virðast ekki þola að neinn sé fyrir framan þá í umferðinni.

Og þau sumur sem ég fór stundum daglega akandi austur fyrir Fjall og það var áberandi að flestir þeirra sem óku langhraðast upp Kambana voru á stærstu, þyngstu og eyðslufrekustu bílunum. 

Eftir að ég kom á vespuvélhjólið undrast ég hve margir hér á landi hafa horn í síðu slíkra hjóla og láta mann vita af því í umferðinni. 

Einn þeirra reiddist svo þegar ég var samsíða honum við grænt ljós, að hann tróð sér fram fyrir mig á ská til að koma í veg fyrir að ég gæti farið af stað og linnti ekki látum fyrr en hann hafði ekið inn á gangbrautina, sem lá þvert yfir götuna við umferðarljósin, og lokað fyrir umferð gangandi fólks! 

Ég hef lent í þrasi við menn sem fullyrða að hjólin megii alls ekki fara rólega meðframm bílunum til að gera sitt til að flýta fyrir umferðinni. 

Þegar ég svara því til að þetta sé gert í öllum borgum Evrópu og að víða sé sérstakt afmarkað svæði við umferðarljós, eingöngu ætlað vélhjólum kemur svarið: Hér eru séríslenskar aðstæður sem henta ekki vélhjólum. 

Ómar Ragnarsson, 22.1.2017 kl. 13:20

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Skil þig vel, Erla María. Við erum að upplifa það sama. Hákarlaliðið í umferðinni er það sem Ómar Ragnarsson nefnir í frásögn sinni, besservisserarnir sem allt þykjast vita og telja það vanvirðingu við sig ef hjól eða vespa er við hliðina á þeim. Bíll er stórhættulegt tæki og honum á ekki að beita sem vopni til að klekkja á öðrum.

Helga, kannast við þennan stað og röðina sem þú nefnir.

Held að ökumenn þurfi að róa sig í upferðinni en ekki um of. Vinstri akrein er ekki fyrir þá sem vilja fara hægt yfir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.1.2017 kl. 13:38

5 identicon

Þó bíllinn sem ég ek oftast á í borgarumferðinni sé stærri en Yaris er hann þó nógu og lítill til að ég fái það stundum á tilfinninguna að hann sé ósýnilegur, allavega þegar búið er að svína fyrir mann á tvennum til þrennum gatnamótum í röð.

Hins vegar þarf þessi sem Ómar lýsti síðast ekki bara að athuga viðhorf sín til annarra ökutækja, heldur líka að athuga með landslögin. Það er nefninlega bannað að þykjast vera lögga.

Á hinn bóginn er Síðuhafi hér líklega að ruglast með vinstri akreinina. Miðað við notkunina er hún ætluð þeim sem þurfa að tala í síma við akstur....

ls (IP-tala skráð) 23.1.2017 kl. 08:29

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Vinstri akrein, símaakrein ... Góður.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.1.2017 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband