Áramótaávarp eins og þau gerast leiðinlegust

FlugeldarÁgætu landsmenn (borið fram með djúpri, tilgerðarlegri röddu),

Á þessum tímamótum er gott að gera upp fortíðina og líta til framtíðar. Má vera að ég hafi valdið einhverju efnahagshruni. Hugsanlega er ég ábyrgur fyrir tapi Landsbankans á sölu hlutabréfa í Borgun og svo getur vel verið að ég hafi ekið of hratt í á fagurri sólarnóttu frá Hólmavík til Reykjavíkur. Ég gæti nefnt fleira og alvarlegra.

Um þetta má endalaust deila, jafnvel karpa og hugsanlega rífast. Skynsamlegast er þó að láta þetta liggja í þagnargildi enda ég sé strax eftir þessari upplýsingu.

Lítum frekar til framtíðar enda eru litlar líkur á því að ég geti hjálparlaust valdið efnahagshruni enda stendur hugur minn til annarra ódæða. Ekki mun ég ábyrgjast sölu hlutabréfa fyrir einn eða neinn í náinni framtíð, hef öðrum afglapahnöppum að hneppa. Og síst af öllu er ég líklegur til brjóta hraðareglur umferðalaga frekar en fyrri daginn.

Um leið og ég varpa ofangreindu út í myrkvað algleymið er ekki úr vegi að minna á þjóðarleirskáldið sem kvað:

Hvað? spurði karlinn og kvað
kvæði og ég veit ekki hvað.
Það skrifaði hann með hrað,
hróðugur og svo er nú það.

Þetta er hrein snilld, svo ég segi sjálfur frá. Að lokum er ekki úr vegi að minnast á þá sem senda frá sér ómerkileg og leiðinleg áramótaávörp, draga jafnvel blessuð þjóðskáldin nauðug inn í hjal sitt og misnota hin fegurstu ljóð sem við það verða eins og hringmiginn fjallaskáli að vetrarlagi. Öllum til andstyggðar.

Þá er snöggtum skárra að hafa sem fæst orðin, óska einfaldlega gleðilegs árs og eftir þörfum að það komandi verði gæfuríkt. Eða bara sleppa því ef helv... ódámurinn á ekkert gott skilið.

Verst er þó af öllu að vera allsgáður og hripa svo niður þennan dómadags leiðinlegan texta.

Ég óska þeim sem álpast til að hafa lesið þetta óráðshjal fram að síðasta punkti, gleðilegs árs og vona að það næsta verði þeim miklu, miklu betra.

Ætíð er innistæða til bjartsýni. 

Þökk þeim sem hlýddu (þýðir að hlusta, ekki að fara að fyrirmælum (veit ekki hvort lesandinn aðhyllist íslensku eða ísl-ensku)).

Skál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband