Hápólitísk yfirlýsing gegn einkabílnum, þvingun og refsing

Til hvers höfum við samgöngukerfi? Það er til að koma fólki og vörum á milli staða. Það er ekki til þess að koma þessum járnhylkjum sem heita bílar á milli staða.

Þetta er hápólitísk yfirlýsing Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem hann leggur fram fyrir hönd borgarstjórnarmeirihlutans. Hún er einfaldlega hótun. Noti menn ekki almenningsfarartæki verður okkur gert illmögulegt að nota einkabílinn. 

Svona hótun rímar ansi vel við þær skoðanir sem meirihlutinn hefur haft á orði undanfarin ár. Og ekki nóg með það. Sambærilegar pólitískar yfirlýsingar hafa hrotið af munni lykilstarfmanna borgarskipulagsins, rétt eins og það sé þeirra að hafa opinbera skoðun á stefnumörkun borgarinnar.

Okk­ur finnst strætó ekki vera að tefja einka­bílaum­ferð. Í strætó er fullt af fólki sem gef­ur meiri mein­ingu í um­ferðar­kerf­inu en þegar einn eða tveir eru í hverj­um bíl. Þar af leiðandi finnst okk­ur rétt­læt­an­legt að strætó hægi á um­ferð endr­um og eins.

Þetta sagði Pálmi Freyr Randversson, í fjölmiðlum fyrir rúmum tveimur árum og er  einungis staðfesting á þeirri fyrirætlan núverandi borgarstjórnarmeirihluta að útrýma einkabílnum úr borginni. Hið sama endurtók Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, í viðtali í morgunútvarpi Bylgjunnar í gær.

Ég er algjörlega á öndverðri skoðun. Samgöngukerfið er einfaldlega til þess að koma ökutækjum á milli staða, bílum, flutningabílum og fólksflutningabílum. Hluti af því er einnig ætlað til að auðvelda gangandi, hlaupandi og hjólandi fólki ferðir þess.

Verkefni stjórnvalda er því einfaldlega fólgið í því og gera samgöngukerfið þannig að fólk komist á milli staða.

Það getur aldrei verið hlutverk borgaryfirvalda eða sveitarstjórna að þvinga fólk til að nota einn samgöngumáta umfram annan. Það getur ekki endað vel sé stefnan sú að fara gegn vilja og þörfum íbúanna, hvað þá að reka grímulausan áróður fyrir almenningssamgöngum og hindra um leið notkun á einkabílnum.

Borgarbúar geta ekki annað en staðið upp og mótmælt yfirgangi borgarstjórnarmeirihlutans. Starfshættir hans eru ótækir. Þeim finnst í lagi að tefja umferð einkabíla þegar frjálslynt fólk segir að ástæða sé til að auðvelda alla umferð.

Ætlum við að láta þetta lið stjórna borginni, segja okkur hvernig við eigum að ferðast um borgina, þvinga okkur til að láta að kröfu sinni, refsa okkur ef við gerum það ekki?

Ég segi einfaldlega nei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alveg skelfilegt að fara í gegnum bæinn. Mætti byrja á því að setja Geirsgötuna í stokk. 

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.12.2016 kl. 16:38

2 Smámynd: Hrossabrestur

Gleðileg jól, það stendur kjósendum í Reykjavík næst að skera höfuðborgina úr þessari snöru, maður er farinn að efast um að þeir sem fara fyrir í borgarstjórn gangi heilir til skógar andlega. 

Hrossabrestur, 23.12.2016 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband