Heimskuleg grein um heimskulega ákvörðun
8.11.2016 | 10:50
Forseti Íslands sem hefur sagt að hann: vænti þess að þingið vindi ofan af þessari ákvörðun [Kjararáðs] getur gefið út að hann muni setja bráðabirgðalög áður en þing komi saman nema Kjararáð lækki launin eða hann fái það staðfest frá formönnum allra flokka að Alþingi muni vindi ofan af ákvörðuninni. Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun Kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.
Þetta segir nýkjörinn þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, í grein í Fréttablaðinu og þykir ábyggilega flestum greinin einstaklega skrýtin. Auðvitað er maðurinn ekki að gera neitt nema auglýsa sjálfan sig og um leið vaknar efi í huga lesandans, hvort vegi meira, sjálfsauglýsingin eða óánægjan með niðurstöðu Kjararáðs.
Sé mikil þykkja í Jóni Þór út af ákvörðuninni, af hverju vinnur hann ekki með þingflokki Pírata í málinu, það ætti nú að auka slagkraftinn tífalt? Gæti kannski verið að þingflokkurinn sé honum ekki sammála eða ræður bara löngunin til þess að auglýsa sjálfan sig sem hinn hugprúða riddara óréttlætisins?
Svo er það annað sem þingmaður á að vita. Forseti Íslands setur ekki bráðabirgðalög. Það gera ráðherrar ríkisstjórnar en forseti skrifar undir sé hann samþykkur.
Þegar nánar er að gáð er grein Jóns Þórs heimskuleg tilraun til að auglýsa sjálfan sig. Hann hótar að kæra ákvörðun Kjararáðs. Óvíst er að hverjum sú kæra beinist því flestir eru á þeirri skoðun að síðasta ákvörðun ráðsins hafi vægst sagt verið undarleg.
Í vísu sem ég nam einhvern tímann segir:
Heimskingjarnir hópast saman
og hefur hver af öðrum gaman.
Og eftir því sem þeir eru fleiri
eftir því verður heimskan meiri.
Fer nú saman að með heimskulegri grein hótar þingmaður kæru vegna heimskulegrar niðurstöðu Kjararáðs. Og ekki eru gáfurnar miklar því svo virðist sem hann hóti eftirtöldum:
- Forsetanum nema hann setji bráðabirgðalög gegn ákvörðun Kjararáðs
- Kjararáði, nema það hætti við allt saman
- Formönnum þingflokka, nema þeir lofi því að þeir láti Kjararáð hætta við allt saman
Furðulegar hefur varla neinn þingmaður skrifað og er þó úr mörgu að velja.
Og nú situr Jón Þór Ólafsson, háttvirtur þingmaður, með hendur í skauti og bíður þess að þeir sem hann hótaði sendi honum allra auðmjúklegast loforð um betrumbætur svo hann þurfi ekki að kæra.
Allflestir virðast vera á móti ákvörðun Kjararáðs og þar af leiðandi bendir allt til þess að henni verði breytt í meginatriðum. Í því ljósi er það fyndnasta við grein Jóns Þórs sú ómerkilega staðreynd að þegar upp er staðið getur hann sagt:
Sko, sjáiði hvernig ég lét afnema ákvörðun Kjararáðs. Mikið óskaplega er ég góður og vandaður maður.
Að lokum vil ég feta í fótspor þingmannsins og kæra Veðurstofu Íslands nema því aðeins að vætutíðinni linni, hvassviðri hætti og í staðinn fari að frysta og snjóa.
Myndin er af Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, fyrir utan þinghúsið, en því miður sést í gegnum hann.
Kærir verði ákvörðun ekki breytt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:09 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst þessi ákvörðun Jóns Þórs mjög góð. Hún sýnir okkur að það er allavega einn þingmaður að vinna fyrir fólkið í landinu. En hvort það skilar einhverju er svo önnur saga. Því þó þessi ákvörðun kjararáðs sé kolólögleg, þá hefur þessi ákvörðun líka áhrif á laun dómara. Þeir geta þvælt málið teygt það og togað, þangaðtil allir eru búnir að gleyma því. En réttast væri að reka kjararáð eins og það leggur sig. Því þeir eru ófærir um að vinna eftir þeim lögum sem þeim er ætlað að vinna eftir.
En stærsi vandi þjóðarinnar er Sigurður minn að þið í sjálftökuflokknum skiljið ekki lengur að lög eru til að fara eftir þeim. Og siðferði eg held að þar séuð þið algerlega "blankó". Það er löngu orðið tímabært að menn fari eftir lögum og reglum í þessu landi nema menn vilji að sjálftökuflokkurinn setji landið á hausinn aftur.
Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 14:05
Þakka þér fyrir innlitið, Steindór, og athugasemdina. Ég held, en er þó ekki viss, að þú hefðir verið skiljanlegri ef þú hefðir lesið pistilinn og rætt innihald hans frekar en að reyna að tvinna saman samhengislaus orð um mig og einhverja sem ég þekki ekki.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.11.2016 kl. 14:19
Já Sigurður, ég las greinina þína og þú skautar algerlega framhjá því að þessi ákvörðun kjararáðs er kolólögleg. Því að í lögunum segir að þeir skuli taka mið af launaþróun í landinu. Samkvæmt þinni grein, skipta þessi lög akkúrat engu máli. Þú talar bara um sjálfsupphafningu Jóns Þórs. Svo viðurkenni ég að ég fór að blanda í málið sjálftöku flokkanna á sjálftöku bankanna á sínum tíma, og það er vegna þess að eina stefna sjálftökuflokksins er EINKAVÆÐING = sjálftaka á bitastæðustu ríksfyrirtækjunum. Því að í mínum huga er samhengi í þessu öllu saman.
GRÆÐGI GRÆÐGI OG EKKERT NEMA GRÆÐGI.
En gangi þér sem allra best, hvort sem þú skilur mig eða ekki.
Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 14:46
Sæll aftur, Steindór. Pistillinn minn fjallar ekkert um lögmæti eða ólögmæti ákvörðunar kjararáðs. Þú hefðir því getað sleppt því að skrifa athugasemdina. Hestar eru hestar og ekkert nema hestar (en það kemur málinu ekkert við).
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.11.2016 kl. 15:00
Sigurður. Það er óvanalegt að sjá til þín skrifa með dónaskap og fúkyrðum um annað fólk. Það er annað en ég þekki þig af.
Auðvitað er maðurinn ekki að gera neitt nema auglýsa sjálfan sig og um leið vaknar efi í huga lesandans, hvort vegi meira, sjálfsauglýsingin eða óánægjan með niðurstöðu Kjararáðs.
Það er semsagt útilokað í þínum huga að þingmaðurinn sé einfaldlega að fylgja sinni eigin sannfæringu? Það segir meira um þig en hann.
Sé mikil þykkja í Jóni Þór út af ákvörðuninni, af hverju vinnur hann ekki með þingflokki Pírata í málinu
Vegna þess að þingið er ekki að störfum, og einn þingflokkur getur heldur ekki breytt þessu upp á sitt einsdæmi. Það getur hins vegar hver og einn þingmaður sem hefur lögvarinna hagsmuni að gæta, með nákvæmlega þeirri aðferð sem Jón Þór bendir á grein sinni.
Svo er það annað sem þingmaður á að vita. Forseti Íslands setur ekki bráðabirgðalög.
Ekki? 33/1944: Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands (28. gr.)
"Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum. ..."
Eins og fyrr sagði er þingið einmitt ekki að störfum núna.
Það gera ráðherrar ríkisstjórnar...
Hvaða ríkisstjórnar? Þeirrar sem ekki er búið að mynda? Veistu yfirhöfuð hvers vegna stjórnarskráin býður upp á þennan möguleika sem bráðabirgðalög eru? Svar: einmitt út af slíkum aðstæðum.
Furðulegar hefur varla neinn þingmaður skrifað og er þó úr mörgu að velja.
Þú hefur greinilega ekki lesið þá pistla sem Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi þingmaður hefur skrifað með reglulegu millibili á síður Morgunblaðsins undanfarin misseri og láta kenningar um flata jörð eða eðlufólk virðast næstum því trúverðugar í samanburði.
þegar upp er staðið getur hann sagt ... Mikið óskaplega er ég góður og vandaður maður.
Já það getur hann Jón Þór blessaður fullum fetum, vegna þess að það er nefninlega hárrétt lýsing á þeim góða og vandaða manni.
...feta í fótspor þingmannsins og kæra Veðurstofu Íslands...
Nema með því værirðu reyndar alls ekki að feta í fótspor hans, vegna þess að veðrið er hvorki ákveðið af mönnum né ógildandlegt, en hvort tveggja á aftur á móti við um úrskurði kjararáðs.
Pistillinn minn fjallar ekkert um lögmæti eða ólögmæti ákvörðunar kjararáðs.
Það gerði hins vegar grein Jóns Þórs öðrum þræði. Lastu hana kannski ekki? Eða um hvað fjallar annars þessi pistill ef ekki það?
Þú hefðir því getað sleppt því að skrifa athugasemdina.
Þú hefðir alveg getað sleppt því að skrifa þennan pistil, sem bætti engu við uppsafnaða þekkingu mannkyns, heldur dró úr henni.
Þessi skrif þín bera því miður aðeins vitni um hróplega vanþekkingu á stjórnarskránni og öðrum lögum. Það skín blindandi skært í gegn að þér er í nöp við Pírata og ert hér einungis að nota tækifærið til skítkasts að einum þeirra. Ekki tókst betur til en svo að þú hittir beint í eigin fætur og rannst á rassinn í drullunni.
Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.11.2016 kl. 21:20
Forsetinn getur lagt bráðabirgðalög án þess að ráðherra óski þess, hefðin hefur hinsvegar verið sú að forsetinn geri það ekki.
"28. gr. Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög [er Alþingi er ekki að störfum].1) Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð [fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný]."
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 21:40
Elfar: Í skýringum við stjórnarskránn sem sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskárinnar segir meðal annars um 28. grein:
„Þótt greinin mæli fyrir um að forsetinn gefi út bráðabirgðalög verður slíkt eins og endranær aðeins gert að frumkvæði og á ábyrgð ráðherra skv. 13., 14. og 19. gr. stjskr.“
Höfundarnir eru Eiríkur Tómasson, prófesson, Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor, Kristján Andrei Stefánsson, sendifulltrúi.
Með fullri virðingu, Elfar Aðalsteinn, þá held ég að almenna lögskýringin á 28. grein stjórnarskrárinnar sé ofangreind. Hann getur ekki upp á sitt eindæmi gefið út bráðabirgðalög enda uppfyllir hann ekki lagaskilyrði til að gera það eins og fram kemur.
Þeir sem eru ekki sammála geta haldið áfram að berja höfðinu við steininn en það breytir hins vegar engu. Forsetinn hefur ekki löggjafarvald.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.11.2016 kl. 22:15
Sem var það sama og var sagt um vald forseta til að hafna lögum ekki satt?
Og núna síðast þegar "sérfræðingar" vildu meina það að ef forsætisráðherra óskaði eftir þingrofi þá yrði forsetinn að verða við því, það gékk ekki alveg upp fyrir Sigmund er það?
Hvað varðar síðustu málsgrein þína þá bendi ég bara á stjórnarskrá lýðveldisins.
"2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið."
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 22:37
Sæll Guðmundur Ásgeirsson. Mér er það óskiljanlegt hvernig þú getur fundið út dónaskap eða fúkyrði í pistlinum. Fjarri því.
Hins vegar er málatilbúnaður þingmannsins með þeim endemum að hann er nær óskiljanlegur nema það eina að hann er á móti ákvörðun kjararáðs.
Þingmenn eru ekki í einhverju limbói þó þing hafi ekki komið saman. Til dæmis hefur þingflokkur Pírata hist nokkrum sinnum eftir kosningar. Hins vegar gæti samkomulagið verið svo slæmt að þeir tali ekki saman um einstök mál, jafnvel þó þau séu ein alvarleg og ákvörðun kjararáðs.
Forseti getur ekki sett bráðabirgðalög, sjá svar til Elfars Aðalsteins Ingólfssonar hér fyrir ofan.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er afar fróður maður og skrifar oftast góðar greinar (hef gagnrýnt hann fyrir eina slæma). Mér virðist þú ekki par kurteis í garð Vilhjálms með ummælum þínum um hann.
Undarlegt er að þurfa að skýra efni pistilinn út fyrir jafn klárum manni eins og þú vissulega ert, Guðmundur. Hann fjalla um upphafningu þingmannsins á sjálfum sér.
Í niðurlagi greinar sinnar hótar hann að kæra nema því aðeins að forsetinn, kjararáð eða formenn þingflokka aðhafist eitthvað vegna ákvörðun kjararáðs.
Þessi kæruhótun er bara bull í manninum?, dómsdags heimska
Af hverju kærir hann ekki kjararáð eða niðurstöðu þess frekar en að hóta kæru?
Ég skal svara því. Það er vegna þess að Jón Þór veit ekki hver ætti að taka við kærunni; lögreglan, saksóknari, héraðsdómur, hæstiréttur, Neytendasamtökin, FÍB eða ríkissáttasemjari. Eða þá að hótunin er bara til að sýnast.
Væri hins vegar kæran tekin fyrir hjá dómstólum verður henni ábyggilega vísað frá vegna þess að Jón Þór Ólafsson, þingmaður, á aungvra hagsmuna að gæta, á honum er ekki brotið.
Skynsamlegast fyrir þingmanninn er að taka málið fyrir í þinginu, leggja fram þingsályktun eða frumvarp til laga um málið. Það datt honum hins vegar ekki í hug af því að hann hefur greinilega ekki hugsað málið til enda.
Og þar er ég kominn að kjarna málsins: Hvers vegna er hugsun mannsins svona takmörkuð? Er hann fyrst og fremst að auglýsa sjálfan sig eða er hann ekki skarpari en þetta? Þú fyrirgefur mér vonandi. Ég þekki ekki manninn og verð því að draga ályktanir af því sem hann segir eða skrifar.
Athugasemd þín í lokin er ansi skrýtin, að ég hafi með skítkasti hitt í eigin fætur og runnið á rassinn í drullunni. Furðuleg samlíking sem gengur engan veginn upp.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.11.2016 kl. 22:47
Sæll Elfar. Réttur forseta til að hafna lögum hefur alla tíð verið fyrir hendi, um það eru fyrirmæli í stjórnarskránni. Það hefur hins vegar þær afleiðingar að leggja þarf lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og var síðast gert tvisvar vegna Icesave samningana, sem voru lagafrumvörp.
Forseti hefur alltaf haft þann rétt að neita forsætisráðherra um heimild til þingrofs telji hann að meirihluti Alþingis sé á öndverðri skoðun. Sé meirihlutinn sammála forsætisráðherra getur forseti ekki hafnað þingrofi.
Önnur grein stjórnarskrárinnar hefur að baki flóknari skýringar heldur en í fljótu bragði sýnast. Í stuttu máli sagt er verið að reyna að setja skorður við að löggjafinn framselji vald sitt, þá ber forsetanum að grípa inn í. Þetta má glögglega sjá þegar eldri stjórnarskrár Íslands eru skoðaðar í samanburði sem og tilgangurinn með þessari grein. Hér er þó eingöngu átt við að forsetinn þurfi að staðfesta lagafrumvörp til að þau megi verða að lögum. Samþykki Alþingis dugar ekki til eitt og sér. Hins vegar er ekki átt við að forsetinn geti sett lög eða lagt fram frumvörp til laga.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.11.2016 kl. 23:04
Sigurður.
Það er greinilegt á öllu að þú virðist ekki skilja það sem Jón Þór er í raun að vekja athygli á með framsetningu sinni, þ.e.a.s. að ákvörðun kjararáðs sé ólögleg, og þar af leiðandi ógildanleg.
Þér kann að finnast aðferðin við að vekja athygli á því asnaleg, gott og vel þá er það bara þín skoðun og ég verð að reyna að virða það. Og ef þér finnst það ekki fúkyrði að gera öðru sæmilega vel gefnu fólki upp heimsku og væna það um óheilindi, þá það.
Nokkur atriði í viðbót:
Píratar geta ekki breytt þessu upp á sitt einsdæmi, hvort sem þing er komið saman eða ekki. Til þess þarf meirihluta, en fordæmi eru fyrir slíku og án efa munu slík tillaga koma fram, þegar þing verður komið saman. Það er einn liðurinn í framsetningu Jóns Þórs, sem bendir til þess að hann muni a.m.k. láta reyna á þann möguleika.
Varðandi orðalagið "kæra", þá er algjör óþarfi að vera með útúrsnúninga þó að orðanotkunin hjá ólöglærðum einstaklingum sé ef til vill ónákvæm að þessu leyti, sem er reyndar algeng málvilla. Þá einfaldlega leiðréttir maður það bara og bendir á að rétta hugtakið sé "að höfða mál". Það er fáránlegt að halda því fram að Jón Þór viti ekki undir hvern eigi að bera slíkt mál. Í greininni hans kemur skýrt fram að málið yrði lagt fyrir dómstóla. Einnig kemur fram að hann hafi fengið lögfræðing sem gæti höfðað slíkt mál fyrir sína hönd, og hvort sem Jón Þór kann réttu lögfræðiorðin eða ekki þá hlýtur lögfræðingurinn sem um ræðir að kunna þau og vita það mætavel hvernig maður höfðar ógildingarmál fyrir dómstólum.
En svo vikið sé að löggjafarvaldi forseta: Í 2. gr. stjórnarskrár segir "Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið". Þetta er ekki orðað svona að ástæðulausu, því hvað gerist þegar Alþingi er ekki að störfum og knýjandi aðstæður koma upp sem nauðsynlegt er að bregðast við með lagasetningu? Jú, það er einmitt þá sem forsetinn getur brugðist við með því að setja bráðabirgðalög. Þannig er hlutverk forsetans meðal annars að fara með löggjafarvald þegar Alþingi er ekki með það, svo það rofni aldrei.
Þetta með að valdið megi aldrei rofna, er mjög mikilvægt svo ekki myndist stjórnskipunarkreppa. Kæruleysi er ekki leyfilegt í þeim efnum hversu léttvægar sem kringumstæður kunna að virðast.
Það má líta á þetta eins og kefli sem hlauparar rétta hvor öðrum. Þegar Alþingi er að störfum fer það með keflið og á meðan er forsetinn ekki með það, og svo öfugt. Það sama má segja um framkvæmdavaldið, á þeim tíma sem líður frá því að ríkisstjórn er leyst frá störfum og ný skipuð er það forsetinn sem fer einn með framkvæmdavaldið, svo það rofni aldrei.
Ef það gerist að báðar þessar kringumstæður beri upp samtímis, þá er forsetinn í raun eini handhafi bæði framkvæmda- og löggjafarvalds rétt á meðan, og gæti fræðilega séð gert ráðherratillögu við sjálfan sig sem forseta um að setja bráðabirgðalög sem hann gæti svo undirritað og þá væri það orðið lög. Ég held meira að segja að slíkar aðstæður séu í uppsiglingu einmitt núna á næstu dögum...
Guðmundur Ásgeirsson, 9.11.2016 kl. 00:16
Sæll, enn og aftur Guðmundur.
Ákvörðun kjararáðs kann að vera ólögleg. Um það hef ég ekki nefnt að öðru leyti en því að flestir virðast vera á móti ákvörðuninni.
Nei, mér finnst grein Jóns Þórs ekki asnaleg. Hún er bara heimskuleg.
Ég er ekkert með útúrsnúninga. Hann hótar að kæra nema því aðeins að forsetinn, kjararáð eða formenn þingflokka geri eitthvað. Þvílíkt bull.
Er búinn að nefna í athugasemd nr. 7 skýringar sem Eiríkur Tómasson, prófessor, Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor, Kristján Andri Stefánsson, sendifulltrúi, skrifuðu 2005 og er svona um 28. greinina:
Þótt greinin mæli fyrir um að forsetinn gefi út bráðabirgðalög verður slíkt eins og endranær aðeins gert að frumkvæði og á ábyrgð ráðherra skv. 13., 14. og 19. gr. stjskr.
Sömu menn segja um 2. grein stjórnarskrárinnar:
Þegar kveðið er á um að Alþingi og forseti fari saman með löggjafarvaldið er einkum átt við það að forseti þurfi að staðfesta lagafrumvörp, sem þingið hefur samþykkt, til þess að þau öðlist gildi sem lög, sbr. 26. gr. stjskr.
Þetta er sá skilningur sem almennt er lagður í stjórnarskránna. Þó langt sé um liðið frá því ég sat í lagadeild HÍ mundi ég þó eftir þessu úr tímum.
Forsetinn hefur aldrei löggjafarvald. Í því skjöplast Jóni Þór og þér hrapalega. Landið er aldrei án löggjafarþings þó það sé ekki að störfum.
Einnig er það bölvuð vitleysa að forseti fari með framkvæmdavaldið því landið er aldrei án ríkisstjórnar nema hugsanlega að forminu til í tvær klukkustundir á milli ríkisráðsfunda þar sem ein ríkisstjórn segir af sér og önnur tekur við.
Ég veit ekki hvar þú hefur heimildir fyrir skýringum þínum á stjórnskipun og stjórnarskrá. Þær eru gjörsamlega út í hött ... Það gengur algjörlega gegn þrískiptingu valdsins að sami aðili sem bæði með framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið. Einungis vantar samkvæmt þinni kokkabók dómsvaldið upp á að forseti landsins sé algjörlega einvaldur; setji lög, stjórni landinu samkvæmt lögum sem hann hefur sett og dæmi samkvæmt eigin lögum.
Fyrir alla muni farðu aftur yfir heimildir þína. Ég hef því miður ekki tíma til að spjalla meira við þig.
Og meðan ég man, þetta með hann Jón Þór Ólafsson. Ekkert sem þú hefur sagt hefur breytt neinu í pistlinum mínum. Líklega er það eina sem kann að vera rétt hjá þér er að það segir líklega meira um mig heldur en þingmanninn.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.11.2016 kl. 00:56
Eru ekki allir sammála um að hækkanirnar séu óeðlilega háar, í einum áfanga? Hef ekki heyrt annað frá neinum. Endalaust má deila um laun þingmanna og annara, sem heyra undir kjararáð. Allar bollaleggingar og spekúlasjónir um lög, sem varða þetta, eru hálfgerð tímaskekkja. Ef öll lög væru alveg kristaltær og óumdeilanlega fram sett, væru lögfræðingar óþarfir. Er nokkuð sammála síðuhöfundi um það að þetta útspil Jóns Þórs angi dulítið af populisma, sýndarmennssku og vissu um það að skyndisóknir heppnist ávallt. Það er unnið að því að mynda ríkisstjórn þessa dagana og sennilega rétt að verðandi þingmenn andi aðeins með nefinu og haldi sér til hlés, í umræðunni um þetta tiltekna mál. Miðað við samhljóminn meðal flestra er kristalklárt að tekið verður á þessu máli, af þar til bærum aðilum.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 9.11.2016 kl. 01:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.