Hvort ræður, sannfæring þingmanns eða vilji meirihluta þjóðar?

Dómstóll í Englandi hefur úrskurðað á þá leið að ríkisstjórn Bretlands skuli leita samþykkis þingsins áður en svokallað úrsagnaferli úr ESB hefst.

Hér er um að ræða afar forvitnilegt álitamál sem er bæði siðferðilegt og ekki síður rammpólitískt. Látum nú vera þennan dóm en skoðum málið ef það verður svo eftir áfrýjun til hæstaréttar að ríkisstjórnin þurfi að fá samþykki þingsins fyrir útgöngu úr ESB.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni samþykkti meirihluti Breta að ganga úr ESB. Setjum sem svo að þingið sé ekki sammála þjóðinni, getur það þá hætt við Brexit? 

Í þessu felst nú álitamálið: Er þingmaður siðferðilega bundinn eigin sannfæringu eða meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Kjarni málsins er enn alvarlegri. Er þingmanni stætt á því að greiða atkvæði á móti niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu sem hugsanlega getur haft þær afleiðingar að ekki sé farið að vilja þjóðarinnar?

Hvað hefði til dæmis gerst ef lög væru þannig hér á landi ríkisstjórn geti ekki farið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu nema þingið samþykkti? Hvað hefði þá orðið um Icesave-samningana svo dæmi sé tekið?

Nú er það alkunna að almenningsálitið breytist hratt í skoðanakönnunum. Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram á allt öðrum tíma en skoðanakannanir. Þær gefa vísbendinu en eru ekki niðurstaða. Þar af leiðandi er útilokað að halda því fram að þingmanni sé skylt að fara eftir skoðanakönnunum í störfum á löggjafarþinginu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er hins vegar allt annað mál. Margir munu eiga erfitt með að ganga gegn þjóðarvilja, en sé hann þvert á sannfæringu versnar staðan.

Segjum sem svo að hér fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu og niðurstaðan sé svo lögð fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar. Hvað gera þingmenn?

  • Getur sá sem er á móti aðild kosið gegn þjóðarvilja?
  • Getur sá sem er með aðild kosið gegn þjóðarvilja?

Eflaust taka margir þessu létt og fullyrða að þjóðarvilji eigi að ráða en hvað verður þá um djúpa sannfæringu þingmannsins?

Gaman væri að heyra álit lesenda á þessu álitamáli, ekki um aðild Íslands að ESB eða Brexit enskra, heldur hinu siðferðilega og pólitíska.


mbl.is Dómararnir sagðir „óvinir þjóðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Nú verður forvitnilegt að vita hver ÖRLÖG LÝÐRÆÐISINS VERÐA????

Jóhann Elíasson, 4.11.2016 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband