Sjálfsásakanainnantökusökudólgaleitandi pakk
1.11.2016 | 18:44
Smám saman tókst þeim að fæla æ fleiri frá flokknum, með lokuðum prófkjörum, kvótum og girðingum sem allur almenningur hló að. Og þeim tókst færa flokkinn svo langt til vinstri að hann gleymdi erindi sínu. Þegar öllu er á botninn hvolft líkar þeim betur við hið þrönga erindi Vinstri grænna en sitt eigið.
Þegar pakkið tekur síðan að sér að reka kosningabaráttu er útkoman fyrirsjáanleg. Erindið er ekkert, utan loforðið um að greiða fyrirfram skaðabætur fyrir krónuna. Annars almennt hjal um gott samfélag og réttlæti. Ekkert sem hönd á festi. Enginn baráttuandi, ekkert pönk, engin uppreisn gegn Panamastjórninni. Og enginn sem kunni til verka svo að séð yrði.
Þessi tilvitnun er úr einni af þeim bestu greinum sem ég hef lesið í langan tíma. Ekki vegna þess að höfundurinn Karl Th. Birgisson er að fjalla um félaga sína í brunarústum Samfylkingarinnar, ekki af því að hann er afburða ritfær maður og ekki vegna þess að ég sem Sjálfstæðismaður sé að hlakka yfir óförum stjórnmálaflokksins í kosningunum.
Nei, Greinin er góð vegna þess að hún tekur á því þegar stjórnmálin vantar í pólitíkina, yfirborðsmennskunni, þegar menn gleyma stefnunni, staðfestunni og eldmóðnum.
Vissulega var Samfylkingin stjórnmálaflokkur með stefnu. Hins vegar breyttist allt vegna þess að fólkið í vinsældarleiknum reyndist ekki vanda sínum vaxið, eða með orðum Karls:
Þetta er líka fólkið sem fór á taugum í Hruninu. Þau görguðu hæst einmitt þegar yfirvegunar var þörf. Þau voru enn í taugaáfalli þegar endurreisnin átti sér stað 2009-2013.
Í stað þess að standa hnarreist, finna til ábyrgðar sinnar og ganga til verka lögðust þau í naflaskoðun. Skrifuðu skýrslur þar sem mátti eiginlega lesa að Samfylkingin hefði valdið Hruninu. Skipulag hennar og vinnubrögð.
Þarna lýsir Karl fólkinu sem ber ekki skynbragð á stjórnmál, fólkið sem hrærist í ómerkilegum dægurmálum og aflar upplýsinga úr fyrirsögnum fjölmiðla en lætur vera kynna sér málin lítið meira en að fara inn á Facebook. Þetta fólk er svo sem til í flestum flokkum.
Og Karl heldur áfram:
Á meðan aðrir stóðu sótugir upp í hársrætur í brunarústabjörgun kyntu þau undir aðför að Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. Þau lyftu ekki litlafingri henni til varnar þegar setið var um heimili hennar. Þau lögðu Björgvin G. Sigurðsson í einelti og gera enn, eina manninn sem axlaði ítrekað pólitíska ábyrgð á atburðum sem hann tók engar ákvarðanir um. Þau töldu líka landsdómsmálið vera meðal stærstu réttlætisverka jafnaðarmanna á seinni árum.
Þegar fylgi flokksins var loks farið að hjarna við þótti þeim tímabært að reyna að steypa forystunni með sólarhrings fyrirvara á landsfundi, þvert á hina merku lýðræðishefð um að formann skuli kjósa í almennri kosningu allra félagsmanna. Sú aðgerð ein segir allt um dómgreind Reykjavíkurpakksins.
Smám saman tókst þeim að fæla æ fleiri frá flokknum, með lokuðum prófkjörum, kvótum og girðingum sem allur almenningur hló að. Og þeim tókst færa flokkinn svo langt til vinstri að hann gleymdi erindi sínu. Þegar öllu er á botninn hvolft líkar þeim betur við hið þrönga erindi Vinstri grænna en sitt eigið.
Þetta gerist þegar sá tilgangur með stjórnmálastarfi færist frá því að vinna landi sínu og þjóð gagn og beinist þess í stað að sjálfinu, like-unum og vinunum á Facebook og smáatriðunum.
Karl kallar þetta fólk reykvíska sjálfsásakanainnantökusökudólgaleitandi liðið og heldur því fram að það sé nú þingmannslaust. Þar hefur hann rangt fyrir sér. Nokkrir nýir af þessari gerð voru kosnir á þing um síðustu helgi en eru í öðrum flokkum.
Þó Samfylking virðist nú heyra sögunni til þarf gott fólk í öllum flokkum að taka sig nú saman og fara að vinna að því að færa stjórnmálin að hærra plan. Gera þau þannig að stefnan verði aftur sú að búa til betra Ísland.
Sá leikur sem nú stendur yfir og kallast stjórnarmyndunarviðræður á lítið skylt við annað en samkvæmisleik sem hver sumir taka þátt í vegna þess að þeir vilja ekki vera útundan, þora ekki að taka afstöðu af hræðslu við hugsanlegar afleiðingar. Þegar svo er komið sögu í stjórnmálum er markmiðið sjálfið, ekki stefna eða hugsjón.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:45 | Facebook
Athugasemdir
Flott fyrirsögn Sigurður!
Annars er ég að fara að kasta mér út af.
Bíð spenntur að lesa þetta í fyrramálið.
Jón Valur Jensson, 2.11.2016 kl. 03:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.