Samfylkingin niðurlægð
30.10.2016 | 10:28
Merkustu tíðindi kosninganna eru þau að Samfylkingin þurrkast nær út, fær 5,7% atkvæða. Fær þrjá menn kjörna, tapar sex þingmönnum. Formaður flokksins hangir inni ásamt tveimur mönnum, hvorugur þeirra er þekktur utan flokksins.
Þungavigtin
Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson falla út af þingi. Snautlegur árangur eftir átján ára tilvist þessa flokks sem átti að sameina vinstri menn, vera hinn turninn á móti Sjálfstæðisflokknum. Þungavigtarfólkið hrasaði út af þingi, þetta sama fólk og var svo áberandi í ríkisstjórn Samfylkingar og VG.
Krataflokkur langt til vinstri
Hver er skýringin? Ekkert eitt getur skýrt allar þessar hörmungar flokksins. Þó verður að nefna að hann hvarf meðvitað frá því að vera vinstri sinnaður miðjuflokkur í að vera algjör vinstri flokkur. Hægri kratar fengu hæli hjá Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. Vinstri kratar sem ekki hugnaðist lengur að vera í Samfylkingunni fóru yfir í Vinstri græna og þar líður þeim ábyggilega betur.
Innanbúðarerjur
Stríðsástand innan flokksins hefur veikt hann gríðarlega. Árni Páll Árnason náði sér aldrei eftir ódrengilega árás Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem ætlaði sér að verða formaður en tapaði með aðeins einu atkvæði. Sjálfsímynd manna getur laskast af minni ástæðum. Árni Páll bar ekki sitt barr eftir þetta. Nú eru þau bæði fallin af þingi, formaðurinn og tilræðismaðurinn.
Vinstri stjórn Jóhönnu
Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms reyndist ekki vinsæl. Upphaflegt verk hennar var að hreinsa til eftir hrunið en ætlaði að gera svo miklu meira. Henni tókst í raun og veru ekkert.
Allt varð henni til trafala, ESB málið, Icesave, stjórnarskrármálið, dómar hæstaréttar um gjaldmiðlatengingu skulda, verðtryggingin, staða heimilanna og fleira og fleira. Meðan þessi ríkisstjórn sem kenndi sig við norræna velferð og skjaldborg um heimilin þóttist gera allt gerði hún ekki neitt. Á meðan sáu embættismenn um að stjórna landinu. Ríkisstjórnin var dauð af innanmeinum eftir tvö ár en eins og Brésnev forðum vissi hún ekki af því.
Niðurstaðan varð sú að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var rasskellt í kosningunum 2013. Samfylkingin hélt síðan áfram á sinni feigðarbraut meðan VG hafði vit á því að fela Steingrím og aðra forystumenn sína sem voru svo áberandi í vinstri stjórninni og sækja síðan nýtt fólk. Það dugði þeim.
Björt framtíð
Kratar eru þó ekki allir fallnir af þingi. Í Bjartri framtíð eru einn fjórir þingmenn. Hjáleigan er nú orðin stærri en höfuðbólið.
Sannast sagna er þetta snautlegur árangur Samfylkingarinnar. Hún er orðin minni en Alþýðuflokkurinn var nokkru sinni. Jafnaðarstefnan er greinilega í andaslitrunum. Kratar hafa fengið pólitískt hæli í öðrum flokkum og kunna hugsanlega að bíða eftir því að einhver hreinlyndur jafnaðarmaður vilji sameina vinstri menn enn einu sinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Veit ekki hvort það sé hægt að segja að Samfylkingin hafi verið lengst til vinstri. Í eftirmála hrunsins var hún votur draumur vogunnarsjóða og bankstera en allri orkunni var eytt í að koma okkur undir ESB og evru.
Það er rétt að vera minnugur þess að krafan um evru og inngöngu í bandalagið byrjaði hjá einkavæddu bönkunum og útrásinni, sem vildu meira olnbogarúm. Þar þjónaði Samfylkingin dyggilega. Þeir sem stóðu hinsvegar harðast gegn útrásaraðlinum voru raunar sjálfstæðismenn og enn hefur ekki gröið um heilt milli þeirra og Baugsveldisins hvað þá Kaupþingsmafíunnar. Þeir eru búnir að setja obban af þeim i tukthúsið og beila út almenning.
Sjálfstæðisflokkurinn var og er hinn sanni miðjuflokkur en Samfylkingin skilgetið afkvæmi og eign útrásarinnar.
Jón Steinar Ragnarsson, 30.10.2016 kl. 10:56
Það má eiginlega segja að Viðreisn sé öfgafyllsti hægriflokkurinn með glóbalismann (ESB) á oddinum, stórbrotin einkavæðingaráform og uppboðskerfið í sjávarútvegi sem færir þeim meira sem mesta valdið hafa þar.
Jón Steinar Ragnarsson, 30.10.2016 kl. 11:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.