Hvar á lesbían að vera?
3.9.2016 | 15:31
Hvar á sá feiti að vera?
Þetta spurði Arnar Páll Hauksson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, og brosti þegar forsætisráðherra nálgaðist panelinn í beinni útsendingu á viðræðum stjórnmálamanna í Norræna húsinu. Sjá hér.
Fréttamaðurinn bað forsætisráðherra réttilega afsökunar á að hafa sagt þetta í tvígang enda gat hann ekki annað.
Í kjölfarið hafa vinir og velunnarar fréttamannsins keppst við að skýra ummælin og milda þau eins og hægt er. Gott er að eiga vini eins og Egil Helgason, fjölmiðlamann, sem segir í bloggpistli sínum:
Arnar Páll Hauksson er dugmikill fréttamaður, fylginn sér og afar reynslumikill, það er ekki lítils virði á tíma þegar fólk endist stutt í starfi á fjölmiðlum. Hann á það til að vera dálítill orðhákur og hafði orð á sér fyrir það í eina tíð að vera meinhorn. Vinnufélagar hans telja þó að hann hafi mildast mjög með árunum.
Helgi Seljan, fréttamaður Ríkisútvarpsins, sagði eitthvað álíka um vin sinn í þættinum Vikulokin, mistök og lélegur húmor var niðurstaða þriggja álitsgjafa í þættinum sem síst af öllu hafa hingað til haft nokkurn skilning fyrir stefnu Framsóknarflokksins né forystumönnum hans.
Þannig er nú eiginlega með Arnar Pál Hauksson, fréttamann, að hann kann að vera dugmikill fréttamaður, orðhákur og meinhorn. Hitt er að hann er líka reynslumikill og það get ég vottað eftir að hafa hlustað á manninn í langan tíma í skylduáskrift minni að Ríkisútvarpinu.
Eftir því sem ég best fæ skilið er Arnar Páll pólitískur og það skín í gegn í starfi hans sem fréttamaður. Hann er hvorki Sjálfstæðismaður né Framsóknarmaður heldur vinstri maður og þess vegna gat hann gert grín að vaxtarlagi forsætisráðherrans.
Bendi á eitt, á tímum vinstri stjórnarinn hefði húmor Arnar Páls ábyggilega ekki verið þannig að hann hefði spurt í álíka aðstæðum hvar lesbían ætti að vera í panelnum.
Staðreyndin er einfaldlega sú að það er miklu auðveldara að gera grín að þeim sem mann líkar ekki við. Enginn kallar föður sinn, móður, bróður, systur eða annan nákominn ættingja feitan á opinberum vettvangi. Því fjær sem viðkomandi er því auðveldara er að skjóta út niðurlægjandi athugasemdum og gera lítið úr öðru fólk. Framsóknarmaðurinn liggur vel við höggi og allir eiga að skila og hlægja dátt þegar rætt er um feita kallinn.
Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst ef forsætisráðherra hefði verið staðinn af álíka talsmáta og fréttamaðurinn viðhafði. Segjum sem svo að hann hefði kallað þingkonu Samfylkingarinnar feita eða fréttamann leiðinlegan! Hvað þá.
Hefðu Egill Helgason, Helgi Seljan og Arnar Páll Hauksson komið forsætisráðherra til aðstoðar og reynt að draga úr málinu með því að kenna um lélegum húmor og álíka? Einhvern veginn á ég bágt með að trúa því. Held að staðan sé einfaldlega sú að svo ótalmargir telja Framsóknarflokkinn sjálfsagt skotmark sem og fulltrúa hans og nota megi útlitsleg einkenni þeirra til að draga úr trúverðugleikanum.
Flestir hlægja af þeim hlammast á gólfið þegar stóllinn brotnar. Maður skellihlær og segir frá þessu þegar heim er komið og gleymir ekki að minnast á kaffið sem sullaðist yfir viðkomandi. Hefði svo óheppilega til að mamma hefði skollið á gólfið þegar stóllinn brotnaði hefði maka, syni, dóttur síst af öllu verið hlátur í huga. Svona er mannlegt eðli, við hlægjum þegar aðhlátursefnið tengist okkur ekki neitt. Nema við kunnum okkur og sýnum aðgát og umhyggju - hlaupum til aðstoðar.
Talsmáti okkar byggist framar öllu á uppeldinu og þeim taumum sem við höfum á okkur sjálfum.
Ég man eftir því í æsku minni að hafa verið ósáttur við kennara og kallað hann helvítis kallinn en fékk alvarlegar ávítur frá foreldrum mínum fyrir vikið. Oft kom það fyrir að við strákarnir í Barmahlíðinni urðum ósáttir og þó öll rök bentu til þess að ég hafi ekki átt upptökin var tekið á málum heima eins og sökin væri öll mín.
Málefnaleg afstaða byggir á sanngirni, virðingu og kurteisi gagnvart öllum. Síst af öllu byggist hún á að ráðast gegn þeim sem maður er ósammála vegna skoðana, stjórnmálstefnu, útlits, litarhafts, trúarbragða kyns eða annars.
Miklu erfiðara er að ástunda málefnalega rökræðu og sanngirni heldur en að láta allt vaða eins og virkir í athugasemdum sorpblaða tileinka sér. Auðvelt að bulla eitthvað í þeirri von að fá viðurkenningu þeirra sem næst standa, kalla þennan feitan og þann næsta lesbíu, hvort tveggja í niðrandi merkinu.
Sérstaklega gaman er að fá hlátur fyrir vikið og vera þannig talinn hinn mesti spaugari ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.