Fellur hlaup úr Grímsvötnum í Bláfjallakvísl við Emstrur?
23.8.2016 | 14:51
Þunnur er nú þrettándinn þegar leitað er frétta um jökulhlaup á mbl.is. Hugsanlega er ekkert frekar um hlaupvatn í tveimur jökulum að segja. Skemmtilegra er þó að lesa fréttavef Ríkisútvarpsins, hann fjallar á lyginlegan hátt um sama efni. Í honum segir:
Lítið jökulhlaup er hafið úr Grímsvötnum. Íshellan hefur fallið um fimm metra síðan fyrir helgi og því ekki búist við að hlaupið verði stórt. Hlaupvatn rennur aðallega í Gígjuhvísl en einnig í Bláfjallahvísl sem rennur frá norðurhluta Mýrdalsjökuls.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er mikið jökulvatn í Bláfjallahvísl. Vöð yfir ána geti verið varasöm og því ástæða fyrir ferðafólk til að fara varlega. Brennisteinslykt gæti fundist á svæðinu en ekki er talið að hætta stafi af hlaupinu.
Sem sagt, hlaupið úr Grímsvötnum rennur í Bláfjallakvísl sem á uppruna sinn í Mýrdalsjökli um 120 km í burtu. Annað hvort er ofangreind tilvitnun í vef Ríkisútvarpsins illa skrifuð eða landfræðiþekking fréttamannsins er ekki betri- nema hvort tveggja sé.
Illa skrifandi blaða- og fréttamenn eru að verða plága í íslenskum fjölmiðlum og koma slæmu orði á þá sem í raun og veru kunna til verka. Eina bestu sönnunina er að finna á vef Eiðs Guðnasonar, fyrrum alþingismanns og ráðherra. Þar gagnrýnir hann málfar í fjölmiðlum og því miður skortir aldrei umfjöllunarefni.
Eins og sjá má á kortinu er Bláfjallakvísl í órafjarlægð frá Grímsvötnum og víst að hlaupvatn mun ábyggilega villast um allar koppagrundir áður en það kemst í Bláfjallakvísl sem er norðan við Emstrur.
Á vef Veðurstofu Íslands er þetta:
Mikið jökulvatn er í Bláfjallakvísl sem rennur frá norðurhluta Mýrdalsjökuls. Ferðafólk er hvatt til að gæta varúðar og sýna aðgát þar sem vöð yfir ánna gætu verið varahugaverð.
Jökulhlaup er hafið úr Grímsvötnum og rennur það í Gígjukvísl. Í Grimsvötnum var ekki mikið vatn svo allar líkur eru á að hlaupið verði lítið. Brennisteinslykt gæti fundist á svæðinu en ekki er talið að hætta stafi af hlaupinu.
Sé þessi texti borinn saman við þann sem birtist á vef Ríkisúrvarpsins sést að hann er að stofni til hinn sami. Fréttamaðurinn hefur þó af lítil þekkingu reynt að prjóna einhverja vitleysu við hann og breyta uppröðuninni.
Sama er gert í fréttinni á mbl.is. Engum dettur í hug að birta kort eða segja eitthvað nánar um jökulfljótin tvö. Raunar er það svo að Bláfjallakvísl er yfirleitt blátær. Nokkur hundruð metrum norðan er annað jökulfljót, Kaldaklofskvísl sem kemur úr allt öðrum jökli, Torfajökli. Engar sögur er þó um að hlaupvatn úr Grímsvötnum falli í Kaldaklofskvísl.
Svo má vekja athygli á því að jökulvötn eru farin að renna úr jöklum, hætta að falla samkvæmt langri málvenju. Um leið hefur fólk hætt að ganga erinda sinna og labbar þess í stað út um allt.
Kl. 15:25 ... Tek núna eftir því að fréttinni á vef Ríkisútvarpsins hefur verið breyt. Nú fylgir kort með henni og þar er Bláfjallakvísl merkt en æ, æ ... austan við Mýrdalsjökul þar sem raunar heitir Bláfellsá við Öldufellsjökul.
Greinilegt að enginn fullorðinn er á vakt, eins og Eiður Guðnason myndi orðað það.
Jökulhlaup hafið úr Grímsvötnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Facebook
Athugasemdir
Eins gott að vera ekki mikið á þvælast norðan Mýrdalsjökuls næst þegar fer að gjósa í Grímsvötnum! Annars má rekja þennan misskilning til viðvörunnar Veðurstöðvarinnar sem fjallar um tvo aðskilda atburði með þeim hætti að rammvilltir fjölmiðlamenn gætu haldið að um einn atburð sé að ræða.
Emil Hannes Valgeirsson, 23.8.2016 kl. 21:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.