Víkingur - KR, mikill munur á einkunnagjöf fjölmiðla
26.7.2016 | 11:53
Í gær léku Víkingur og KR í Fossvoginum og ég horfði á hann í sjónvarpi. Heimamenn unnu en það var tæpt. KR-ingar áttu nær allan leikinn, stjórnuðu honum meira eða minna allan tímann en komu boltanum ekki framhjá ágætum markverði Víkinga, Róberti Erni Óskarssyni.
Ég rak því upp stór augu þegar ég las eftirfarandi í umfjöllun Moggans um leikinn:
Víkingar nálguðust þennan leik af mikilli festu og voru ákaflega þéttir og baráttuglaðir. Markvörðurinn Marko Perkovic lék sinn fyrsta leik með liðunum og skiluðu góðu dagsverki
Þetta er auðvitað fljótfærnisvilla en á ekki að sjást. Marco þessi sem nefndur er í tilvitnuninni er ekki markmaður heldur varnarmaður.
Einkunnagjöf Morgunblaðsins virðist vera tilviljunarkennd í meira lagi og stundum efast maður um að blaðamenn hafi verið á þeim fótboltaleik sem þeir þó skrifa um.
Aðeins tveir leikmenn KR fá stig fyrir leik sinn, Chopart og Beck. Ótrúlegur nánasaskapur blaðamannsins að Óskar Örn Hauksson, Indriði Sigurðsson og Skúli Jón Griðgeirsson skuli ekki hafa hlotið náð fyrir augum hans, allir drífandi menn og höfðu mikil áhrif á leikinn.
Eins er með Víkingana. Þrír fá stig, áðurnefndur „markmaður“ Marko, Ívar Örn Jónsson og Dofri Snorrason. Undarlegt að menn eins og Halldór Smári Sigurðsson eða Gary Martin skuli ekki hafa fengið stig. Það skekkir síðan alla niðurstöðu einkunnagjafar Moggans misjafnt er hversu margir leikmenn fá einkunn. Það fer oft eftir því hverjir skrifa fréttina.
Fréttablaðið stendur sig ekki ekki skár í íþróttafréttum en Mogginn. Þó eru ítarlegri fréttir oftast birtar á vefsíðu blaðsins, visir.is, og jafnvel stuttu eftir leik.
Fréttablaðið gefur öllum leikmönnum stig fyrir frammistöðu sína sem er mun réttlátari aðferðafræði heldur en að taka einn og einn út og láta sem svo að aðrir hafi ekki staðið sig. Hins vegar má deila um hverjir fá háa einkunn og hverjir ekki og ekki síður hvernig leikmenn eru metnir.
Sé einkunnagjöf Moggans og Fréttablaðsins borin saman virðist lítið samræmi í henni. Hvað varðar leik Víkings og KR virðist sem þessir fjölmiðlar hafi verið á sitt hvorum leiknum, svo miklu munar í einkunnagjöf.
Igor Taskovic fær 8 í einkunn hjá Fréttablaðinu en kemst ekki á blað hjá Morgunblaðinu. Fimm leikmenn Víkings fá 7 í einkunn hjá Fréttablaðinu en aðeins tveir þeirra fá M hjá Morgunblaðinu.
Allir sjá að þessi einkunnagjöf Morgunblaðsins gengur ekki upp en aðferð Fréttablaðsins gefur skárri mynd af frammistöðu leikmanna.
Hitt er svo annað mál hvernig blaðamenn komast að niðurstöðu í einkunnagjöf sinni. Skyldu þeir skrá frammistöðu leikmanna í sókn, í vörn, á miðju? Tapaðir boltar, unnir boltar, fyrirgjafir, stöðvun á sókn, skallar og svo framvegis? Leyfi mér að draga það í efa að þeir skrái ítarlega hjá sér hvað gerist. Ætli frammistaðan sé ekki metin með „svona á að giska“ aðferðinni, „mér finnst“ eða bara „hann er svo viðkunnanlegur“ aðferðinni.
Staðreyndin er einfaldlega sú að einkunnagjöf getur skipt miklu máli og fjölmiðlar hafa áhrif. Það væri því ljóta ruglið ef blaðamenn meta frammistöðu fótboltamanna eftir einhverju öðru en bláköldum staðreyndum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:58 | Facebook
Athugasemdir
Umfjöllun Mogga um leikinn olli mér vonbrigðum.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.7.2016 kl. 20:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.