Draumur um úrslit landsleiksins við Englendinga
27.6.2016 | 09:59
Hvernig fer landsleikur Íslands og Englands á mánudag?
Þannig spyr útvarpsþátturinn á Bylgjunni, Reykjavík síðdegis á visir.is. Lesendum er síðan ætlað senda svar sitt. Spenningurinn vegna EM leikja íslenska landsliðsins hefur verið mikill og liðið hefur náð frábærum árangri, komið í sextán liða úrslit.
Englendingar hafa ekki riðið feitum hesti frá þátttöku sinni í stórmótum. Mögru tímar þeirra hafa verið langir í góðir. Var það ekki árið 1966 sem liðið varð heimsmeistari með því að sigra Þjóðverja á Wembley? Ekkert síðan, og nú eru Englendingar komnir í sextán liða úrslit á Evrópumótinu, öllum að óvörum.
Ekki misskilja mig en ég hef haldið með enska landsliðinu lengur frá því ég man eftir mér en man þó sjaldnast neitt. Hvers vegna veit ég ekki. Sko, menn mega ekki blanda saman ensku deildarkeppninni og halda að Englendingar séu svo óskaplega góðir í fótbolta af því að Premium League er ein sú albesta í heiminum. Þar leika svo margir leikmenn af öðrum þjóðernum en ensku að þeir síðarnefndu komast varla í byrjunarlið. Má vera að þetta sé aðeins orðum aukið hjá mér.
Auðvitað vinnur England íslenska landsliðið. Annað hvort væri það nú. Aðalþjálfari enska landsliðsins (sjá mynd) sendi fimm manna teymi til að greina leikinn við Austurríki og það enga smákalla. Svo verða leikmenn Englendinga mataðir á upplýsingunum og þeim sagt að gera þetta þegar Íslendingar gera hitt ... Við munum því rekast á vegg í öllum varnar- og sóknaraðgerðum, segja enskir.
Ef til vill er hér sóknarfæri fyrir liðið okkar svo fremi sem þjálfararnir láti krók koma á móti þessi bragði. Ég spái fimm mörkum enskra gegn einu okkar. Það væri stórsigur. Ekki satt?
Í morgun hringdi í mig berdreymin maður. Hann fullyrti að honum hefði dreymt forsíða Morgunblaðsins á morgun sem að öllum líkindum er enn óskrifuð. Úr draumnum man viðkomandi aðeins þetta sem ritað var með stríðsletri: Stórgos hafið í Heklu.
Nú þarf væntanlega einhvern til að ráða drauminn vegna þess að allir draumar eru þannig að þeir eru ekki um það sem þeir fjalla. Þeir eru alltaf um eitthvað allt annað sem svo þarf að túlka.
Dreymandinn heldur því fram að draumurinn merki einfaldlega stórsigur okkar manna á enska landsliðinu. Sérlegur draumaráðandi sem ég leitaði til heldur því fram að hann sé hvorki fyrir eldgosi né úrslitum í fótboltaleik heldur eigi rætur sínar að rekja til óhóflegrar sykurneyslu dreymandans.
Ég er hins vegar þess fullviss að hann sé fyrir snjóavetri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég veðja á Heklugosið - EF maðurinn ER berdreyminn. Ef ekki, þá gæti það þýtt ýmislegt annað, jafnvel snjóavetur. :)
Kolbrún Hilmars, 27.6.2016 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.