Hefurðu enga sómakennd, Davíð

Kurteis og prúður forsetaframbjóðandi spyr mótframbjóðanda sinn æsingslaust einfaldra spurninga en fær yfir sig holskeflu svívirðinga í fjölmiðlum. Hann er sagður óalandi og óferjandi, margir ráða sér ekki á samfélagsvefjum og kalla hann dóna, og mótframbjóðandinn sem átti ekki til svar við spurningunum spyr í nauðvörn sinni: „Hefurðu enga sómakennd, Davíð?“

Vissulega er þetta eftirminnileg spurning, en hvað var það eiginlega sem setti fésbókina á hliðina, breytti nokkrum borgurum í „virka í athugasemdum“, og þeir sem eru vanir að tjá sig í örstuttum svívirðingum á vefnum urðu sem talibanar í réttarhaldi þar sem þeir semja jafnóðum lögin og fella svo hinn endanlega dóm með sverði?

Þetta sagði Davíð Oddsson og getur nú hver og einn metið hversu hræðileg þessi orð eru:

  1. Guðni hefur nýja sýn á embættið, en segir ekkert um það hvaða sýn það er.
  2. Almenningur veit ekkert um Guðna og fyrir hvað hann stendur.
  3. Það sem vitað er um skoðanir Guðna hefur hann verið að hlaupa frá.
  4. Síðasta ríkisstjórn vildi ganga inn í Evrópusambandið ... eins og Guðni.
  5. Ríkisstjórnin vildi greiða Svavars-samningana ... eins og Guðni.
  6. Guðni rökstuddi afstöðu sína með Icesave-samningunum nákvæmlega eins og Jóhanna og Steingrímur.
  7. „Varstu virkilega að mæla með að við gerðum samning um Icesave sem við ætluðum svo ekki að standa við?“
  8. Ríkisstjórnin vildi gera atlögu að stjórnarskránni ... eins og Guðni.
  9. Guðni sagði: „Gera þarf gagngera og róttæka endurskoðun á stjórnarskránni vegna hrunsins.“

Hverju svaraði svo forsetaframbjóðandinn? Jú, með almennum orðum nema að honum þótti þetta með Icesave-samningana ósanngjarnt og orð sín væru slitin úr samhengi. Hefurðu enga sómakennd, Davíð? spurði loks Guðni Th. Jóhannesson. Hann hafði ekki annað að segja og svo var ekki meira um sómann rætt.

Enn er ekki vitað af hverju Guðni spurði. Var það út af því að Davíð var ókurteis, ruddalegur, vondur eða ósanngjarn? Nei, en ýmislegt bendir til þess að mótframbjóðandinn hafi ekki búist við því að þurfa að svara fyrir fyrri orð.

Þessi níu atriði eru þess eðlis að frambjóðandi þarf að geta svarað þeim og svörin gefa meðal annars til kynna hvort hann sé traustsins verður. Forsetaframbjóðanda á ekki að leyfast að hlaupa frá fyrri yfirlýsingum og skoðunum bara af því að hann er í framboði.

Lengi hefur það verið svo að allir hafa leyft sér að berja á Davíð, ausa yfir hann svívirðingum, saka hann um að þiggja mútur, ganga erinda auðmanna og svo framvegis. Enginn spyr það lið um sómakennd.

Allir sem vilja vita gera sér hins vegar grein fyrir því að þótt Davíð sé harður í horn að taka er hann heiðarlegur og vill landi sínu hið allra besta. Í því efni kann hann til verka. Hann er maðurinn sem sagði að Íslendingar ættu ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Þjóðin fylgdi því ráði.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég treysti Davíð Oddssyni betur en öllum öðrum til að sinna embætti forseta Íslands á fumlausan og virðulegan hátt.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 1. júní 2016.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrirlitningin sem skein úr augum Davíðs fór ekki framhjá mörgum

Sigurður Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 2.6.2016 kl. 11:57

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Vá ... þetta er alveg hræðilegt, Sigurður Helgi (engin fyrirlitnin í þessum orðum mínum).tongue-out

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.6.2016 kl. 13:12

3 identicon

Eg fyrirlit stridsglaepamannin David Oddson

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 2.6.2016 kl. 14:16

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

En þú ætlar samt að kjósa Davíð. Er það ekki, Helgi Ármannsson?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.6.2016 kl. 14:46

5 identicon

Það er gaman að fylgjast með ykkur Davíðistunum rembast eins og rjúpan við staurinn en ykkur mun ekki vera ágengt vegna þess að kjósendur eru skynsamt fólk sem ekki lætur bjóða sér hvað sem er.

Davíð var oft skemmtilegur í den tid en það virðist hafa elst af honum. Núna er hann gamall fúllyndur kall. 

Samkvæmt könnunum eru einkum gamlir karlar sem styðja hann.

Sigurður Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 2.6.2016 kl. 15:25

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Finnst þér ekki líka gaman að fylgjast með Andra Snæistum sem líka rembast eins og rjúpan við staurinn ... og svo framvegis.

Ég skora á þig að kíkja á kosningaskrifsstofu Davíðs í dag kl. 17 og spjalla við hann. Þú hefur ábyggilega gaman af því að spjalla við gamlan fúllyndan kall. 

Þú getur ábyggilega skemmt þér dálítið.smile

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.6.2016 kl. 15:30

7 identicon

Af þessum níu atriðum er aðeins ein spurning, annað eru fullyrðingar og/eða ásakanir. Davíð krafði Guðna ítrekað svara um sýn hans á forsetaembættið, en sá enga ástæðu eða gaf sér ekki tíma til að greina frá sinni sýn á það. Björn Ingi spurði Davíð bæði um sýn hans á embættið og viðbrögð hans vegna Icesave hefði hann verið forseti, en Davíð komst upp með að svara hvorugu. Sneri Icesave spurningunni reyndar sjálfur upp á Guðna.

Um leið og Davið hermir hluti upp á Guðna er hroki að segja "Elskulegi Guðni" og ekkert vinalegt við það. Sjálfur sat ég 2 tíma fyrirlestur í gær að tilefni 40 ára afmælis endaloka þorskastríðsins. Erindin þar vörpuðu skýru ljósi á landhelgisdeiluna og blésu á ásakanir Davíðs. Meðal gesta voru fyrrverandi liðsmenn Landhelgisgæslunnar sem tóku beinan þátt í deilunni og höfðu þeir engar athugasemdir við orð Guðna.

Davíð virtist mæta í þáttinn sem spyrill en notaði ekki tækifærið til að upplýsa áhorfendur um sína framtíðarsýn og áherslur sem forseti. Ekki eina sekúndu.

Tel Guðna hafa svarað þessum 9 atriðum, en hverju viltu meina að sé ósvarað og endilega bentu mér á hvar sýn Davíðs á forsetaembættið kemur fram í viðtalinu.

Þórður Vilberg (IP-tala skráð) 2.6.2016 kl. 16:11

8 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Pistillinn fjallar ekki um sýn Davíðs á embættið heldur hvort hann hafi sýnt Guðna dónaskap.

Má vera að Guðni hafi svarað þessum níu atriðum. Það er hið besta mál, gott hjá manninum. Pistillinn fjallar hins vega um það heldur hvað af þeim hafi verið svo hræðilegt, dónalegt, ókurteist eða annað sem Davíð hefur ítrekað verið borið á brýn.

Má vera að orð Davíðs „Elskulegi Guðni ...“ hafi ekki verið vinaleg. Held að þau hafi ekki valdið Guðna neinum umtalsverðu sálrænu tjóni.

„Gangi þér vel Davíð,en ekki samt of vel“. Manstu eftir þessum orðum Guðna? Má vera að sumum hafi ekki fundist þau vinaleg. En mikið óskaplega er það nú erfitt ef allir þurfa að vera elsku vinir og aldrei megi segja neitt tvírætt eða beinskeitt.

Frambjóðendur hafa fullt leyfi til að skjóta á hvern annan og eiga að gera það. Annars er engin þörf að hafa þá í sama þættinum og skiptast á að láta þá mala.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.6.2016 kl. 16:42

9 identicon

Ég skil ekki hvað það er svo hræðilegt við það að ég hafi kosið með icesave á sýnum tíma. Hjá flestum kjósendum tókust á tvær kendir, reiðikend yfir stjórn bankanna og sómakennd eða ábyrgðarkennd til að bæta þessa skömm fyrir Íslands hönd. Í byrjun leit út fyrir að samningarnir yrðu samþykktir en reiðikenndin varð yfirsterkari hjá fleirum, skömmin varð því ekki vor, sem reyndist svo farsælt þegar dómsmálið féll okkur í vil. Út á við var þetta besta sem gat gerst fyrir ímynd íslands þ.e. það voru til skiljanlega reiðir íslendingar og skiljanlega sómakærir íslendingar. Hefðu þessir samningar verið feldir 90% þá væri þess ímynd kannski önnur og dómsmálið þá kanski tapast?

Stjórnvöld sem sem lýsa aðeins yfir reiði hafa enga sómakennd.

Stjórnvöld sem lýsa með festu yfir ábyrgð hafa sómakennd.

Að hafa hæfni til þess að geta gert bæði en ekki bara annað er mikilvægur eiginleiki.

Sveinn Ólafsson (IP-tala skráð) 2.6.2016 kl. 17:36

10 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Sveinn. Bestu þakkir fyrir innlitið. Gott innlegg hjá þér, málefnalegt og yfirvegað. Get alveg verið sammála flestu.

Um samningana við Breta og Hollendinga er það að segja að ég var og er alfarið á móti því að skattfé landsmanna sé notað til að greiða skuldir einkafyrirtækja. Fólk sem stendur í rekstri skal tryggja hann með eign peningum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.6.2016 kl. 19:33

11 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Sæll Sigurður, síðasta ath.semd hjá þér er einmitt mergur málsins. Ríkið á ekki að tryggja og greiða , skuldir einkafyrirtækja. En vandamálið, og aðgerðarleysið  úr fortíðini hverfur samt ekki. því þeim aðila, sem bendir á, og bar upp athugasemdirnar 9, átti kost á því að setja Icesave reikningana undir breska lögsögu, en afþakkaði það. Satt best að segja, þá finnst mér lítið til þeirra koma, sem klappa þennann mann upp, því gjörðir hans hér áður , reyndar enn sem ritstjóri, ekki eftirsóknarverðar. Sem Forseti, nei þakka þér fyrir Sigurður. 

Jónas Ómar Snorrason, 2.6.2016 kl. 22:54

12 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Jónas Ómar, ef þér líður betur eftir að hafa komið hingað og tjáð þig, þá er það jákvætt. Aftur á mót hef ég „klappað þennan mann upp ...“ eins og þú orðar það og því skil ég ekkert í að þú komir hingað inn ef þér þykir lítið til mín koma. Ég virði samt skoðanir þínar þó ég sé ekki sammála og færi þér þakkir fyrir innlitið. 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.6.2016 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband