Hvar eru þessar tvær gömlu myndir teknar?

TrébFornleifur nefnist blogg sem Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, fornleifafræðingur skrifar. Oft skrifar Vilhjálmur skemmtilega og varpar upp forvitnilegum hliðum á fortíðina. 

Í pistli um daginn birtir Vilhjálmur tvær gamlar myndir og óskar eftir liðsinni lesenda til að finna hvar þær voru teknar. Stundum er ég nokkuð naskur að finna út hvar gamlar myndir eru teknar en í þetta sinn er ég frekar blankur, eyddi samt drjúgum hluta sunnudagsins til einskis. 

Vilhjálmur segir:

Á myndinni má sjá fjóra karla, leiðsögumennina (Guides), sem bendir einhvern megin til þess að útlendingar gæti hafa verið með í för. Myndin sýnir einnig fjögur hross. Áð er við stórt og gamalt reynitré. Þjóðminjasafnið upplýsir að myndin sé tekin í Grafningi og að maður sjái líka á í bakgrunninum niðri á flatlendinu.

TréMér sýnist hins vegar að þetta séu aðeins voldugri vötn en á, og ímyndaði mér, áður en ég sá dóm Þjóðminjasafns fyrir þeirra mynd, að hún væri tekin nærri Laugavatni. Ef einhverjir geta skorið úr um það væru upplýsingar vel þegnar. Er myndin úr Grafningi eða úr nágrenni Laugavatns.

Oft er ráð að kanna hvort gamlar myndir sem birtar eru á vef eða prenti séu speglaðar, sérstaklega ef áhöld eru um staðsetningu. Hér er fyrri myndin, sú efri er eins og birtist á Fornleifi en sú neðri er spegluð. Hægt er að smella á myndirnar og stækka.

Mér finnst eins og að efri myndin sé rétt og þá gæti hún hugsanlega verið af Úlfljótsvatni og ofar sé Þingvallavatn. Þessi kenning stenst þó ekki að öllu leyti. Landslagið virðist frekar flatt og Búrfell í Grímsnesi er ekki sjáanlegt. Þá velti maður því fyrir sér hvort neðri myndin sé rétt og hún tekin úr hlíðum Búfells. Það finnst mér ólíklegt, hlíðarnar heldur brattar.

Ég velti því líka fyrir mér hvort myndin væri af Laugarvatni og Apavatni. Efri myndin gæti þess vegna verið tekin suðvestan við Laugardalsfjall, en lögun vatnanna passar ekki og svo eru þau alloft nálægt hvoru öðru til að hugmyndin gangi upp.

Svona má nú fimbulfamba um eitthvað sem maður veit ekkert um og því er betra að kalla til leitarflokka.

Tré2bcSé myndin stækkuð má sjá að þarna eru sandbrekkur og rofabörð hingað og þangað. Lítið vatn virðist vera skammt frá minna vatninu og í fjarska, lengst til hægri, má greina fjöll og vötn.

Næsta mynd gæti hugsanlega verið af sama reynivið, en Vilhjálmur segir á bloggi sínu:

Reynirinn "í Grafningi" hélt líklegast áfram að vaxa og dafna, því í byrjun 20. aldar var tekin mynd reyni einum miklum (sjá hér). Myndina tók Magnús Ólafsson og á bakhlið hennar er ritað: 10 álna hátt Reyniviðartré í Grafningi. Ætli það pár sé nú ekki frekast ástæðan fyrir því að myndin af reyninum hér ofar í "brekkunni" er tileinkuð er Sigfúsi Eymundssyni og sögð úr Grafningi? En er þetta nú í raun og veru sama tréð og á myndunum tveimur hér ofar? Hvar er þá fjallið í bakrunninum sem er á steríómynd Magnúsar Ólafsson, sem var tekin á tímabilinu 1905-1920?

Tré2bOg til að geta velt fyrir sér myndinni er hún hér spegluð. Mér finnst ekki ólíklegt að fjallið í bakgrunni sé Laugarvatnsfjall. Hins vegar truflar forgrunnurinn mig talsvert. Þar virðast vera fossar sem falla fram af einhverri sléttu og þar með er nágrenni Laugarvatns úr sögunni. 

Hægt er að rýna lengi í þessar myndir en gæðin eru ekki mikil og þær eru nokkuð rispaðar.

Spurningin sem eftir stendur er þá þessi með reyniviðinn. Hvar stóð hann eða stendur hann jafnvel enn? Þar gæti lausnin verið. Má vera að einhverjir þekki hann og um leið sagt frá hvar myndirnar, önnur eða báðar, voru teknar.

Gaman væri nú ef einhverjir lesendur þessara lína gætu aðstoðað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka þér fyrir Sigurður að veita mér lið í þessari þraut. Skoðaðu, og þið sem komið hér við, athugasemdirnar á mínu bloggi (sjá hér). Þar hafa menn séð þá möguleika, að myndin frá 19. öld sé tekin norðan og sunna við Þingvallavatn. Fjallasýnina vantar, ef myndin er tekin úr suðri og er spegilmynd. Stereómyndin eftir Magnús Ólafsson held ég sannast sagna að sé ekki af sama trénu.

FORNLEIFUR, 31.5.2016 kl. 06:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband