Þversögnin

DSC_0288_HDR_editHinn 13. júlí 1703 rann upp bjartur og fagur á Þingvöllum. Blá slikja lá yfir skógunum milli Hrafnagjár og Almannagjár, þar sem næturdöggin leystist upp í gufu fyrir hlýjum geislum morgunsólarinnar. Fuglasöngur ómaði í kjarri og lofti. Silfurgljátt vatnið féll blítt að skrúðgrænum töngum og kjarri vöxum hólum.

Hrafnabjörg og Arnarfell voru dökk og svipþung, en á aðra hönd skein sólin á hvítan koll Skjaldbreiðs, en á hina hönd var Hengillinn grænblár með hvítum gufustrókum, er lagði hátt upp í vindlaust loftið. Það var einn af þeim ógleymanlegu morgnum á Þingvöllum, þegar náttúran tjaldar sínum fegursta skrúða og lífið virðist dásamlegt og fagnaðarríkt.

Svo fallega og skáldlega lýsir Árni Óla morgni á Þingvöllum og lesandinn minnist ósjálfrátt annars morguns í túlkun norska tónskáldsins Edvard Griegs úr tónlistaverkinu Pétur Gautur. Ef til vill ekki sanngjarnt að bera saman en tilfinningin á það stundum til að bera skynsemina ofurliði. Pétur Gautur var maður breyskur og lenti í mörgum hremmingum og ævintýrum. Hins vegar var ekkert ævintýralegt í lýsingu Árna Óla og lesandanum er á einu andartaki kippt inn í hrottalegan samtímann:

DSCN0669En þeir, sem þá voru á Þingvöllum, gáfu þessu engan gaum. Þeir höfðu um annað að hugsa. Daginn áður höfðu þeir drekkt þar konuvesling af Akranesi fyrir barneign, og nú voru þeir önnum kafnir við að hengja þrjá menn, sem harðæri og sultur höfðu hrakið út á ógæfubraut. Og síðan horfðu þeir á, hvernig grindhoraður unglingur var svipum laminn þangað til hann var alblóðugur og flakandi í sárum og líftóran við það að skreppa út úr líkamanum.

Þetta voru dæmdir óbótamenn, en í raun réttri voru þeir píslarvottar þjóðar sinnar. Íslendingar eru ekki þjófar né óbótamenn að eðlisfari. En vegna þess að þjóðin hafði verið svipt öllu frelsi af einræðisstjórn, sem hugsaði um það eitt að hafa sem allra mest upp úr þegnunum, eins og allra einræðisstjórna er siður, var svo komið í þessu fagra landi, að fólkið hrundi niður úr hungri. En þeir sem ekki vildu verða hungurmorða og fóru að dæmi tófunnar að bjarga sér eins og best gekk, voru gripnir og hengdir.

Og þennan fagra morgun, er sól skein á hauður og haf til sannindamerkis um, að Ísland væri landa best, kvöddu þeir „drengurinn“ úr Borgarfirði og útilegumennirnir tveir af Reykjanesi sitt auma líf, hangandi í gálgum á helgistað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.

En þriðji útilegumaðurinn, unglingurinn innan við tvítugt, var sendur hálfdauður austur á sína sveit og hefir sjálfsagt ekki þótt þar neinn aufúsugestur.

Lesandinn er án efa höggdofa eftir lesturinn. Hér skiptir nokkru í samhenginu að sagan Pétri Gaut er sögð vera norskasta verk Henriks Ibsens og er sú ályktun dregin af því hversu snilldarlega hann vefur norsk ævintýri og frásagnir inn í það. Ibsen mun hafa haldið því fram að til að skilja Pétur Gaut yrði maður að þekkja náttúru, þjóðlíf, bókmenntir og hugsunarhátt Norðmanna. Á sama hátt má halda því fram að til að skilja íslenska náttúru þurfi glöggan skilning á sögu landsins, ævintýrum, þjóðsögum, reynslu genginna kynslóða, og ekki síður hugsunarhætti þjóðarinnar á hverjum tíma.

Hnignun gróðurs

DSC_0490_HDR_editÞví hefur löngum verið haldið að okkur að landið hafi við landnám verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Fáir trúðu þessu. Efasemdarmenn skildu ekki hvers vegna skógum hafi hnignað. Fæstir skildu lítið í þessu trjáleysi þegar fornar sögur sögðu frá skógum hingað og þangað um landið. Í Kjalnesingasögu segir frá kvígunni sem bar nafnið Mús og týndist í skóginum. Hún fannst ekki fyrr en eftir þrjú ár eftir því sem segir í Kjalnesingasögu.

Þó öllum fornum heimildum beri saman um að Ísland hafi verið vel gróið í þann tíma er land byggðist hefur mörgum þótt þessi fullyrðing með þeim hæpnustu í Íslendingabók. Slíkar raddir hafa þó hljóðnað að mestu, enda virðast þeir náttúrufræðingar sem um málið hafa fjallað allir á einu máli um réttmæti þessara orða.

Þetta segir Björg Gunnarsdóttir, landfræðingur. Hún nefnir að nú sé almennt talið að landið hafi verið algróið við landnám, skógar þakið um 15 til 40% landsins í stað um 1% nú. Margar rannsóknir hafa farið fram á gróðurfari við landnám, á útbreiðslu plöntutegunda og gróðursamfélaga, hraða jarðvegsþykknunar, hlutfalli frjókorna og fleira. Rannsóknirnar benda til þess að gróður hafi þakið allt að þremur fjórðu hlutum landsins. Það sem upp á vantar eru vötn og jöklar. Nú draga fæstir þessar staðreyndir í efa.

Íslenska vistkerfið hefur tekið miklum stakkaskiptum í aldanna rás. Landið er ekki nálægt því eins byggilegt og þegar fyrstu landnemarnir settust hér að fyrir um 1100 árum. Hnignunin er gífurleg og mun meiri en flestir eiga auðvelt með að gera sér í hugarlund og hún snertir ekki einungis hina hefðbundnu nýtingu landsins til landbúnaðar heldur og fleiri svið íslensks þjóðlífs.

DSC_0380_HDR_editÞessi orð eru í grein eftir Andrés Arnalds, núverandi fagmálastjóra Landgræðslu ríkisins. Hann nefnir að rýrnun skóga hafi orðið vegna skógarhöggs, óhóflegrar beitar og þjóðin hafi að sjálfsögðu þurft á eldiviði að halda allt frá landnámi. Skógur var ruddur til að gera beitarlönd fyrir búfé og svo var hann miskunnarlaust beittur. Smám saman hurfu þeir að mestu leyti og eftir var auð jörð sem víðast blés upp í kjölfarið. Enn má sums staðar sjá kolagrafir fjarri allri mannabyggð eins og minnismerki um það sem áður var.

Nærri ellefuhundruð og fimmtíu ár hafa liðið frá því ári sem hefð er fyrir að miðað landnámið við. Á þeim tíma hefur margt gerst og landi hnignaði með hverju árhundraði. Það er flestum skiljanlegt ella hefði þjóðin ekki náð að lifa af var þó nógu margt annað fólki að fjörtjóni. Hins vegar var landi aldrei breytt þó gróðurhulan rýrnaði af mannavöldum og hvarf síðan víða. Ef undan er skilin sú smávægilega breyting að farvegi Öxarár var breytt til að þingheimur við Lögberg fengi nægt drykkjarvatn stóð þjóðin aldrei að neinum landbreytingum. Tæknilega gat hún það ekki - fyrr en í dag.

Nútíminn

Fólk sem komið er á miðjan aldur lítur gjarnan til foreldra sinna, jafnvel afa og ömmu, og ber líf þeirra saman við sitt eigið. Nútímanum er ljóst að fyrri kynslóðir unnu meira, gáfu sér minni frítíma, miðuðu líf sitt og starf við að framfleyta fjölskyldu sinni, þræluðu sér út. Í dag er lífið um flest frábrugðið þó í grunninn sé markmiðið hið sama; hafa vinnu, eignast þak yfir höfuðið og eiga fyrir mat.

IMG_0419Nú er frítíminn miklu rýmri en genginna kynslóða og raunar er það svo að frí er tiltölulega nýtt hugtak í íslenskum raunveruleika. Af auknum frítíma leiðir að afþreying er orðin afar stór atvinnuvegur og byggist á því að hafa ofan af fyrir fólki, yfirleitt utan vinnutíma. Stór hluti hennar er útivist og ferðalög. Án þess að teygja frekar lopann skal einfaldlega fullyrt að meiriháttar viðhorfsbreyting hafi orðið hjá þjóðinni. Nútíminn skilur landið sitt að mörgu leiti á annan hátt en forfeðurnir. Kynslóðir sem fæddar eru eftir miðja síðustu öld og afkomendur þeirra eru afsprengi almenns og vaxandi góðæris í efnahagslífi þjóðarinnar og hafa notið þess í uppvexti sínum, með góðri almennri menntun, menningu sem fylgir stækkandi þéttbýli, alhliða heilsugæslu, verslun, framleiðslu og að hluta til breyttri landnýtingu.

Fyrir rúmlega fjörutíu árum var drengur á tólfta ári sendur í sveit. Fyrir ofan ofan bæinn var og er enn stórt fjall og fagurlega lagaður tindur. Svo bar til dag einn í lok júlí að hlé var gert á heyskap er ættmenni heimafólks komu í heimsókn og fyrir vikið var drengurinn úr Reykjavík dálítið afskiptur. Í stað þess að væflast um lét hann draum sinn rætast og gekk á fjallið og á tindinn.

HIMG_0537_HDRonum eru enn minnisstæð orð húsfreyjunnar sem gat ekki orða bundist eftir að upp komst um gönguna og sagði með dálitlum hneykslunartón: „Hvað er tarna, til hvers að álpast upp á fjall, þar er ekkert, ekki einu sinni kind.“ Bóndinn hafði einhvern skilning á tiltækinu og benti á að tuttugu árum áður eða svo hefði sumardrengur nokkur gengið upp á fjallið, „… en hann var nú líka alltaf dálítið skrítinn“. Þess má geta að bóndinn og kona hans voru fædd á síðasta áratug 19. aldar.

Eflaust var það nýlunda fyrir suma að ungan strák langaði að ganga á fjall. Sjálfum hefur honum ábyggilega vafist tunga um höfuð við að útskýra háttalag sitt. Þó fólk stundaði almennt ekki útivist á fjöllum á þessum árum var slíkt síður en svo fágætt. Það var alls ekki upp úr þurru að síðla ársins 1927 var stofnað félag um gönguferðir og fékk það nafnið Ferðafélag Íslands og það er enn starfandi. Á fjórða áratugnum hófst starfsemi Fjallamanna undir forystu myndlistarmannsins Guðmundar Einarssonar frá Miðdal. Hann segir í bók sinni sem ber nafnið „Fjallamenn“:

„Íslendingar eru skyldugir til að leggja stund á göngur og skíðaíþrótt, þá vaxa þeim ekki fjarlægðir í augum. Sund, leikfimi og fleiri íþróttir eru ágætur undirbúningur fyrir fjallgöngumann jafnframt því, að hann beri virðingu fyrir líkama sínum. Ég veit, að fyrstu tilraunum fylgir nokkur hætta, ef ekki er reynt fólk með í för. En það aftrar mér ekki frá að hvetja fólk til að ganga á fjöll. Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. Ég hef séð kunningja minn hrapa til dauða í Alpafjöllunum, en það fékk mér ekki eins mikillar sorgar og að sjá fjölda fólks, sem ég þekki, grotna niður af fitu, leti og óreglu.“

Bókin kom út árið 1946 og þá var þegar vaknaður áhugi á ferðalögum og útiveru enda gerðu margir sér grein fyrir því að gönguferðir og fjallaferðir voru hollar, ekki aðeins líkamlega heldur einnig andlega. 

DSCN6875_HDRFerðafélagið Útivist var stofnað árið 1975 og byggði á sama grunni og Ferðafélagið. Skyndilega var komin samkeppni í ferðalögum um Ísland, gönguferðum, fjallaferðum, skíðaferðum og skoðunarferðum og var keppst um að gylla fjallaferðir. Um svipað leiti var Íslenski Alpaklúbburinn stofnaður og hefur síðan skipulagt námskeið í fjallamennsku og krefjandi ferðir á hæstu fjöll, jökla, ísfossa og fleira. Klúbburinn hefur breytt miklu í fjallaferðum hér á landi rétt eins og Ferðafélagið og Útivist.

Starfsemi björgunarsveita á þessum árum tóku breytingum og nauðsynlegt þótti að kenna ítarlega ferðahætti og fjallamennsku til að þau gætu betur sinnt starfi sínu. Árið 1999 sameinuðust sveitirnar undir nafni Landsbjargar. Aðildarfélögin sinna björgunarstarfi, þjálfa meðlimi sína, halda við þekkingu, byggja upp tækjakost og svo framvegis.

Lengi þótti lítið tiltökumál að aka utan vega. Jafnvel eru dæmi um að rannsakendur náttúru landsins hafi ekki látið vegleysur koma í veg fyrir ferðir á áfangastað. Þetta var einfaldlega lenskan hverjir sem í hlut áttu. Ekki heldur var fjargviðrast yfir skemmdum á landi. Vaðið var í það sem nefnt var „efnistaka“ án þess að biðja kóng eða prest um leyfi. Sjást enn minjar um slíkt þar sem kroppað hefur verið úr landinu, meðal annars fornum gígum og aðrir hreinlega fjarlægðir enda þótti rauðamölin afbragðs efni og til margra hluta nytsamleg.

Hægt og rólega urðu miklar breytingar á áhuga þjóðarinnar á útiveru og ferðalögum og um leið viðhorfsbreyting til náttúruverndar. Upp úr 1990 varð svo gjörbylting sem hefur staðið allt fram á þennan dag. Fólk leitar í útiveruna, ekki aðeins með ferðafélögum heldur fer áhuginn á ferðum á eigin vegum vaxandi. Líklegt er að göngu- og útivistarhópar séu í þúsundavís hér á landi.

Samkvæmt könnun sem gerð var árið 2000 ferðuðust það ár um 81% þjóðarinnar um landið sitt. Að jafnaði fór fólk í fimm ferðir á árinu og var meðallengd fyrstu ferðar 5,3 dagar.

Sambærileg könnun á ferðavenjum Íslendinga var gerð á árinu 2015 og kemur þar fram að 87,1% þjóðarinnar hafði ferðast innanlands og erlendis á árinu 2014. Af þessum tveimur könnunum má draga þá ályktun að áhugi landsmanna á ferðalögum um landið hafi síst minnkað, ef eitthvað hefur hann aukist. Raunar er það svo að séu svarendur flokkaðir eftir aldri og kyni er munurinn milli kynja og aldurshópa lítill. Og það sem hlýtur að teljast stórmerkilegt að áhuginn virðist vera stéttlaus. Allir ferðast innanlands.

IMG_3341_HDR2Ekki aðeins hafa orðið breytingar á viðhorfum alls almennings heldur hafa samhliða orðið gríðarlega breytingar í lögum og reglum um náttúru- og umhverfisvernd. Samkvæmt lögum eru nú flestar framkvæmdir háðar mati á umhverfisáhrifum, til eru lög gegn mengun hafs og stranda, meðhöndlun úrgangs, náttúruvernd, rekstur fráveitna, efni og efnablöndur, bann við losun hættulegra efna í sjó og lög um sinubrennur og meðferð elda á víðavangi og lög um verndar- og orkunýtingaráætlun sem í daglegu tali eru nefnd rammaáætlun. Þetta og margt fjölmargt annað hefur orðið til á innan við þremur áratugum. Starfandi er ráðuneyti um umhverfi og auðlindir og sérstök opinber stofnun sem nefnist Umhverfisstofnun. Stofnaðir hafa verið nýir þjóðgarðar, annar kenndur við Vatnajökul og hinn við Snæfellsjökul.

Ekki má heldur gleyma frjálsum félagasamtökum sem láta sig varða náttúru- og umhverfisvernd. Meðal þeirra eru Ferðafélag Íslands, Útivist, Íslenski Alpaklúbburinn, Samtök útivistarfélaga, Ferðaklúbburinn 4x4, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Jöklarannsóknarfélag Íslands, Fuglaverndunarfélag Íslands, Hellarannsóknafélag Íslands, Náttúruvaktin og samtök um náttúruvernd eru starfandi í öllum landsfjórðungum. Upptalningin er síður en svo tæmandi og má nefna til sögunnar margvíslegar upplýsinga- og umræðusíður á Facebook um þessi mál og vefsíðuna sem hin öflugu samtök Framtíðarlandið standa að, framtidarlandid.is.

Áhugi landsmanna er vissulega fyrir hendi. Þó ágreiningur sé um leiðir eru markmiðin í flestum tilvikum sameiginleg og öllum ljós.

Þversögnin

DSC_0217 - Version 2Áður var sagt að til að skilja íslenska náttúru þurfi skilning á sögu landsins, ævintýrum, þjóðsögum, reynslu genginna kynslóða, og ekki síður hugsunarhætti landsmanna. Hér hefur verið stiklað á stóru frá upphafi landnáms. Niðurstaðan er sú að til að þrauka gekk þjóðin á náttúru landsins, harðindi voru tíð og allt þetta hafði þær afleiðingar að það var nær skóglaust og öðrum gróðri hnignaði, gróðurleysur stækkuðu. Frammi fyrir þessu stendur þjóðin og getur í raun ekkert gert annað en bætt úr eins og kostur er, gera landið búsældarlegra með skógi og öðrum gróðri, þó ekki væri til annars en að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.

Þjóðin býr nú vel að sér. Nú steðja ekki önnur harðindi að henni nema hugsanlega hin efnahagslegu og hart er brugðist við þeim. Þó vissulega sé þjóðfélagið með öðrum brag en fyrr á öldum koma margir auga á þversögnina. Þrátt fyrir nýjar kynslóðir, breytt viðhorf til landsins, náttúrunnar og fleira og fleira virðist enn svo að „hönnun“ landsins sé ekki nógu góð. Búsældin mætti að áliti fjölmargra vera betri en lengst af hefur verið talið og því er komin upp meinleg þörf á að breyta landi, „endurhanna“ og laga sem áður þótti fullgott frá náttúrunnar hendi.

Þversögnin er eitthvað á þessa leið: Um leið og þess er nokkuð vel gætt að umhverfismálum, að hreinsa ítarlega þann úrgang sem fellur til sjávar frá samfélögum í landinu, til eru lög um meðferð hættulegra efna og efnablandna og bannaðar eru sinubrennur og meðferð elds á víðavangi svo lítið eitt sé nefnt, er lagt mikið mannvit og pælingar í að plana framkvæmdir sem „sökkva“ eða gjörbreyta landi.

Tæknilega séð kann þjóðin að fjarlægja fjall eða einfaldlega byggja nýtt og fallegra sem fellur betur að manngerðu umhverfi. Langan tíma tekur að klæða landið skógi og gróðri sviðuð þeim er áður þreifst hér enda er það svo eðli máls samkvæmt að ræktun er hægfara. Á örskotsstund er hins vegar hægt að breyta því sem þjóðin hefur tekið ástfóstri við og það er gert með kroppinu. Smávægilegar breytingar hér og þar, rétt eins og þegar eitt tré er hoggið á nokkrum stöðum í skóginum. Og fyrr en varir eiga önnur tré bókstaflega undir högg að sækja.

FlæðurVíða er kroppað og nartað í landið án án þess tillit sé tekið til beiðna um miskunn, vel gerðra breytingatillagna eða annarra ábendinga og þaðan af síður er litið til reynslu genginna kynslóða, þjóðsagna, ævintýra né vettvangs fornsagna. Er ekki líka þversögn fólgin í þessu?

Fáir voru til varnar í seinni heimsstyrjöldinni er ætlunin var að flytja Rauðhóla ofan við Reykjavík í einu lagi í Vatnsmýrina þar sem gerður var flugvöllur. Þá þótti það ekki tiltökumál að nota það „efni“ sem hendi var næst í framkvæmdir. Er nútíminn engu skárri en viðteknar venjur fyrir sjötíu og fimm árum?

Skammt er síðan stóreflis vinnuvélum var sigað á Gálgahraun og vegur var lagður í gegnum það? Kurteisum beiðnum um breytingar á nýjum vegi var öllum hafnað rétt eins og þeir sem voru á öndverðum meiði væru æsingamenn sem hafi ætlað að bylta réttkjörinni bæjarstjórn. Svo var nú ekki því mótmælendur vildu einungis vernda náttúrulegt landslag, koma í veg fyrir óafturkræf spjöll. Er slíkur málstaður vondur? Nei, hann er góður og göfugur. Andmælendur höfðu ekki árangur sem erfiði. Bæjarstjórnin stóð svo fast fyrir, rétt eins og hin minnsta eftirgjöf frá áður útgefinni stefnu mætti túlka sem veikleika eða tap og því fór sem fór.

Eldvörp eru einstaklega fögur gígaröð á Reykjanes. Þar undir er talsverður jarðhiti sem ætlunin að virkja til rafmagnsframleiðslu. Virkjunin mun hafa mikil áhrif á náttúru- og menningarminjar á svæðinu, raska varanlega gígunum og hrauninu umhverfis.

Af hverju yrði Eldvarpavirkjun tilefni til að kalla allar núlifandi kynslóðir Íslands sem komnar eru til vits og ára „sjálfhverfu kynslóðirnar“? Af hverju yrði hún heimskulegur, siðlaus og óskiljanlegur umhverfisglæpur?

Það er vegna þess að með virkjun Eldvarpa á ekki aðeins að umturna og eyðileggja gígaröð, einstætt náttúruverðmæti, heldur líka að stytta endingartíma sameiginlegs jarðhitageymis Eldvarpa og Svartsengis úr 50 árum niður fyrir 30 ár en fullyrða samt að um sé að ræða endurnýjanlega orkunýtingu sem fyrirmynd fyrir heimsbyggðina!

BeinahóllÞannig skrifar Ómar Ragnarsson, einn allra beittasti náttúruverndarsinni hér á landi. Hann tekur djúpt í árinni enda hefur hann efni á því og hann þekkir til mála. Andvarp Eldvarpa er nærri. Er sá málstaður slæmur að vilja vernda Eldvörp? Nei, hann er góður og göfugur.

Hellisheiði og nágrenni hennar voru einu sinni á góðri leið með að verða vinsæl til útivistar en því miður er það ekki lengur svo. Þrátt fyrir fornminjar á er ekki lengur gaman að koma þangað né í hið forna Yxnaskarð, um það og upp á heiði liggur hraðbraut hryðjuverka. Kletturinn þar sem Búi vó fóstbróður sinn er nær ósýnilegur í umhverfi mannvirkja. Munum að fóstbróðirinn hér Kolviður.

Staðreyndin er sú að Hellisheiði og Hellisskarð hafa verið eyðilögð. Nú sér stórlega á svæðinu við Kolviðarhóll, Hamragil og Sleggjubeinadal og Skarðsmýrarfjalli hefur verið raskað. Við Kolviðarhól var reist virkjun sem lítur einna helst út fyrir að vera flugstöð án flugbrauta. Óaðlaðandi mannvirki og án tengsla við umhverfi sitt, að minnsta þann hluta þess sem er á ofanjarðar.

Engum datt í hug að spyrja sí svona við upphaf framkvæmda:

Hvernig getum við byggt jarðvarmavirkjun án þess að eyðileggja þetta fallega land? Reynum eftir því sem kostur er að fella mannvirki eins og kostur er að landslaginu, sýnum að náttúran er okkur mikils virði.

Nei, enginn spurði. Enginn skildi.

Þess í stað var öllu umbylt og farið um eins og svæðið væri ómerkileg malarnáma. Allt var leyfilegt. Ekki er furða þótt Orkuveitan hafi verið uppnefnd hryðjuverkasamtök vegna Hellisheiðarvirkjunar. Er málstaður þeirra sem þarna hafa leyft og skipulagt mannvirki góður? Nei, hann er vonur.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2015 segir í ályktun um náttúruvernd: „Leitast skal við að nýframkvæmdir og mannvirki falli sem best að umhverfi sínu.“

Mannvirki á Kolviðarhóli, Hellisheiði og nágrenni gera það ekki.

Hér hafa örfá dæmi verið nefnd um skammtímaviðhorf. Fleiri mætti nefna og nefna til dæmis Torfajökulssvæðið sem mörgum finnst ástæða til að gjörbreyta með virkjun jarðhita. Sama á við um Hólmsá, hið undursamlega Hólmsárlón, Langasjó og margan klæjar í að fá að virkja Blöndu ofan við Blönduós og sökkva hálfum Langadal á svipaðan hátt og ætlunin er að gera með land meðfram Þjórsá. Þar á eftir liggur án efa beinast við að auka raforkuframleiðslu fyrir austan, hækka yfir borð Lagarins, skítt með það þó Egilsstaðir og Fellabær fari að hálfu í kaf. Við sjáum nefnilega sæstrenginn til Bretlands í hillingum.

Pólitíkin

Hugmyndir vinstriflokkanna um að fækka stórkostlega virkjankostum eins og endurspeglast í rammaáætlun og umbreytingin á fiskveiðistjórnunarkerfinu leiða því til meiri sóknar mannsins í óendurnýjanlegar auðlindir jarðar. Stefna vinstriflokkanna í þessum málum opinberar þá sem auðlindasóða.

Þannig ritaði þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í grein í Morgunblaðinu. Í fljótu bragði virðist sem höfundurinn hafi rétt fyrir sér. En af öllu sem hér hefur verið nefnt má draga þá áætlun að sjálfstæðismönnum sé verulega annt um náttúru landsins. Margir þeirra telja ekki alla virkjunarkosti jafngóða. Þeir geta verið rekstarlega óhagkvæmir eða staðsetningin rekst á við önnur not eins og ferðaþjónustu og þá ört stækkandi tegund afþreyingar sem nefnist einfaldlega útivera. Rammaáætlun er nauðsynlegt verkfæri til að gera sér grein fyrir virkjunarmöguleikum og þeim vítum sem ber að varast. Eða hvað skal til bragðs taka þegar ætlunin er að virkja Hólmsárlón eða Langasjó? Það er auðvelt að búa til uppnefni en orðið umhverfissóði er ekki nýyrði.

Gæti verið að hnignandi fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum tengist á einhvern hátt þeirri staðreynd að ekki teljist allir þeir til vinstri manna sem vilja vernda náttúru landsins? Hvert hefur þá fylgið farið?

Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifar eftirfarandi í Morgunblaðið 26. maí á þessu ári:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forystuhlutverki í innleiðingu framfara í íslenskum atvinnuháttum. Í dag stendur yfir enn ein orrustan um nýtingu orkuauðlinda til eflingar íslensku samfélagi, aukna verðmætasköpun, aukin tækifæri og fjölbreyttari störf fyrir ungt fólk. Það má segja að sömu öfl takist á nú og hafa tekist á um þessi mál síðustu áratugi. Það er mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir þeim mikilvægu ákvörðunum sem við stöndum frammi fyrir.

Margt hefur breyst til hins betra á liðnum áratugum. Eðlilega breytast viðhorf og nýjar kynslóðir koma til sögunnar sem hafa alist upp við önnur gildi en forfeðranna. Þó svo að flestir átti sig á gildi raforkunnar fyrir þjóðina og að brýnt sé að virkja eru skoðanir skoðanir skiptar, jafnvel innan Sjálfstæðisflokksins. Sá tími er liðinn að hægt sé að seilast í náttúruverðmæti og virkja þau með þeirri réttlætingu að verið sé að efla íslenskt samfélag, auka verðmætasköpun, fjölga atvinnutækifærum fyrir ungt fólk. Sé slíkri málfundatrixi beitt má benda á að nákvæmlega sömu rök gilda um verndun náttúruverðmæta. Gegn því er erfitt að mæla, jafnvel þó í hillingum sé þessi sæstrengur til Bretlands.

Í samþykkt á nýloknum landsfundi Sjálfstæðisflokksins segir um rammaáætlun:

Fylgja skal í einu og öllu því ferli sem kveðið er á um í lögum um rammaáætlun. Í því felst að ekki verði vikið frá kröfum um virkt umhverfismat á öllum stigum, byggðu á bestu fáanlegu faglegri þekkingu og tækni. Einnig að leitað verði sátta á sem breiðustum grundvelli og að tekið verði tillit til athugasemda frá almenningi, fagfólki og hagsmunaaðilum eftir að tillögur verkefnastjórnar liggja fyrir.

Þetta er nýlunda í ályktunum flokksins og lofar góðu að tekið skuli tillit til athugasemda frá almenningi og hagsmunaaðilum. Við, almenningur, erum mikilvægustu hagsmunaaðilarnir og tilfinning okkar á það stundum til að bera skynsemina ofurliði, eins og nefnt var í upphafi þessarar greinar. Þess má þó geta að tilfinning er afar öflugur hluti greindar hvers manns og hana skal því ekki vanmeta. Og því má aftur spyrja á svipaðan hátt og hér á undan, hvort lágt fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum tengist á einhvern hátt því að flokkurinn hlusti ekki lengur eftir tilfinnum fólks? Eitt vitum við þó og það er að ekki gengur alltaf að líta á málin með gagnaugunum.

Sú hugmynd er einstaklega falleg að við höfum landið að láni, það sé í eigu afkomenda okkar. Jafnframt að við eigum að standa þannig að málum að okkur sé sómi að arfleifðinni, jafnt landinu sem þjóðfélagsgerðinni. Hér er áreiðanlega auðveldara um að tala en framkvæma en þar tekur þar pólitíkin við. Þá skiptir máli að hinir bestu menn taki ákvarðanir eins og sagt var til forna. Höfum við slíka á Alþingi Íslendinga eða í sveitarstjórnum?

Enn þann dag í dag kemur fyrir að bjartur og fagur dagur rís á Þingvöllum og næturdöggin leysist upp fyrir hlýjum geislum morgunsólarinnar. Fuglasöngur ómar í kjarri og lofti. Slíkir morgnar á Íslandi eru sem töfrum líkastir. Þá væri nú jafnframt algott að ríkisstjórnir séu lýðræðislegar og hafi skilning á þörfum þjóðarinnar - ekki aðeins þeim efnahagslegu heldur einnig þeim tilfinningalegu.

Það er nefnilega þannig með þjóðina, hversu bágt sem sumir láta, að hún er nú einu sinni mótuð af arfinum; sögunni, ævintýrunum, þjóðsögunum … og gleymum því ekki að hún nýtur sín við útiveru og ferðalög hér innanlands.

Þess vegna væri það undurgott að barnabörnin okkar gætu átt þess kost að njóta landsins sem forfeðurnir höfðu að láni frá okkur.

Þessi grein birtist í tímaritinu Þjóðmál, 4. hefti 11. árgangi 2015.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband