Enn er lagt í fyrirfram tapaða herferð gegn lúpínu

LúpínaLúpínan er merkileg jurt fyrir þær sakir að hún framleiðir köfnunarefni (nitur) og auðgar þannig jarðveginn sem hún lifir í. Þetta efni er einmitt það sem vantar svo sárlega í íslenskan jarðveg.

Rannsóknir hafa sýnt að lúpínan hörfar þegar annar gróður nær sér á strik. Þetta hafa meðal annars rannsóknir í Heiðmörk sannað.

Ef gengið er um svæðið í dag er erfitt fyrir óvant auga að greina hvað var melur eða gróðurtorfa áður fyrr. Sjálfsagt hugsa margir sem þarna fara um hve ágeng lúpínan er í vel grónu landi en átta sig síður á því að þar er hún að láta undan. Landið sem lúpínan skilur eftir sig er gras og blómlendi með um það bil 10 cm þykku moldarlagi ofan á gamla melnum. Ég ætla að láta aðra um að lýsa einkennum landsins nákvæmlega, hugsanlega gæti það verið áhugavert verkefni fyrir áhugasaman náttúrufræðing.

Þetta er haft eftir Daða Björnsson, landfræðing, á vef Skógræktarfélags Íslands.

Þröstur Eysteinsson hjá Skógrækt ríkisins segir eftirfarandi í grein sinni í Skógræktarritinu árið 2011 undir fyrirsögninni „Misheppnuð tilraun til að eyða lúpínu með sauðfjárbeit“.

Þar hefur skógurinn breiðst út ၠmelana í brekkunum um­ hverfis gamla skóginn og niður á eyrarnarí dalbotn­inum. Þar hefur birki og víðir náð goóðum vexti, sem ekki hefði orðið án lúpínunnar. Lúpínan er nú óðum að hörfa undan birkinu á stórum svæðum umhverfis gamla skóginn, hafandi gegnt sínu hlutverki eins og til var ætlast af þeim sem komu henni þar fyrir. Það tókst að bjarga Bæjarstaðarskógi frá eyðingu og eng­inn vafi leikur á að þar gegndi lúpínan lykilhlutverki.

Fyrir nokkrum árum komst í tísku að vera á móti lúpínunni. Hún var sögð útlend jurt, framandi aðskotahlutur í náttúru Íslands. Þversögnin í málflutningi þessa fólks var þá afhjúpuð. Meðal annars var bent á fjölda annarra innfluttra jurta sem enginn hefur hingað til agnúast út í og einnig spurt hvað sé í raun og veru íslensk jurt.

Þá var blaðinu snúið við og því haldið fram að lúpínan eirði ekki „íslenskum“ gróðri og var þá helst átt við mosa, berjalyngi og álíka. Jafnvel þetta hefur verið hrakið en enn þrást þeir við sem verja vilja manngerðar eyðimerkir landsins og holt sem standa ekki lengur undir fornri merkingu þess orðs.

Lúpínan lætur sér hins vegar fátt um finnast og dreifir sér með örskotshraða um landi og vissulega hjálpa markir til með frædreifingu og flutningi á rótarhnausum. Baráttan gegn lúpínunni er því löngu töpuð.

Enginn áræðir að fara upp á Úlfarsfell og rífa hana upp. Enginn leggur í að fara upp á Húsavíkurfjall til að eyða henni. Ekki nokkur maður sést í Heiðmörk við að kroppa hana um. Ástæðan er einfaldlega sú að lúpínan ætlar sér að vera hér á landi og sem betur fer sá sumir hagræðið í því.

Reykjavíkurborg, Hafnafjarðarbær, Grenivík, Stykkishólmsbær og fleiri sveitarfélög skilja ekki lúpínuna en eru þó með fjölda gáfufólks sem ætti að hafa einhvern skilning á henni. Sveitarstjórn Grenivíkur sagðist fyrir nokkrum árum þurfa að punga út tugum milljónum króna til að útrýma lúpínu á Þengilshöfða, sjá frétt á visir.is.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógfræðingur, segir á síðunni „Vinir lúpínunnar“ á Facebook:

Á einn hektara í Grýtubakkahreppi væri hæfilegur skammtur af birki 2400 plöntur (gróðursettar með 2 x 2 m millibili). Vinnukostnaður: eitt dagsverk fyrir tiltölulega óvanan mann. Væri gróðursetning undirbúin með herfingu (TTS; og með því stikaðar út línur fyrir gróðursetningu) mætti í leiðinni draga úr samkeppni við gróðursettu smáplönturnar fyrsta árið, og komast af með ódýrar, ársgamlar trjáplöntur. Þá væri þetta varla nema nokkurra klukkustunda verk.

Annar mætur skógfræðingur, Einar Gunnarsson, bætir við:

Varðandi skógræktaráætlun Aðalsteins má bæta við að kostnaður væri um það bil eftirfarandi: Herfing með TTS herfi Kr. 14.000.- plöntur og gróðursetning kr. 150.000.- Flutningur á herfi, gróðursetning og umsjón (há tala vegna þess að aðeins er um að ræða 1 ha.) Ca. 100.000.- Samtals 264.000.- Núvirði eftir 20 ár u.þ.b. 2 milljónir króna.

Vesalings sveitarstjórnarfólkið á Grenivík veit ekki að það getur sparað talsverðar fjárhæðir ef hún hlustaði á menn eins og Aðalstein og Einar. Náttúrulegar aðferðir duga yfirleitt betur auk þess er alkunna að betur vinnur vit en strit.

Þetta á auðvitað við það hjálparlausa lið sem nú ræður ríkjum í Reykjavíkurborg. Það kallar sig „Grænu framvarðsveitina“ og verkefni þess er að útrýma lúpínu:

Reykjavíkurborg vill stemma stiga við þessu og kallar áhugasama borgarbúa með sér í lið. Stefnt er að því að verja nokkur viðkvæm holt sem eru staðsett inni í grónum hverfum fyrir frekari ágangi. Allir sem vilja hjálpa til eru boðnir velkomnir til að taka þátt á sérstökum átaksdögum. Gott er að koma með skóflur og plastpoka.

Auðvitað mætti enginn daginn í byrjun mánaðarins þegar græningjarnir ætluðu að moka burtu lúpínunni. Væri nú ekki gáfulegara fyrir Reykjavíkurborg að fara að ráðum Aðalsteins og Einars og kosta nú dálitlu til í kaup á birki og gróðursetja í lúpínubreiður borgarinnar? Birkið mun ábyggilega taka mjög hratt við sér og útrýma lúpínunni snarlega og lifa svo vel og lengi af brautryðjendastarfi hennar. Nema auðvitað að markmiðið sé að viðhalda gróðureyðingu landsins sem hófst við landnám. Ugglaust má kalla það markmið í sjálfu sér.

Svo virðist sem til sé félagsskapur sem nefnist „Sjálboðaliðasamtök um náttúruvernd“. Frétt er um hann í visir.is í dag. Í raun er þetta eins manns baráttuklúbbur ásamt vandamönnum en hefur ekkert að segja gegn lúpínunni. Hins vegar er afar sorglegt að sjá á myndinni gulklæddan mann krjúpa þarna í vorrigningunni á Vogastapa og kroppa upp lúpínu. Takið svo eftir umhverfinu ... Jú, verjum endilega þessa mela og klappir. Það væru hrikalegt örlög ef lúpína eða birki myndi hylja gróðurleysið.

Og fyrst við erum að tala um birki. Vita lesendur helstu rökin gegn uppgræðslu með birki? Jú, það er svo erfitt að komast leiðar sinnar í gegnum birkiskóg, þess vegna á ekki að rækta hann. Haldið að það sé nú bullið ...

Að lokum þessa langa pistils er ekki úr vegi að benda lesendum aftur á afar fróðlega Facebook síðu sem nefnist „Vinir lúpínunnar“. Þar er sagt frá gagnsemi lúpínunnar í máli og myndum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er ekki öll vitleysan eins, er kemur að blessaðri lúpínunni. Ennþá vitlausari sýnist mér þó ástæðan fyrir því að ekki er plantað meira af birki, en raunin er. 

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 17.5.2016 kl. 20:41

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hún hopar ekki fyrr en hún er búin að leggja undir sig allann íslenskan lággróður eins og lyng og ýmsar fallegar íslenskar plöntur.  Ég vil ekki missa berjalyng holtasóley og þær urtir sem skreyta náttúruna fyrir fyrst lúpínu og síðan gras.  Það var fullyrt að hún færi ekki inn í lyngbreiður en það er ekki rétt, ég hef séð hana leggja undir sig stór náttúruleg svæði í Tunguskógi og ég fær sting í hjartað þegar ég sé að búið er að planta henni allstaðar innan um íslenskan gróður. Hún á rétt á sér sumstaðar, en alls ekki allstaðar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.5.2016 kl. 09:49

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæl, Ásthildur. Lúpína kemur sér fyrir þar sem er gisinn gróður. Því miður er ástandið þannig víða um land. Ástandið er víðast mjög viðkvæmt en maður hefur séð lúpínuna gera kraftaverk. Gott dæmi er Heiðmörk.

Ef ég  ætti að velja á milli gróðurlausa eða lítilla svæða og lúpínu myndi ég velja hana. Hún auðgar jarðveg, býr til jarðveg og eflir gróðurfar meir og hraðar en nokkrar aðrar jurtir.

Náttúruleg gróðursvæði á Íslandi eru vart til. Núverandi ástand er vegna þess að náttúran hefu látið hrikalega mikið undan síga og eftir er fátæklegur gróður sem líklega var ekki eins áberandi við landnám. Það er þessi gróður sem okkur þykir auðvitað vænt um af því að við þekkjum ekkert annað, höldum að hann sé einkennandi fyrir landið okkar - og eigi að vera það. Í því felst hinn stóri misskilningur.

Landið er í tötrum eins og fjölmargir hafa lýst og líklega er lúpínan og hugsanlega aðrar belgjurtir besti og hraðvirkasti möguleikinn til að klæða það að nýju.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.5.2016 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband