Fyrsta frétt í kvöldfréttum RÚV er stórbrotin ekkifrétt
25.3.2016 | 18:42
Hvað réttlætir að fyrsta frétt í Ríkisútvarpinu á föstudeginum langa séu vangaveltur þingmanns stjórnarandastöðunnar um svokallað Wintris mál, það er fjármál eiginkonu forsætisráðherrans?
Hvað er fréttnæmt í því að Svandís Svavarsdóttir, þingmaður og fyrrum ráðherra, vilji halda áfram að berja á forsætisráðherra? Ríkisútvarpið hefur það engu að síður eftir henni að þingmenn geti sett á stofn rannsóknarnefnd.
Er fréttastofan svo skyni skroppin að svo rammpólitískar pælingar Svandísar um stofnun rannsóknarnefnd eða siðaráð hafi einhverja aðra fótfestu en í hausnum á henni sjálfri? Sé svo má opna fyrir alls kyns dellufréttir í Ríkisútvarpinu.
Til greina kemur að stofna rannsóknarnefnd eða setja á stofn siðaráð segir þingmaður.
Áfram er haldið síbyljunni um fjármál eiginkonu forsætisráðherra en þó hefur allt verið sagt sem um málið er að segja. Ríkisútvarpið vill þó ekki bregðast okkur áskrifendum sínum.
Nú er Svandís Svavarsdóttir dregin upp á dekk. Hún sem seldi pólitíska sannfæringu sína í ESB málinu fyrir ráðherrasæti, konan sem vildi ekki leyfa þjóðinni að segja álit sitt á aðildarumsókninni, hún sem ætlaði að setja drápsklyfjar Icesave á ríkissjóð en þjóðin hafnaði því og síðar ríkisstjórninni sem hún sat í. Nú er hún orðin álitsgjafi í siðferðilegum efnum.
Næst má búast við því að fyrsta frétt í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins verði þessi: Til greina kemur að leggja niður Vinstri græna, segir þingmaður. Og svo sé til dæmis vitnað í Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins sem ábyggilega hefur velt þessu fyrir sér og er síður en svo á móti því.
Þarnæst má búast við því að fyrsta fréttin verði þessi: Óttar Proppé, þingmaður [afsakið, en ég get ómögulega munað hvað flokkurinn hans heitir] var hugsi en er það ekki lengur. Um það eindæma hugsanastopp mætti vitna í einhvern þingmann Framsóknarflokksins sem veltir fyrir sér hvers vegna Óttar hafi yfirleitt þóst vera að hugsa.
Grínlaust sagt, fyrsta frétt Ríkisútvarpsins klukkan nítján eru bara pælingar sem Svandís dettur af og til í og hringir svo í Ríkisútvarpið til að fá viðtal við sig. Og fréttamaðurinn lætur freistast í gúrku dagsins.
Varla var það fréttamaðurinn sem hringdi í Svandísi til að búa til enn eina fréttina um fjármál eiginkonu forsætisráðherrans? Nei, það er frekar ótrúlegt ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:43 | Facebook
Athugasemdir
Svandís Svavarsdóttir er tvídæmd fyrir valdníðslu, fyrst í héraðsdómi og síðar fyrir hæstarétti. Jóhönnu þótti þetta fyndið og studdi hana með ráðum og dáðum.
Fólk eins og SS á að vera sjálfvirkt úthýst af Alþingi og í raun er dómur eins og hún fékk, þess tækur að banna henni að bjóða sig fram til Alþingis.
Sindri Karl Sigurðsson, 25.3.2016 kl. 21:26
Það hafði náttúrulega verið betra að fá forsætisráðherrann í viðtal, en hann bara vill ekki tala við RÚV.
Wilhelm Emilsson, 26.3.2016 kl. 02:35
Í öllum löndum í kringum okkur væri forstæisráðherra löngu búinn að segja af sér eftir að upp kæmist um álíka mál. Það með væri í öllum löndum í kringum okkur stanslaust verið að berja á forsætiráðherra ef hann væri ekki búinn að segja af sér.
En forsætisráðherra gæti látið svo lítið að veita öðrum en völdum fjölmiðlum viðtal og það strax gæti komið málinu í eðlilegri farveg í fjölmiðlum. Það er þögn hans um málið sem meðal annars gerir það að verkum að fjölmiölar tala við aðra en hann og munu og verða að halda því áfram þangað til hann kemur hreint fram í málinu og leggur allar upplýsingar á borðið auk þess að svara spurningum fréttamanna.
Sigurður M Grétarsson, 26.3.2016 kl. 10:01
Það má vel vera rétt hjá þér, Sigurður M Grétarsson, en um það er ekki efni pistilsins.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.3.2016 kl. 10:19
Sigurður M Grétarsson segir hér að framan: að fjölmiölar tala við aðra en hann og munu og verða að halda því áfram þangað til hann kemur hreint fram í málinu og leggur allar upplýsingar á borðið auk þess að svara spurningum fréttamanna.
Rúv mun semsagt halda áfram að rekja garnirnar úr stjórnrandstæðingum og sverta SDG þar til hann veitir rúv viðtal.
Hann treystir starfsmönnum fréttastofu ekki og varla breytir þrástagan því.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.3.2016 kl. 10:33
Hann veit að fréttamenn RÚV og flestra annarra fjölmiðla en þeira sem hann hefur veitt viðtal munu ekki láta habb komst upp með neitt hálfkák og spyrja áleitinna spurninga sem fólk vill fá svar við og þarf að fást svar við. Hann er ekki bara að koma sér undan spurningum fréttamanna RÚV heldur allra annarra fjölmiðla en Útvarps Sögu og Fréttablaðsins.
Hvað varðar hina svokölluðu "ekki frétt" þá er það svo sannarlega ekki "ekki frétt" þegar þingmaður bendir á það að þarna eru forsætisráðherrahjónin að vinna gegn samningi sem Íslend hefur skriðað undir gagnvart OECD um að vinna gegn skattaskjólum. Það er svo sannarlega frétt sem á erindi í fjölmiðla.
Sigurður M Grétarsson, 26.3.2016 kl. 17:28
Heimir, Sigmundur Davíð vann á RÚV og ég hélt að honum þætti vænt um sinn gamla vinnustað.
Wilhelm Emilsson, 27.3.2016 kl. 01:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.