Sala Grímsstaða á Fjöllum getur varðað öryggi landsins
18.3.2016 | 09:57
Ein landmesta jörð landsins, Grímsstaðir á Fjöllum, var gerð að tilraun Kínverja til að fá aðstöðu hér á landi. Núna er ætlunin að falbjóða 0,3 prósent af Íslandi í Evrópu.
Á meðan einstaklingar eiga jafn stórar hlut af landinu og raun ber vitni er ávallt hætta á að þeir hagi sér eins og óvitar með eldspýtur á flugeldasölu.
Nærtækt er að ríkið kaupi Grímsstaði á Fjöllum og taki þar með fyrir jarðasölu sem auðveldlega getur sett öryggismál Íslands í uppnám.
Þetta skrifar Páll Vilhjálmsson á bloggi sínu Tilfallandi athugasemdir. Hann mælir oftast gagnlegt og ég er hér hjartanlega sammála honum. Best fer á því að hálendi Íslands sé þjóðareign, hlutar af því gangi ekki kaupum og sölum né heldur að takmarkanir séu lagðar á ferðafrelsi almennings.
Hins vegar er mér það hulin ráðgáta hvernig stórir hlutar af hálendinu hafi getað komist undir ákveðnar jarðir. Ég tel mig þekkja ágætlega til víðast hvar á landinu, ekki síst á hálendinu. Það er auðvitað stórkostlegt og fagurt en stóran hluta ársins er það heldur fráhrindandi og lítt til dvalar fallið. Á ferðum mínum, sumar og vetur, hefur oft verið bjart og fagurt og gaman að ganga, jafnvel á skíðum að vetrarlagi. Hins vegar breytast aðstæður ansi fljótt ef maður er ekki á hreyfingu. Þá kólnar manni ansi hratt.
Oft hef ég leitt hugann að forfeðrunum á ferð um landið og jafnvel til Fjalla-Eyvindar og Höllu. Ansi hreint er ég viss um að þeim hefur liðið bölvanlega í útilegu sinni. Þeim hefur oftar en ekki verið kalt og rakinn verið versti óvinurinn. Ég er þess fullviss að fagurt sólarlag hefur aldrei yljað neinum sem var blautur í fætur.
Á ferðum mínum hefur maður getað skotið upp góðu tjaldi, eldað mat og skriðið ofan í vandaðan svefnpoka og jafnvel þurrkað blaut plögg. Fátt verður vel útbúnum nútímamanninum að meini.
En þetta var nú útidúr en tengist þó. Hvernig urðu Grímsstaðir á Fjöllum svo stórir eins og þeir virðist vera í dag? Var það með einfaldri yfirlýsingu landeiganda einhvern tímann í fyrndinni og er löngu gleymd en þjóðsagan lifir?
Páll Vilhjálmsson hefur rétt fyrir sér. Sala á gríðarlega stóru á land getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir öryggismál Íslands, sérstaklega ef eignarhaldið verður útlent.
Myndin er af vörðu, tekin í slydduhríð á meintu landi Grímstaða á Fjöllum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:37 | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála ykkur um að Grímsstaðir á Fjöllum eiga að vera í þjóðareign.
Þú veltir fyrir þér hvernig standi á því að svo stór hluti hálendisins sem Grímsstaðir eru, geti verið í einkaeign. Þessu er fljótsvarað, eigendur jarðarinnar hafa óyggjandi bréf upp á að þetta sé þeirra eign.
Þegar ákveðið var að leggja allt land á Íslandi undir ríkið, sem einkaaðilar gátu ekki sannað sinn eignarétt á og óbyggðanefnd var stofnuð, var í raun verið að skera úr um eignarétt á landinu. Í fyrstu gekk óbyggðanefnd hart fram og lýsti nánast öllu landi utan girðinga sem ríkiseign. Bændur urðu að sanna fyrir dómstólum sinn eignarétt og líklegt er að eigendur Grímstaða hafi þurft að gera slíkt, eins og flestir á norðaustur horni landsins, en þar hóf óbyggðanefnd störf.
Það er því ljóst að eigendur Grímstaða á Fjöllum hafi einhverskonar bréf til staðfestu eignar á jörðinni, bréf sem dómstólar taka gilt.
Þó í dag þyki frekar undarlegt að einhver vilji búa lengst inn á öræfum, hefur ekki alltaf verið svo og fyrir um einni og hálfri öld síðan, eða fyrir Öskjugos, voru Grímsstaðir á Fjöllum langt frá því að teljast jaðarbyggð. Frekar má segja að þeir hafi á þeim tíma verið miðja blómlegrar byggðar. Þá voru Grímsstaðir á krossgötu þeirra sem ferðuðust milli landshluta á norðaustur landi allt fram undir síðustu aldamót og eru í sjálfu sér enn, þó ekki sé ekið þar um hlaðið á bænum.
En nú er hins vegar tækifæri til að koma þessari jörð undir eigu ríkisins og sannarlega á að gera það. Þó verðmiðinn sé svolítið hár þá er hann langt frá því að vera óyfirstíganlegur og varla getur fermetraverð jarðarinnar talist hátt.
Gunnar Heiðarsson, 18.3.2016 kl. 15:35
Ég þekki þennan feril nokkuð vel. Hitt er meira á huldu hvenær og hvernig einhver eignaðist land langt uppi á hálendinu þar sem engin merki eru um nokkurn gróður sem duga sauðfé. Svokölluð litla ísöld ríkti hér frá 1450 til loka 19. aldar. Afleiðingarnar urðu þær að ekki var lífvænlegt á hálendinu nema yfir hásumarið. Enginn hafði því hag af því að fara upp í fjöllin og stunda búskap. Nógu erfitt var það á Grímsstöðum, Möðrudal og víðar.
Líkur benda til að menn hafi einfaldlega eignað sér afrétti sem er auðvitað ekkert annað en sjálftaka. Hugsanlega gerðist það fyrir svo löngu að engin gögn eru til um slíkt lengur.
Skil ekki heldur hvernig nær lóðrétt fjöll verða eign einhverrar jarðar. Nú er ferðaþjónustan nær orðin að iðnaði og keppast menn um að eigna sér afrétti og loka þeim fyrir umferð fólks, gangandi og akandi.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.3.2016 kl. 18:24
Ögmundur Jónasson barðist ötullega fyrir frátekna ESB-eignarréttinum á Grímsstöðum, þegar hann "þjóðar"-varði Grímsstaði á Fjöllum fyrir Kína-Nupó kaupandanum?
Það þarf nú meiri og vitrari sálfræðinnar heimsspeking en ómenntaða mig, til að rétt-skilningsgreina hegðun Ögmundar Jónassonar, og fleiri góðra einstaklinga á dómstólaspillta landinu Íslandi?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 19.3.2016 kl. 00:16
Auðvitað er það rétt Sigurður að allt land sem er í einkaeigu var upphaflega sjálftekið. Þannig byggðist landið upp. Þeir sem hafa pappíra eða einhverskonar skráningu á sínum eignarrétti eru sannarlega eigendur að því landi, hvernig svo sem upphaflega eignin varð til.
Það er vitað að á tímum landnáms var landið mun byggilegra en nú og nokkrar aldir þar á eftir. Á þeim tíma hafa sennilega eyðimerkurnar sem nú umlykja stórann hluta Grímstaða, verið gróðri vaxnar.
Hitt er líka einnig vitað að á fyrrihluta nítjándu aldar fjölgaði fólki hér á landi nokkuð hratt og búsvæði færðust innar í landið, ekki síst á norðaustur landi. Þá varð byggð langt inn fyrir Grímstaði, kannski ekki mjög blómleg byggð eins og ég fullyrði í fyrri athugasemd, en landið gaf þó nægjanlega af sér til að hægt var að lifa á því. Öskjugosið og miklir kuldar árin þar á eftir útrýmdu þeirri byggð og urðu í raun upphafið að þjóðflutningunum til Westurheims.
Að menn keppist við að eigna sér afrétti, vegna aukinnar ferðaþjónustu, stenst hins vegar ekki. Eignarétturinn er kominn á hreint, vegna starfa óbyggðanefndar og verður ekki breytt úr þessu.
Áhyggjur þínar um að einkaaðilar séu í auknu mæli að loka fyrir sín lönd, nema gegn greiðslu, eru sannarlega áhyggjuverðar. Þar er fyrst og fremst um að kenna misvitrum þingmönnum, sem samþykktu lagabreytingu sem heimila landeigendum að loka sínum löndum. En lög eru mannanna verk og auðvelt að breyta þessu til baka. Þar, sem svo oft áður, skortir þingmenn einungis kjark.
Gunnar Heiðarsson, 19.3.2016 kl. 08:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.