Sannleikurinn í augum Björns Vals er ekki alltaf sagna bestur
17.3.2016 | 11:24
Nú er komið í ljós að Lilja Rafney og eiginmaður hennar eiga kvótaeign upp á mörg hundruð milljónir króna. Á meðan íslenskur almenningur, fjölskyldur og heimili, þurftu í gegnum hrunið og í kjölfar þess að berjast frá degi til dags til að halda heimili sínu gangandi innan gjaldeyrishafta og fallinnar krónu og reyna að standa í skilum með skuldbindingar sínar var Lilja Rafney og eiginmaður hennar að höndla með fjölskylduauðinn í fiskveiðikvótanum.
Þetta sagði Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna og hálfþingmaður á þingi í gær þegar hann uppgötvaði að flokkssystir hans og samþingmaður Lilja Rafney Magnúsdóttir og eiginmaður hennar væru kvótagreifar.
Nei, auðvitað sagði hann þetta ekki. Þó sannleikur og staðreyndir mála flækist ekki beinlínis fyrir manninum þá eru nú takmörk fyrir því á hverja hann ræðst. Hann hefði samt auðveldlega getað sagt þetta, en Lilja Rafney er í samherji og engin ástæða til að skrökva neinu upp á hana.
Hins vegar sagði postulinn Björn Valur þetta á þingi í gær samkvæmt visir.is:
Nú er komið í ljós að forsætisráðherrahjónin eru í gegnum peningafélag sitt skráð á Tortóla meðal kröfuhafa í alla íslensku bankana upp á mörg hundruð milljónir króna. Á meðan íslenskur almenningur, fjölskyldur og heimili, þurftu í gegnum hrunið og í kjölfar þess að berjast frá degi til dags til að halda heimili sínu gangandi innan gjaldeyrishafta og fallinnar krónu og reyna að standa í skilum með skuldbindingar sínar voru forsætisráðherrahjónin að höndla með fjölskylduauðinn í erlendum skattaskjólum.
Var þó eiginkona forsætisráðherra búin að leggja fram allar upplýsingar um peningaeignir sínar erlendis og að hún hefði alla tíð talið þær fram á íslenskri skattskýrslu og greitt hér á landi af þeim skatta sem lagðir voru á samkvæmt þeim.
Ef eitthvað samræmi væri í herferðum Björns Vals Gíslasonar, varaformanns Vinstri grænna, myndi hann ráðast af sömu heift gegn Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þingmanni Vinstri grænna. Ástæðan fyrir því að hann gerir það ekki er einfaldlega sú að hann telur að sannleikurinn sé ekki alltaf sagna bestur. Þegar á þarf að halda flækist hann bara fyrir í pólitískum árásum.
Sá sem þetta ritar hefur kenningu sem skýrt getur arfaslakt fylgi Vinstri grænna í skoðanakönnum. Það er nú komið ofan í 8% og nálgast fylgi Alþýðuflokksins með ljóshraða. Kenningin er í tveimur hlutum og er svona í stuttu máli:
- Björn Valur Gíslason
- Hinir þingmenn Vinstri grænna
Þarf að skýra þetta nánar?
Hefur aldrei átt né selt kvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.