Dagur þorir ekki og sendir embættismenn í viðtöl

HelgiÞegar gagnrýni eykst á meirihlutann í borgarstjórn fer hann í felur. Í staðinn er embættismönnum att í viðtöl við fjölmiðla. En bíðum við, þegar meirihlutinn getur ekki lengur falið sig semur hann leikrit og heldur sig við fáránlegt handrit.

Munið þegar Jón Gnarr þurfti að svara fyrir niðurskurð í umhirðu grænna svæða. Hvað sagði hann? Jú, njólinn er fallegur og gaman að sjá gróðurinn vaxa á nattúrlegan hátt. Fyrir vikið var hrikalegt að sjá borgina en enginn sagði neitt. Jón Gnarr er svo skemmtilegur og fyndinn. Vinstri menn hefðu orgað af vandlætingu og heift hefði borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins látið þetta út úr sér.

Nú kvarta Reykvíkingar hástöfum yfir lélegum götum, holunum sem geta stórskemmt meðalbílinn. Og hvar er Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri? Hann lætur ekki ná í sig heldur sendir Ámunda Brynj­ólfs­son­ar, skrif­stofu­stjóra fram­kvæmda og viðhalds hjá Reykja­vík­ur­borg til fjölmiðla.

Ágætis maður hann, Ámundi, en hann virðist múlbundinn og þorir ekki að tjá sig eðlilega, starfið hans er í húfi. Í viðtali við Ríkissjónvarpið í vikunni viðurkenndi hann með semingi að þörf væri á miklu meira fjármagni í viðhald gatna, meira en þessar 700 milljónir sem áætlaðar eru á þessu ári. Samt eru til 200 milljónir sem leggja á í Grensásveg. Fyrir rúmu ári voru lagðar 80 milljónir í breytingar á Hofsvallagötu sem urðu bara til þess að gatan versnaði.

Hvað myndi svo Dagur segja þegar loksins næst í hann. Jú, eflaust myndi hann gnarrast eitthvað á þá leið að holur borgarinnar væru bara laglegar og sem listaverk. Þar að auki vissi hann um fjölda gatna með fáar eða engar holur.

Allur þessi feluleikur byggir á einfaldri staðreynd. Eftir langt valdaskeið vinstri flokka er Reykjavíkurborg nær gjaldþrota. Skuldastaðan hefur aldrei verið verri og ástæðan er einfaldlega sú og stór hluti framkvæmda hefur verið fjármagnaður með lánum. Peningar eru ekki til í borgarsjóði. Skuldastaðan óbærileg og samdráttur á öllum sviðum.

Gjaldþrota borgarstjórnarmeirihluti þorir auðvitað ekki að svara fyrir gjörðir sínar enda yrði málflutingur hans holóttur eins og götur borgarinnar.

Teikningin var tekin ófrjálsri hendi úr Morgunblaðinu í dag, höfundur er Helgi Sigurðsson.

 


mbl.is Telja ástand gatna viðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fáránlegt að senda embættismann sem engu ræður, til að svara fyrir pólitískar ákvarðanir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.3.2016 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband