Hennar var hugurinn frammi á Melum ...
29.2.2016 | 21:20
Stjórnmálamenn leita sér að málum til að vekja athygli á sér. Þeir eru ekki allir sem þeir eru séðir, að minnsta kosti hvað umhyggjuna varðar. Athyglin maður, athyglin, hún er eins og krónur og aurar fyrir marga, stjórnmálamennirnir þrífast á athyglinni.
Í einhverjum fjölmiðlinum um daginn var gert lítið úr þeim þingmönnum sem minnst tala á Alþingi. Þeir voru taldir upp og getið um þær mínútur og sekúndur sem þeir stóðu í ræðustól. Ekki virtist þetta gert til að upphefja þingmennina.
Aðrir fjölmiðlar hneykslast á þeim alþingismönnum sem mest tala. Þeir eru líka taldir upp og getið um málæði í klukkustundum, mínútum og jafnvel sekúndum.
Eins og alltaf er meðalhófið vandfundið og sjaldnast verða menn á eitt sáttir um frammistöðu stjórnmálamanna.
Einn þeirra, formaður Vinstri grænna, fann sér mál til að vekja á sér athygli. Hún fann holu íslenskra fræða. Átt er við húsgrunninn sem á að vera fyrir byggingu undir Hús íslenskra fræða. Mikill og sár vandlætingartónn var í rödd Katrínar Jakobsdóttur, alþingismanns, þegar hún krafði forsætisráðherra um efndir á því verkefni sem hún hóf en gat ekki staðið við. Katrín hefði ábyggilega komið til greina sem leikkona í aðalhlutverki en Óskarsverðlaunaafhendingunni er því miður lokið.
Látum nú þetta væl um Melaholuna vera, margir hafa meiri áhyggjur af verkleysi vina Katrínar í borgarstjórn Reykjavíkur. Götur borgarinnar er þannig að það kostar ábyggilega andvirði margra húsa íslenskra fræða að fylla upp í þær. Enginn ekur ofan í húsgrunninn úti á Melum en margir skemma og eyðileggja dekk ökutækja sinna þegar þeir lenda ofan í þessum andsk... holum í götum borgarinnar.
Hugur formanns Vinstri grænna var frammi á Melum meðan götur borgarinnar drabbast niður vegna getuleysis borgarstjórnarmeirihlutans. Í hinum gjaldþrota borgarstjórnarmeirihlutanum er líka allt gert í felum eins og segir í kvæði Davíðs Stefánssonar um Brúðarskóna.
Katrín formaður myndi ábyggilega afla sér nokkurra atkvæða ef hún vekti athygli á holunum í götunum með sömu leikrænu tjáningunni og hún brúkaði við Melaholuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.