Aðeins örlítill angi af risastórum byggðavanda

Hversu auðvelt er ekki að loka einhverjum hluta reksturs úti á landi og færa hann til Reykjavíkur? Háskóli Íslands er dæmi um stofnun sem meðvitað leggst gegn byggðinni í landinu en felur hana undir einhverjum rekstrarlegum forsendum. Sama gerir Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion banki, Fréttablaðið og Íslandspóstur svo dæmi séu tekin.

Markaðssvæðin

Þessi fyrirtæki miða starfsemi sína við það sem kalla má hagkvæmni stóra markaðarins eða með öðrum orðum „eigin hagsmunir gegn annarra“. Með því að skipta landinu upp í ákveðin svæði eftir rekstrarlegir hagkvæmni er ekki hægt að taka tillit til lítilla markaðssvæða hvað á örsvæða eins og Laugarvatns. Þar hefur Háskólinn nú verið ákveðið að hætta með íþrótta- og heilsufræðinám.

Hér áður fyrr var rekstri yfirleitt þannig háttað þannig að kostnaður var miðað við allt landið. Í mörgum tilvikum er það enn svo. nefna má sem dæmi vöruverð sem yfirleitt er hið sama víðast hvar um landið. Spurningin er bara sú hversu lengi það heldur.

Excel spekingarnir

Svo komu einhverjir spekingar úr hundrað og einum Reykjavík sem þekkja ekkert til landafræði utan Elliðaár, hafa líklega aldrei farið út á land nema ef til vill í sumarhús með heitum potti í Grímsnesi. Þessir spekingar skilja ekki hvers vegna fólk býr annars staðar en á suðvesturhorni landsins en þeir eru aftur á mót afar færir í Excel-kúnstum.

Staðreyndin er þó sú þrátt fyrir allt er ansi lífvænlegt út um allt land og fær má fyrir því rök að víðast sé betra að búa en í á höfuðborgarsvæðinu. Ég þekki það af eigin raun og er þó ekkert að draga út ágæti þéttbýlisins hérna í króki Faxaflóa. Hins vegar er ekkert um þetta í þeim Excel-formúlum sem ég þekki.

Sleppa landsbyggðinni

Reyndar má finna út að rekstrarkostnaður er miklu minni miðað við einstakling þar sem markaðurinn er stærri. Líklegast er hægt að reikna sig til þess að hann sé hagkvæmastur þar sem flestir búa með hæstar tekjur. Þar af leiðandi er eflaust rétt hjá útgefanda Fréttablaðsins að dreifa blaðinu aðeins á höfuðborgarsvæðinu en sendi það í bunkum á bensínstöðvar annars staðar á landinu bnog þangað geti áhugasamir lesendur druslast til að sækja sér eintak.

Sama er með Íslandspóst, þeir sem þar stjórna málum geta svo sem sent póst út á land með bréfdúfum eða þá gert það sama og útgefandi Fréttablaðsins gerir. Og kallað aðferðina þjónustu.

Það er nefnilega svo miklu einfaldara að reikna rekstrarkostnaðinn bara á fjölmennu markaðssvæðunum en ekki víðast um landið. Öll önnur svæði verða þar með óhagkvæmari og dýrari. 

Reiknaður hagnaður

Ekki tíðkast lengur að gera eins og áður að líta á allt landið allt sem eitt markaðssvæði og reikna kostnaðinn þannig pr haus. Nei, þá kann hagnaðurinn að vera minni. Betra að gera eins og bankarnir, loka bara útibúum á landsbyggðinni, benda fólki á að nota einkabankann í tölvunni. Fyrir vikið skilar bankarnir tugum milljarða króna í hagnað - hver og einn.

Nú er svo komið að ástandið fer að verða afar slæmt víða um land. Þegar bankinn og pósturinn er farinn kemst óhjákvæmilega los á íbúa samfélagsins. Víðast er atvinnuástandið í jafnvægi það er að segja allir sem vilja eru með atvinnu. Hinir, sem ekki fá atvinnu við hæfi, jú þeir flytjast á brott. Jafnvægið í atvinnulífinu er þar með óbreytt.

Aðalvíkurvandinn

Vandinn er hins vegar sá að þegar Gunna missir vinnuna verður til efnahagsvandamál á heimilinu. Jón hugsar þá sína stöðu og saman velta þau fyrir sér hvort ekki sé betra að þau flytjist suður, þar sem auðveldara er að fá vinnu. Dóttirin er hvort eð þar í menntaskóla, yngri sonurinn að klára tíunda bekk. Flestir sjá hvert þetta leiðir.

Fyrir miðja síðustu öld gerðist það að fólki tók að fækka í Aðalvík á Hornströndum. Vandinn jókst þegar læknirinn fluttist í burtu og ekki síður er presturinn fór skömmu síðar. Eftir það hnignaði byggðinni uns enginn var eftir. Þetta er nokkuð einfölduð mynd en breytir engu í þessu sambandi sem hér um ræðir.

Landsbyggðin eldist

Litlu markaðssvæðinu á landsbyggðinni eru verulega viðkvæm en það er ekki allt. Stóru svæðin eiga líka talsvert undir högg að sækja. Síðast þegar ég kannaði hvernig samfélagið á Akureyri var saman sett kom í ljós að fátt hafði breyst. Fjölgun íbúa á Akureyri var fyrst og fremst meðal fólks sem var eldra en fjörtíu og fimm ára, það er fólk sem yfirleitt er hætt barneignum. Víðast hvar á landsbyggðinni er þetta einkennið á íbúasamsetningu sveitarfélaga. Jafnvel framtíð Akureyrar er ekki tryggð.

Hvort sem það er orsök eða afleiðing er það staðreynd að meðvituð fækkun starfa á landsbyggðinni hefur þær afleiðingar að fólki fækkar, ungu fólki snarfækkar og allt bendir til að mörg byggðalög muni innan skamms tíma leggjast í eyði.

Pólitísk spurning

Þjóðin stendur þá frammi fyrir þeirri spurningu hvort þetta sé sú framtíð sem hún sé sátt við.

Sé svo ekki verður til sú pólitíska spurning hvernig þjóðin ætli að koma í veg fyrir það sem óhjákvæmilega stefnir sé haldið áfram á vegferð sem meðal annars Háskóli Íslands hefur markað með ákvörðun sinni um íþrótta- og heilsufræðinám á Laugarvatni.

Í hnotskurn má líka vandamálinu við stöðu íslenskunnar, tungumálsins okkar. Því meir sem gefið er eftir þeim mun alvarlegri verða afleiðingarnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband