Leyfa formanninum að sitja en reka þingmenn Samfylkingarinnar

Samfylkingin á í tilvistarvanda. Margir láta sem svo að það sé formanninum að kenna, ekki hinum þingmönnunum.

Hugsum aðeins um það hvort vandi Samfylkingarinnar væri eitthvað minni ef Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður flokksins, hefði ekki rekið rýting í bak formannsins á síðasta landsfundi? Hefði allt lagast ef Sigríður Ingibjörg hefði unnið í formannskjörinu? Hmm ...

Vangaveltur um stöðu Samfylkingarinnar minna stundum á fótboltann. Þar er þjálfurunum kennt um slakt gengi og þeir oftast reknir í svipuðum aðstæðum. Raunar er sjaldgæft að fótboltafélög bjargi sér frá falli úr deild með því að skipta um þjálfara. Þetta er svona örþrifaráð, eignlega meira til að sýnast en hitt. 

Fótboltamennirnir eru hins vegar áfram í liðinu og það eru þeir sem eiga að skora mörkin og verjast en ekki þjálfarinn. Líklega ætti að skipta frekar um leikmenn en þjálfara, að minnsta kosti eru þá líkur á að nýir menn fari betur eftir því sem fyrir er lagt.

Aumingjans Árni Páll stjórnar ekki einstökum þingmönnum Samfylkingarinnar. Það er ljóst eftir atburði síðustu vikna.

Ef formaðurinn fiskar ekki, þá er fátt við því að gera. Jú, hérna eru ráð sem kratar geta nýtt sér ef eitthvað vit er í þeim.

Samfylkingin ætti að hætta öllum vangaveltum um að sparka formanninum. Betra væri að skipta um lið eins og í fótboltanum. Væri ekki gott ráð að hvetja nokkra þingmenn til að segja af sér núna á miðju kjörtímabili og fá einhverja nýja inn í staðinn, ferska og hressa með óspjallaðan kjörþokka í skoðanakannanir?

Hvetja ber til dæmi Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur til að segja af sér, einnig Ólínu Þorvarðardóttur sem og Katrínu Júlíusdóttur. Varamenn komi inn í stað þeirra og sitji á þingi út kjörtímabilið. Ganga síðan á röðina og segja öðrum þingmönnum, þeim sem ekki fiska, að hætta á þingi og rýma til fyrir nýju blóði. Fyrr en varir verður kominn nýlegur þingflokkur í bland við þá sem fyrir eru og allt í lukkunnar velstandi. 

Nú ef þetta gengur ekki seinni hluta kjörtímabilsins þá er alveg einboðið að auglýsa stöðu formannsins lausa til umsóknar og þá getur Sigríður Ingibjörg, Ólína og Katrín boðið sig fram til þings að nýju og haldið áfram leik sínum þar.

Og hvers vegna er ég, Sjálfstæðismaðurinn, að skipta mér hér af innanflokksmálum Samfylkingarinnar? Jú, ég er einu sinni þannig gerður að ég vorkenni alltaf þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Á ofangreindar tillögur ber því að líta sem ígildi mannúðarstarfs.

Svo má auðvitað nefna það í þessu sambandi að það myndi ekki saka ef þingmenn Samfylkingarinnar tileinkuðu sér vandaðan undirbúning fyrir þingfundi, vendu sig á málefnalegar rökræður og .... síðast en ekki síst: Leggja „Skítadreifaranum“ og hætta persónulegum árásum á pólitíska andstæðinga. 

Hver veit nema flokkurinn nái að endurheimta eitthvað af töpuðum atkvæðum með því að fara eftir þessum ráðum.


mbl.is Margþættur vandi Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Oft er talað um þjálfara, að þeir hafi tapað "klefanum" Í tilfelli ÁPÁ er það möguleiki.  

Jónas Ómar Snorrason, 10.2.2016 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband