Já, yrði Össur ekki bara góður forseti þrátt fyrir allt ...?
29.1.2016 | 11:13
Einhverjir gera að því skóna að Össur Skarphéðinsson, alþingismaður og fyrrum utanríkisráðherra, ætli að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Ég held að hann væri nú bara skástur þeirra sem ég hef heyrt að hafi áhuga á djobbinu.
Ekki þekki ég Össur persónulega. Man bara eftir honum sem róttækum vinstri manni í Háskólapólitíkinni um það leyti er ég hóf þar nám. Sat nokkrum sinnum í stjórn stúdentaráðs og horfði með undrun á Össur, þennan skarpa kómmónista sem ekki hataðist við forystu Vökumanna heldur tókst á við þá með leiftrandi húmor.
Hann var kjaftfor, veifaði hreinu sakavottorði sem líklega var frekar óalgengt meðal róttæklinga og reif kjaft á áheyrendapöllum Alþingis. Össur var á þessum árum svona almennt velheppnaður Marxisti, Trotskyisti, Leninisti, Stalinisti eða hvað það hét nú sem þessir krakkar áttu við að etja í sál sinni á þessum tíma.
Svo læknaðist Össur og hóf vegferð sína til hægri.
Hann dvaldi um stund í Alþýðubandalaginu, var þar vinamargur enda góður sögumaður og með auga fyrir hinu skoplega í tilverunni. Ekki man ég eftir því að hann hafi komið við í Alþýðuflokknum en þegar vinstri menn ákváðu að sameina vinstrið í íslenskum stjórnmálum stökk hann til og varð fyrsti formaður Samfylkingarinnar.
Þar vermdi hann að eigin sögn sætið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var vinstrisins útvaldi formaður. Þar með var sagan skrifuð og síðan hefur leið Samfylkingarinnar legið niður á við. Jafnaðarmenn hafa alla tíð haft einkennilegt lag á að niðurlægja og rægja formenn sína. Bæði lentu í þeim óþrifum, Össur og Ingibjörg. Össur er sá eini sem lifði það af í pólitíkinni.
Össur varð svo utanríkisráðherra í einu vinstri stjórninni sem enst hefur út kjörtímabilið, að minnsta kosti svona formlega séð. Örlög hennar voru að vísu eins og Brésnefs, aðalritara sovéska kommúnistaflokksins, sem dó löngu áður en honum og samstarfsmönnum hans varð það ljóst. Vinstri stjórnin dó þegar þjóðin hafnaði Icesave en stjórnin vissi bara ekkert af því fyrr en löngu síðar heldur hélt áfram að gera óskunda í þjóðlífinu eins og uppvakningurinn Móri sem hljóp erinda þeirra sem vöktu hann upp.
Hæst bar stjórnmálaferil Össurar Skarphéðinssonar er hann þann 16 júlí 2009 bar upp þingsályktunartillögum um aðild Íslands að Evrópusambandinu og fékk hana samþykkta. Þr var hann sem sigurvegari og veifaði þingsályktuninni rétt eins og hann hafði mörgum árum áður veifað sakavottorðinu sínu.
Aftur á móti verður að segjast að Össur hefur vissulega skrapað botninn á stjórnmálaferli sínum. Þessi fimm mál marka þann botn:
- Þingsályktunartillagan um aðildina að ESB og að hafa neitað að bera málið fyrst upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.
- Fullyrðingin um að aðlögunarviðræðurnar væru aðildarviðræður og ESB og Ísland gætu samið jafnvel þvert á Lissabonsáttmálann.
- Fullyrðingin um að fiskveiðiauðlindir Íslands gætu verið undanþegnar í aðlögunarviðræðunum við ESB
- Stuðningurinn við Icesave samninganna.
- Þrátt fyrir digurbarkalega kosningabaráttu féll vinstri stjórnin eins móbergshnullungur úr tindi Vífilsfells og endar í frumeindum fyrir neðan.
Þrátt fyrir allt þetta og miklu meira virðist Össur haldið geðprýði sinni og skopskyni. Manninn markar hvernig hann tekst á við áföllin. Þau hafa ekki mótað hann heldur styrkt. Hann stendur teinréttur þrátt fyrir ESB málið, Icesave og síðustu kosningar, lætur eins og ekkert hafi í skorist, bara gleymir öllu eða mótmælir öllu.
Já, ég væri alveg tilbúinn til að kjósa Össur í forsetakosningunum. Ég hef þá trú að hann, líkt og Ólafur Ragnar Grímsson, standi með þjóðinni og gefi lítið fyrir hagsmuni gamalla baráttufélaga sem trúa innst inni á rússnesk gáfumenni í kommúnistaflokki eða sameinaða og sundraða vinstrimenn í móbergsrykinu undir Vífilsfelli eða annars staðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Össur stendur ekki "teinréttur", heldur rammskakkur, og menn eru ekki kosnir forsetar út á að brosa á báðar hendur.
Össur er algert Evrópusambands-verkfæri í þingstörfum sínum, við kjósum ekki slíkan mann til forseta.
Hann vann eindregið gegn þjóðarhag í ICESAVE-málinu, og braut sjálfa stjírnarskrána í viðleitni til að troða í gegn sinni ESB-umsókn. Ég skil ekki hvernig þú, Sigurður, einn af stofnendum Þjóðarheiðurs, samtaka gegn Icesave, getur látið þér detta í hug að mæla með slíkum manni, óvini sjálfstæðs lýðveldis á þessu landi.
Jón Valur Jensson, 29.1.2016 kl. 17:05
Sko, héra, ég ..., bara tja ..., þaddna ... Hann er bara svo fyndinn. E'þaki, ha?
Jón Valur, lestu pistilinn aftur og hugsaðu þig um.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.1.2016 kl. 18:13
Stofnandi ÞH? Nei, ekki sami maður. Össur í forsetaembættið? Maðurinn er ekki nógu heiðarlegur (faldi mikilvæg skjöl fyrir þjóðinni í ICESAVE-málinu) og alls ekki fullveldissinnaður. Það væri þannig óhugsandi að hann væri forseti fullvalda ríkis. Varla gerir fullvalda þjóð þau hrikalegu mistök.
Elle_, 29.1.2016 kl. 21:58
Við erum nægjanlega mörg til að afstýra því að hann verði kosinn. Minnug allra þeirra alvarlegu brota sem hann framdi.
Helga Kristjánsdóttir, 30.1.2016 kl. 02:28
Líst vel á það að Össur yrði Forseti. Hans sýn á ESB er sennilega sú, að Ísland yrði ekkert minna fullveldi en þær 28 fullvalda þjóðir sem fyrir eru, ég er sammála honum þar. Ísland var nánast gjaldþroa, urðu að sýna einhverja viðleitni varðandi Icesave, til þess að fá lán. það endaði. Eftir stendur, að Össur var mikilvægur í því að koma Íslandi úr því volaða ástandi, sem Ísland var í, upp í það sem það er í dag. Meira að segja núverandi ríkisstjórn auglýsti það um daginn.
Jónas Ómar Snorrason, 30.1.2016 kl. 07:28
Þú bætir þvílíku rugli ofan á rugl, Jónas Ómar, og lítill baráttumaður ertu fyrir Íslands hönd.
Elle og Helga eru hins vegar baráttureyndar úr landvarnarliðinu. En mig minnti að Sigurður heði verið þar með í byrjun, á stofnfundi á veitingastað á horni Aðalstrætis og Túngötu. Var það þá ekki svo, Sigurður? Varstu þá bara einn af hinum óvirku í Sjálfstæðisflokknum gagnvart Icesave-óværunni?
Jón Valur Jensson, 30.1.2016 kl. 12:54
Nei, ég var ekki á þessum fundi Jón Valur.
Þú þekkir greinilega ekkert til skrifa minna á þessum vettvangi sem er svo sem allt í lagi.
Svo því sé nú haldið til haga þá hef ég skrifað hér tæplega 5000 pistla frá árinu 2006 um ýmis efni og þá sérstaklega viðhorf mitt til stjórnmála.
Í fljótu bragði telst mér svo til að ég hafi skrifað um 180 pistla þar sem ég nefni Icesave og andstöðu mína við samninganna.
Um 370 pistlar hafa verið um andstöðu mína við aðild að ESB og aðlögunarferil síðustu ríkisstjórnar.
Og þú spyrð hvort ég hafi verið „einn af hinum óvirku í Sjálfstæðisflokknum gagnvart Icesave-óværunni?“. Þú veist lítið og fylgist illa með, en mér er nokk saman. Ég skrifa ekki þér til þóknunar.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.1.2016 kl. 14:12
Sigurður, við erum á alveg andstæðum pólum hvað Össur varðar. Og í raun varð ég hissa þar sem ég tel hann einn skæðasta stjórnmálamann á Íslandi fyrr og seinna.
En þú átt alls ekki skilið að vera sagður einn af hinum óvirku gegn ICESAVE (bara af því þú varst ekki stofnandi einhverra samtaka eða í þeim). Það varstu alls ekki og ég hef oft lesið pistlana sem þú skrifaðir um þessa kúgun.
Elle_, 30.1.2016 kl. 17:00
Elle, lestu pistilinn aftur. Ég er síst af öllu að strjúka Össurri, ef eitthvað er þá er það andhæris.
Þakka þér annars fyrir orð þín. Þú hefur lesið pistlana mína og æði oft skrifað athugasemdir. Þakka þér fyrir hvort tveggja.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.1.2016 kl. 17:14
Takk Sigurður. Las pistilinn en var að meina í sambandi við forsetaembættið. Mundi bara ekki treysta honum fyrir einu eða neinu. Og tel að hann geti bara staðið beinn núna eftir allt sem hann braut gegn fullveldinu og ríkinu þar sem hann er nógu óforskammaður.
Elle_, 30.1.2016 kl. 17:28
Tek undir síðasta innlegg hér frá Elle.
Jú, Sigurður, ég hef oft lesið pistla þína og oft mér til ánægju og taldi þig einmitt vera Icesave-andstæðing, eins og þú staðfestir líka hér. En þú verður nú að fyrirgefa mér þetta að hafa talið þig meðal stofnfundarmanna Þjóðarheiðurs, þ.e.a.s. slegið þér saman við annan Sigurð þar (enda ekki þér til ámælis), og eins vonandi að horfa í gegnum fingur þér um orð mín um "hina óvirku", enda bar spurning mín um það efni einfaldlega vitni um, að maður getur ekki munað allt!
Að þú hafir svo strokið Össuri andhæris með pistlinum, í raun verið að skrifa hér að gamni þínu eða í hálfkæringi, þykir mér sannarlega betra en að þurfa að taka þennan pistil þinn og einkum upphafs- og lokaorð hans eins og meint hafi verið í fullri alvöru.
Jón Valur Jensson, 30.1.2016 kl. 19:06
Ég vona að síðuhöfundur leyfi mér að svara fyrir mig gagnvart Jóni Val Jenssyni í minn garð, enda leyfir sá aðili oft á tíðum ekki andsvar gagnvart hans brengluðu tilsvörum til fólks. Jón Valur Jensson, að þú teljir þig þess umkominn að dæma um það að mitt innlegg hér hér að ofan sé rugl á rugl ofan, lýsir einungis brenglun þín sjálfs. Ég tiltók mínar skoðanir og staðreyndir. Hvoru tveggja unir þú ekki, enda þín von og vísa. Það má benda á fjölmörg dæmi þess, að íslenskur almenningur hafi það einfaldlega skítt, aðallega vegna krónunar. Ég fullyrði þess vegna, að þar sem engin von er, að annar gjaldmiðill geti komið í staðinn, þá sé Íslandi best borgið innan ESB. Vandi Íslendinga fellst í okri banka, þar sem þeir hafa bellti og axlabönd gagnvart lántakendum vegna verðtryggingar, sem einungir er tilkomin vegna krónunar, þíns ástsæla "gjaldeyris" Ég er fullkominn baráttumaður fyrir Íslands hönd, svo marfallt meiri en þú nokkurn tíma getur hugsað þér. Vandamálið ert þú og þínir likar.
Jónas Ómar Snorrason, 30.1.2016 kl. 20:33
Þú bætir hér gráu ofan á svart með meira rugli, Jónas.
Almennt hefur almenningur á Íslandi það ekki "skítt", heldur bara býsna gott á heims- og jafnvel Evrópumælikvarða, án þess að ég geri lítið úr lakari hlut um 5-10% þjóðarinnar.
Og evran er enginn töfrasproti fyir atvinnulíf og þjóðir, þú ættir að lesa hvað George Soros ritar um hana, kíkja t.d. í leiðara Moggans í gær. Og vitaskuld er evran ekki eini valkosturinn fyrir utan krónuna, Kanadadollar kæmi t.d. betur til greina en evran, og ef á annað borð ætti að innlima Ísland í ríkjasamband, væri langtum hagstæðara að láta sameinast Bandaríkjunum, enda er þar meiri þrótt að finna í þjóð og atvinnulífi en í gömlu, staðnandi Evrópu sem mun hrjást af uppdráttarsýki í vaxandi mæli á næstu árum og áratugum vegna allt of fárra fæðinga. Bandaríkjadalur kæmi svo eðlilega með slíkri sameiningu.
Tek þó fram, að ég vil ekki, að land okkar sameinist neinu öðru ríki og er m.a. andvígur sameiningu við Noreg eða í norrænu ríkjasambandi. Sjálfstæðið er sístæð auðlind, og sjálfstæður gjaldmiðill okkar gaf okkur þann sveigjanleika sem hefur reist okkur við eftir kreppuna með sívaxandi útflutningstekjum og blómstrandi ferðaþjónustu, sem EKKI hefði komið til með of hátt skráða krónu.
Jón Valur Jensson, 30.1.2016 kl. 21:06
Skondinn og skemmtilegur pistill, þar sem síðuhöfundi tekst að draga dár, undir formerkjum mærðar, að glötuðum forsetaframbjóðanda. Húmor af bestu gerð, en misskilinn af sumum, eins og gengur.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 31.1.2016 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.