Myndir af bílum sem taka tvö stæði í bílahúsi
15.1.2016 | 10:51
Flestir lifa lífinu þannig að þeir vilja leggja af ósiði og bæta sig, þar með að taka ríkara tillit til annarra. Sá sem þetta ritar er jafn breyskur og aðrir en reynir hvað hann getur að vera hjálpsamur, málefnalegur ... en ekki tekst það nú alltaf sem skyldi.
Um þessar mundir hef ég vinnuaðstöðu á Laugaveginum og legg bílnum í Bílastæðishúsið á Hverfisgötunni. Listin að leggja í stæði er mörgum erfið, bílastæðin heldur mjó og oft þyrfti maður á góðri megrun að halda til að geta sæmilega komist út úr bílnum.
Það er hins vegar ekki stóra vandamálið heldur þeir sem ekki höndla þá list að leggja bíl sínum vel í stæði eða þá að þeir hreinlega nenna því ekki.
Daglega bölvar maður þeim sem leggja illa, raunar taka yfir tvö bílastæði með því að staðsetja bíl sinn nærri því á hvítri línu sem afmarkar þau og stundum er hreinlega lagt á línuna eða yfir hana. Tvö stæði tekin.
Hér eru nokkrar myndir sem ég hef tekið frá því 17. desember og fram til dagsins í dag. Hér kennir margra grasa.
Ekki er aðeins fínu bílunum illa lagt heldur eru þetta alls kyns bílar.
Viðbáran er eflaust sú að fólk er að flýta sér, má ekki vera að því að leggja almennilega. Sumir eru rétt að skreppa, verða bara nokkrar mínútur.
Betra er að orða þetta rétt. Þeir sem ekki kunna að leggja í stæði ættu ekki að hafa réttindi til að aka bíl. Sá sem ekki getur stjórnað bíl undir svona kringumstæðum er slæmur bílstjóri. Sá sem hugsar fyrst og fremst um sjálfan sig og tekur ekki tillit til annarra er slæmur bílstjóri. Sá sem er að flýta sér svo mikið að hann geti ekki farið eftir reglum er slæmur bílstjóri.
Hér eru nokkrar myndir teknar í bílastæðahúsinu og sýna hvernig slæmir ökumenn leggja bílum sínum.
Af hverju fara stöðumælaverðir ekki inn í bílahúsin og sekta þá sem taka tvö stæði?
Með því að klikka einu sinni á mynd má stækka hana og þá má betur sjá smáatriðin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður.
Þú hefðir mátt láta númer bílsins við hliðina koma fram á myndunum. Í flestum tilfellum er honum lagt á línu og næsti bíll því nauðugur sá kostur að gera slíkt hið sama. Reyndar eru óútskýrð dæmi þarna líka.
Svo er spurning hvort stæðin séu ekki bara of lítil í þessi húsi, eins og svo víða. Að þegar einn leggur rétt í stæði verður sá næsti að leggja á línu, til að komast út og svo koll af kolli uns loks einhver er kominn í rétt stæði. En þá er eitt þeirra týnt og tröllum gefið. Þekki ekki hvernig þetta er á þessum stað en hef víða séð slík þröng stæði innan borgarinnar.
Það er vissulega slæmt og pirrandi þegar fólk getur ekki farið eftir því sem lagt er uppmeð, en enn meira pirrandi er þegar slíkt upplegg er með þeim hætti að erfitt eða útilokað er að fara eftir því.
kveðja
Gunnar Heiðarsson, 15.1.2016 kl. 15:01
Auðvitað hefði ég átt að gera þetta, Gunnar. Tilgangurinn var hins vegar ekki alltaf sá að birta myndirnar, heldur að hlægja af í góðra vina hóp.
Held að stæðin á neðri hæðum þarna séu minni en þau fyrir ofan. Hins vegar nenni ég aldrei að troða bílnum í stæði, alltaf hætta á að einhver rekist utan í hann. Fer frekar ofar. Held að fólk ætti að gera það frekar en að riðla kerfinu.
Almennt finnst mér bílastæði í Reykjavík of mjó.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.1.2016 kl. 15:07
Fyrir utan tillitsleysið í þessum bíleigendum, þá eru þeir að troða of stórum bílum í auðvitað allt of lítil/eða fyrirfram hönnuð of þröng stæði. - Hinsvegar er þetta ekkert einsdæmi, þetta er á ÖLLUM bílastæðum, hvort sem er í bílastæðahúsum eða úti í norðan garranum fyrir utan stórmarkaði eða verslanir almennt.
Már Elíson, 15.1.2016 kl. 19:14
Auðvitað á fólk að leggja eins vel og kostur í bílastæðin. Merkingar fyrir hvert stæði eru hinsvegar þannig að á sumum stöðum passa bílar einfaldlega ekki í þau, eins og Gunnar bendir á hér að ofan. Það er engu líkara en að ekki sé gert ráð fyrir að fólk komist út úr bílum sínum, eftir að hafa lagt þeim. Þetta er svosem eftir öðru hjá borgaryfirvöldum, sem virðast beinlínis rembast, nótt sem nýtan dag, við gera bíleigendum erfitt fyrir.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 15.1.2016 kl. 19:32
Það er til sáraeinfalt ráð sem enginn notar. Það felst í því að bakka inn í stæði með hægri hlið síns bíls þétt upp við hægri hlið plássfreka bíls, af því að bílstjórarnir fara vinstra megin inn í bílana og út úr þeim.
Ef farþegi er þar í framsæti, getur bílstjórinn bakkað bílnum til að taka hann uppí.
Ég geri þetta oft en furðu oft bregðast bílstjórar plássfreku bílanna ókvæða við.
Einn þeirra froðufelldi af bræði og varð ennþá reiðari þegar ég sagði honum að minn litli bíll stæði innan við útlínur stæðisins en hans bíll með línuna undir bílnum.
"Ég kom á undan þér," hvæsti hann, "og nú kemur þú í veg fyrir að konan mín komist upp í bílinn."
Ég er með dráttartaug í bílum og get dregið þig," sagði ég.
"Hvaða bull er þetta?! æpti hann.
"Ekkert bull," svaraði ég. "Það hlýtur að vera bilaður bakkgírinn hjá þér úr því að þú getur ekki bakkað þessa tvo metra sem þarf til að hægt sé að opna farþegadyrnar fyrir konuna.
Ég get dregið þig. Nema að það sé henni ofraun að ganga þessa fáu metra?"
Ómar Ragnarsson, 16.1.2016 kl. 01:40
Ég held að það sé betra að leita sér að betra stæði, Ómar, heldur en að reyna að kenna gömlum hundum að sitja. Tek þó ofan fyrir þér í viðleitni þinni. Hins vegar eru margir heilbrigðir haldnir svo miklum fótfúa að þeir geta ekki gengið nokkra metra frá bílastæði og þangað sem þeir eiga erindi. Sést best á tjaldsvæðum þar sem margir telja best að tjalda við púströrið á bíl sínum. Fátt er ógeðfelldara.
Annars er virðist rétt sem hér hefur komið fram að bílastæði eru frekar mjó.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.1.2016 kl. 10:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.