Hvað er eiginlega rangt við það sem forsetinn sagði?

Sýnist ÓRG vilja nýja forgangsröðun. Hvað með að hætta að úthluta forsetanum milljónum fyrir stórveislur þar sem veisluborðin svigna?

Þetta mun Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sagt á Twitter vegna þessara orða forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, í Ríkisútvarpinu (feitletrun er undirritaðs):

Satt að segja er mér það óskiljanlegt að í svona litlu landi með svona öflugar og margþættar stofnanir og alla þessa umræðu um velferðina og samhjálpina skuli okkur ekki takast að skipuleggja okkur á þann hátt að það geti allir gengið að því vísu að þeir geti haldið hátíðir af þessu tagi á mannsæmandi hátt. Að þurfa að standa hérna í biðröð í kuldanum til þess að fá skyr og mjólk og brauð og kjöt og smá gjafir handa börnunum sínum. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt að þessari þjóð takist ekki að leysa þetta vandamál.

Ég fæ ekki betur séð en að Ólafur Ragnar mæli hér fyrir munn flestra, að minnsta kosti þeirra sem ég þekki til sem og þeirra er tjáð sig hafa í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Hvað er eiginlega svo slæmt við þessi orð forsetans. Þau eru einfaldlega rétt, skiptir engu hver starfi hans er eða hver laun hans eru. 

Formaður flokksins míns fellur hér í þá gryfju að snúa í fljótfærni út úr orðum forsetans á þann veg sem ekki er hægt að verja. Orð hans eru með miklum ólíkindum og jafnvel ég verð að setja þau í samhengi við kröfur sem fengu ekki brautargengi við afgreiðslu fjárlaga næsta árs. Hér er að sjálfsögðu átt við kröfu um að að bætur aldraðra og öryrkja væru afturvirkar á sama hátt og laun ráðherra og þingmanna samkvæmt leiðréttingu kjaradóms.

Flestir gera þá kröfu til formanns Sjálfstæðisflokksins að hann stundi ekki þá umræðuhefð sem einkennt hefur vinstri menn framar öðrum. Ég hef áður skrifað hér um þá áráttu margra að stunda persónulegar árásir og illdeilur í stað málefnalegra rökræðna. Eftir hrunið vildu margir breyta þessari margumræddu hefð og ekki síst voru vinstri menn háværir um þessi efni.

Þingmenn og aðrir forystumenn vinstri flokka gleymdu samt hratt og markvisst öllum heitstrengingum og hafa sokkið æ dýpra í hyldýpi skítlegs orðalags en nokkur dæmi eru um á síðustu áratugum. 

Telji formaður Sjálfstæðisflokksins að hann megi vegna orða forsetans atyrða hann fyrir ofangreindar skoðanir þá er illt í efni. Þetta endar aldrei vel nema annar hvort sitji á strák sínum. Við slíkar aðstæður varð til málshátturinn „Sá vægir sem vitið hefur meira“. Hann er einfaldlega hvatning til að enginn fari í tilgangslaust orðaskak, það skilar aldrei neinu.

Og núna fyrir örstutti segir á visir.is að Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsstjarna, skipti sér að málum með eftirfarandi orðum:

Kommon- hann er að benda á að þetta hangir allt saman. ÓRG ætti amk að þurrka kavíarinn úr munnvikunum.

Hvernig getur sjónvarpsmaður látið svona út úr sér. Þó hann beri ekki virðingu fyrir forsetaembættinu né þeim sem gegnir starfanum ætti Gísli Marteinn að bera þá virðingu fyrir sjálfum sér og reyna ekki að vera fyndinn eins og óuppdreginn götustrákur.

Ég er einfaldlega sammála forsetanum og held þó engar stórveislur þar sem veisluborðin svigna hvað þá að ég smjatti á kavíar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband