Af hverju á að loka hvítflibbaglæpona inni?

Við rekum refsistefnu. Ég vil að við vinnum í átt að betrun. Ef við lokum fólk inni á það að vera af því að það er hættulegt samfélaginu og við viljum ekki mæta því á götu því við erum ekki örugg. Ég tel að það séu fangar sem eiga ekki heima í fangelsi sem sitja þar núna. Ég nefni sem dæmi fanga sem mikið hefur verið rætt um, hvítflibbaglæpamenn sem sitja á Kvíabryggju. Ég veit ekki alveg af hverju við erum að loka þannig fólk inni. Verðum við hrædd við að ganga fram hjá þannig manneskju á Laugavegi? Er öryggi okkar ógnað? Við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvort við séum að gera rétt. Það er heilmikið mál að loka fólk inni. Slík vist þarf að vera til betrunar en ekki bara til þess að refsa og niðurlægja.

Þetta segir Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, í viðtali við Fréttablaðið í dag, 11. desember 2015. Henni mælist vel. Hefndarhugurinn er mikill meðal þjóðarinnar, og fer vaxandi. Gömlu bankarnir eiga stóran þátt í hruninu, raunar langmestan og ábyrgðin er þeirra sem áttu þá og stjórnuðu þeim. Þeir hafa verið sakfelldir og fjölmargir dæmdir í fangelsi. Fjölmargir fagna vegna þess að hefndin er svo rík.

Björt Ólafsdóttir leyfir sér þann munað að hugsa málið á annan hátt og hún er nægilega greind og skýr til að þora að segja frá vangaveltum sínum:

Ef fólk er hættulegt samferðamönnum sínum getur verið að það séu engin úrræði önnur en að loka það inni. Þá er líka eins gott að verið sé að vinna að því að skila betri manneskju út í samfélagið aftur. Annars er þetta tilgangslaust; geymsla og mannvonska í raun. Með aðra sem ættu ekki að vera hættulegir manneskjum úti á götu spyr ég, af hverju að loka þá inni, eins og með þessa bankamenn? Af hverju ekki himinháar sektir? Af hverju bönnum við þeim ekki að taka þátt í fjármálakerfinu? Skikkum þá í tíu ára samfélagsþjónustu? Ég er bara að nefna eitthvað. Hvað vinnst með því að loka þessa menn inni? Ég er bara að henda þessu út. Mig langar að fá svar við því. Ef svarið er, þetta er bara svo vont fólk að það verður að loka það inni – það er búið að stela öllum peningunum mínum, þá veit ég ekki hvort við séum nokkuð betri.

Mikið er nú ánægjulegt að vita af þingmanni með sjálfstæðar skoðanir sem hún þorir að viðra í útbreiddum fjölmiðli. Ég er fyllilega sammála henni og hrósa henni fyrir upphaf að því sem vonandi verður málefnaleg umræða.

Ástæða er til að hvetja fólk til að lesa viðtalið við Björt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Betrunarvist?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.12.2015 kl. 13:41

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Þingmaðurinn gefur sér að refsistefna sé röng. Það er eðlilega krafa samfélagsins að þeim sem brjóta af sér sé refsað. 

Wilhelm Emilsson, 11.12.2015 kl. 18:18

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Held að þetta sé misskilningur, Wilhelm. Hvað sem því líður má velta því fyrir sér hvernig refsing sé hæfileg. Hefnd er vond refsing. Betrun er jákvæð refsing. Þetta er nauðsynlegt að ræða með opnum hug.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.12.2015 kl. 18:32

4 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Vissulega þarf að ræða þetta með opnum huga, Sigurður? Það á við þig jafnt og mig.

Af hverju er þetta misskilningur, Sigurður? Er það ekki augljóst að þingmaðurinn gefur sér að refsistefna sé röng? Ég held að við ættum að geta verið sammála um það. Ég virði þá skoðun að refsistefna sé röng, en það er ekki sjálfgefið að refsistefna sé röng. Það er forsenda sem menn geta ekki gefið sér.

Er það óeðlileg krafa að samfélagið vilji að þeim sem brjóta af sér sé refsað?

Wilhelm Emilsson, 11.12.2015 kl. 19:06

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Hvernig er það, frömdu þessir umræddu menn á Kvíabryggju ekki glæpi?  Var og er þjóðinn ekki í sárum eftir þá? Sú fjölskylda er ekki til í landinu sem ekki aum og undin á sálinni eftir krumlurnar á þeim. Er það ekki refsivert? Þarf blóð að renna úr áverkum eftir krimma til að refsing sé talin viðeigandi?

Hver er í raun munurinn á brennu-vargi sem brennir súsið ofan af fjölskyldu og hvítflibba-vargi sem hefur húsið af fjölskyldunni með svikum og brögðum? Á að refsa öðrum en hampa hinum?

Hvaða rugl er í gangi? Á kannski að biðja hvítflibbabullurnar á Kvíabryggju afsökunar á ofbeldinu gegn þeim, boða þá til Bessastaða og hengja á þá fleiri krossa?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.12.2015 kl. 20:47

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Wilhelm, ég vil skoða þetta með opnum huga, var ekkert að skjóta neitt á þig með fyrra svari mínu. Þetta eru bara vangaveltur.

Ég myndi gjarnan vilja sjá hvernig refsingar dómstóla geti verið til betrunar. Því miður er það ekki alltaf svo. Þess vegna er gott að velta málunum fyrir sér. Vissulega er þörf á að loka fólk inni en hvaða fólk? Bæði hættulegt og meinlaust fólk? Til hvers lokum við eiginlega fólk inni?

Ég gef mér ekki að „refsistefnan“ sé röng heldur velti því fyrir mér í hverju betrun geti verið röng.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.12.2015 kl. 21:03

7 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Sæll Sigurður, að öllu jöfnu þá fellst ég á mál þitt nægilega vel, til þess að láta vera.   Refsistefna er þó skárri  en afskiptaleysi þá varnarlausir eru áreittir. 

En þegar um er að ræða menn sem ekki verða gerðir betri þá held ég að það sé allt í lagi að gera þeim nokkuð til  leiðinda.        

Hrólfur Þ Hraundal, 11.12.2015 kl. 21:34

8 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk kærlega fyrir svarið, Sigurður.

Betrun er göfugt markmið. Ég vil ekki gera lítið úr þeim þætti refsingar. En refsing er tvíþætt. Annars vegar að reyna að gera glæpamanninn að betri samfélagsþegn. Hins vegar að refsa honum fyrir að brjóta reglur samfélagsins. Þetta getur oft farið saman. Að vita að manni er refsað getur breytt hegðun manns. Tökum lítið dæmi. Sumir aka fullir. Ég veit fjölmörg dæmi þess að það er ekki fyrr en að viðkomandi er gripinn við ölvunarakstur og sektaður að hann ákveður að aka aldrei aftur fullur. 

Wilhelm Emilsson, 11.12.2015 kl. 23:26

9 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Að sjálfsögðu eiga allir sannanlegir réttarvarðir svikarar að fá einhverskonar refsingu. Refsingin þarf að passa vel við betrunarvistar-planið í upphafi, og  þegar "refsingunni" lýkur.

Eða hvað annað?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 12.12.2015 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband