Ómanneskjulegar kröfur á Landspítalnum valda skaða
10.11.2015 | 10:11
Síðan virðist refsigleðin vera í hámarki, boðskapur skilnings, umburðarlyndis og fyrirgefningar gleymdur og sjálfsgagnrýni kærandans, ríkisins, ekki til. Hugtakið manndráp af gáleysi er til skammar í svona máli.
Mér finnst menn hefðu átt að setjast yfir þetta dæmi og hugsa það miklu betur. Að því loknu hefði ég helst viljað sjá ríkisvaldið biðja aðstandendur afsökunar á þeim mistökum sem urðu, bjóða þeim sanngjarnar bætur og veita síðan hjúkrunarliðinu, sem að þessu kom, áfallahjálp og allan annan stuðning, sem hægt er að koma með í slíkum aðstæðum. Loks hefði ég viljað sjá Alþingi Íslendinga gyrða sig í brók og koma með verulega auknar fjárveitingar spítalanum til handa til að reyna að fyrirbyggja framhald slíkra atburða.
Þannig ritar Þórir Stephensen, fyrrum dómkirkjuprestur, í grein í Morgunblaði dagsins. Hann ræðir um mál hjúkrunarfræðings á Landspítalanum sem kærður er fyrir manndráp af gáleysi. Hann segir það hafa sótt með auknum þunga á hug minn og því riti hann greina.
Ég tek undir með Þóri og mér segir svo hugur um að fleirum líki illa við alla málavexti en þá orðar hann svona:
Þegar ég horfi á þetta mál, þá kemur strax upp spurningin: Hvernig getur spítali, háskólasjúkrahús, boðið starfsmanni upp á slíkar aðstæður? Þarna eru kröfurnar ómanneskjulegar. Þær beinlínis kalla á yfirsjónir, enda hefur spítalinn einnig verið kærður. En hvers vegna er álagið svona mikið? Ég nefndi undirmönnun. Hún er staðreynd. Og af hverju? Af því að spítalanum er haldið í fjársvelti. Alþingi neitar að greiða það fé, sem spítalinn sýnir með rökum, að hann þarf. Frá því hefur verið sagt, að mikil þröng hafi verið í kringum sjúklinginn. Okkar gamli spítali býður ekki upp á mannsæmandi aðstæður, hvorki fyrir starfsfólk sitt né sjúklinga. Því hygg ég, að fáir starfsmenn hans muni neita.
Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að sá starfsmaður sem hér bókstaflega undir högg að sækja sé fórnarlamb og þá fyrst og fremst Landsspítalans og stjórnunarhátta innan hans. Svo má alltaf deila um fjárveitingar til spítalans, hvort þær séu nægar eða hvernig stofnunin vinnur með það fjármagn sem honum er skammtað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.