Draumspakur maður spáir fyrir um vetrarveðrið

Draumspakur maður og fjölfróður hefur haft samband við þann sem hér lemur á lyklaborð og veitt upplýsingar um veðurfar vetrarins. Hann hefur oft spáð fyrir um veður, jarðskjálfta, eldgos, kvennamál og annars konar óáran hér á landi. Alltaf hefur hann haft rétt fyrir sér eins og lesendur muna án efa.

Þessi maður spáði fyrir um síðustu Heklugos, gosið á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli, norðvestlægu lægðirnar sem kældu landið frá síðustu áramótum og langt fram á sumar, sagði til um útbreiðslu Spánarsnigilsins, spáði FH-ingum Íslandsmeistaratitlinum í fótbolta og fleira mætti upp telja. Að vísu var hann í nokkrum tilfellum heldur seinn að tilkynna mér um spár sínar en þá, merkilegt nokk, höfðu þær ræst - undantekningalaust.

Sá draumspaki veit lengra en garnir og fleiri innyfli annarra spákarla og -kerlinga ná. Því er vissara að leggja við eyrun ... í þessu tilviki, glenna upp glyrnurnar.

September: Frekar vætusamt og leiðinlegt.

Október: Frekar kalt, rigning af og til, snjóar í fjöll og á láglendi norðanlands og austan. Fyrsta snjókoman suðvestanlands verður laugardaginn 24. október.

Nóvember: Frekar kalt, rigning af og til, snjóar víða um land, annars staðar ekki, víða mun rigna þegar ekki snjóar. Snjó tekur upp þegar hlýnar. Slydda af og til suðvestanlands en auð jörð á suðurlandi nema þegar snjóar. Hitastigið mun rokkar upp og niður. Frekar kalt verður þegar frystir. Þegar vindur blæs getur orðið hvasst.

Desember: Meiri líkur á snjókomu eftir því sem líður á mánuðinn. Ef ekki mun rigna, þó aldrei í frosti. Þegar snjóar verður það sjaldnast þegar hitastig er hátt. Sólin verður lágt á lofti en það lagast eitthvað eftir 21. desember. Að næturlægi verður frekar dimmt.

Janúar: Miklar líkur eru á að kalt verði í janúar. Allan mánuðinn verður frost á Eyjafjallajökli. Kalt verður í norðlægum áttum en síður er vindur blæs af suðri. Í norðaustanáttum er hætta á snjókomu norðanlands. Snjóflóð verða þar sem hlíðar eru brattar nema þar sem ekkert hefur snjóað.

Febrúar: Kalt verður allan mánuðinn nema þegar hlýtt er. Sundum mun rigna þó ekki í þegar snjóar. Hætt er við hálku þegar kólnar eftir rigningu. Norðurljósin munu sjást vel einkum að næturlagi þegar skýjafar er í lágmarki.

Mars: Í lok mars veður bjartara en í byrjun nema að næturlægi. Frekar kalt verður allan mánuðinn en þó verða nokkrir dagar hlýrri en aðrir. Stundum mun sjást til fjalla, einkum í heiðskíru veðri.

Apríl: Kalt verður í apríl nema þegar hlýrra verður. Hlýjast verður alltaf sunnan megin fjalla og einnig undir húsveggum sem snúa í suður. Húsaflugur lifna við. Fjölmiðlar fara að ræða um páskahret og vorhret sérstaklega þegar lítið er í fréttum. Vorið getur verið kalt verði það ekki hlýtt og sólríkt.

Að lokum sagðist sá draumspaki vera með stórfrétt. Ólafur Ragnar Grímsson verður ekki forseti út árið 2016.

 


mbl.is Búist við mildum vetri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband