Svandís, ertu hætt að drekka áfengi á þingfundum?

Hvers vegna enda allar kjaraviðræður sem hæstvirtur ráðherra ber ábyrgð á í illdeilum?

Þessa spurningu bar Svandís Svavarsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna og fyrrum umhverfisráðherra, fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún var að ræða um kjaraviðræður og stöðuna í þeim og spurningunni var beint til Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Eftir hrunið komu fram háværar raddir um að breyta þyrfti umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum, taka málefnalega á hlutum, hætta persónulegum árásum og illdeilum. Ég man ekki betur en að Svandís Svavarsdóttir hafi verið hlynnt þessu, það getur hins vegar verið misminni enda bendir ofangreind spurning úr fyrirspurnartíma á Alþingi ekki til þess.

Þeir sem fylgjast með umræðum á Alþingi átta sig á einni mikilvægri staðreynd. Harðir andstæðingar ríkisstjórnarinnar leita allra ráð til að berja á ríkisstjórninni, ekki málefnalega heldur persónulega á einstökum ráðherrum og þingmönnum.

Þessi pólitík er hreinlega ógeðsleg og segir meira um þá sem hana iðka en hina sem fyrir verða. Tilgangurinn er auðvitað að stuðla að pólitískri aftöku.

Fyrir Svandísi Svavarsdóttur, þingmann og fyrrum ráðherra, hefði verið málefnalegra að ræða kjaramálin á lausnamiðuðum forsendum. Ef til vill er það til of mikils mælst en það er engu að síður sjálfsögð krafa.

Svandís spurði svo í áðurnefndum fyrirspurnartíma eitthvað á þessa leið: „Hvað er það í kröfum þessara stéttarfélaga sem efnahags- og fjármálaráðherra telur ósanngjarnt?“

Á móti má spyrja álíka gáfulegrar spurningar: Svandís, ertu hætt að drekka áfengi á þingfundum?

Báðar þessar spurningar eru fram settar til að gera lítið úr viðmælandanum. Í báðum tilfellum má draga illgjarnar ályktanir af svörunum.

Svona trix eru ef til vill boðleg í ræðukeppnum í menntaskóla en ekki á Alþingi og svona framkoma er Svandísi Svavarsdóttur, alþingismanni, síst af öllu til sóma.

Auðvitað getur þaulreyndur þingmaður kjaftað sig út úr þessari gagnrýni minni og þóst koma af fjöllum þegar hún er sökuð um ómálefnalega framkomu.

Hitt mun hún þó aldrei geta skýrt, hversu mikið sem hún masar. Hún hefur ekki lagt fram neina lausn á þeim kjaradeilum sem nú standa yfir. Að minnsta kosti ekki þannig lausn sem hún hefði samþykkt þegar hún var sjálf ráðherra í ríkisstjórn Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband