Fréttablaðið skrökvar upp á Árna Sigfússon

Formaður styrkti bróður sinn

Þannig hljóðar fyrirsögn Fréttablaðsins í dag, 1. október 2015. Hún er röng eins og raunar kemur fram í fréttinni. Um er að ræða styrk sem Orkusjóður veitti Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það er svo algjört aukaatriði að stjórnarformaður Orkusjóðs, Árni Sigfússon, og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Þorsteinn Sigfússon, eru bræður.

Fréttin er um skoðun forstjóra Valorku sem ekki fékk styrk frá Orkusjóði. Sem sagt, fréttina má kalla „hefndarfrétt“. Sár forstjóri þyrlar upp ryki til að koma óorði á aðra. Honum tekst ætlunarverk sitt vegna þess að Fréttablaðið og blaðamaðurinn sem skrifar fréttina sér ekki í gegnum málið. Raunar ætti að skrifa aðra frétt og fyrirsögnin væri þessi:

Fréttablaðið er misnotað

Í stuttu máli fjallar fréttin um að eitt fyrirtæki fékk styrk Orkusjóði en annað ekki. Fréttin fjallar ekki um að Árni Sigfússon hafi styrkt Þorstein bróður sinn.

Árni Sigfússon segir eftirfarandi á Facebook:

Ég kann allar reglur um þetta. Ef vinur eða venslamaður sækir um styrk skal nefndarmaður að sjálfsögðu víkja. En það var ekki í þessu tilviki. Þetta er sambærilegt við að rektor Háskóla Íslands væri þannig beintengdur við allar umsóknir deilda háskólans og þeir sem venslaðir væru honum, mættu ekki fjalla um neinar slíkar umsóknir á vegum HÍ, þótt hann kæmi hvergi persónulega að þeim.

En þá er brugðið á það ráð að segja að „bróðir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar“ hafi veitt honum styrk. Ég hafi átt að víkja af fundi þegar ráðgjafanefndin fór yfir umsóknirnar. Þetta er því algjörlega út í hött og leitt að koma slíkri fyrirsögn af stað - vitandi að 100% lesenda, lesa fyrirsögn en u.þ.b. 30% lesa textann. Vildi bara að þið vissuð þetta fésbókarvinir mínir, því Frettablaðið hafði ekki fyrir því að spyrja mig um málið. Þannig er nú Ísland í dag.

Líklega hefur blaðamaðurinn verið svo spenntur fyrir því að hafa nú aldeilis fundið einhverja ávirðingu á Árna Sigfússon að hann hafi ekki haft fyrir því að bera málið undir hann. Sem sagt, blaðamaður og Fréttablaðið brjóta mikilvægustu reglu í blaðamennsku, að leita upplýsinga og heimilda og fara með rétt mál. Eða er þetta sem sagt er glöggt dæmi um barn sem haldi á penna hjá Fréttablaðinu.

Forstjóri Valorku stendur svo uppi sem „bad looser“ og þessi frétt er honum síst af öllu til sóma.

Fréttablaðið hefur ekki heldur neinn sóma af þessari frétt. Það hefur verið staðið að ósannsögli. Verður nú fróðlegt að sjá hvernig það reynir að koma sér út úr klípunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Gleymum ekki hver á Fréttablaðið og stjórnar því. Út frá þeim punkti hljóta landsmenn að lesa þann snepil.

Gunnar Heiðarsson, 1.10.2015 kl. 19:48

2 Smámynd: Már Elíson

"...Ég kann allar reglur um þetta. Ef vinur eða venslamaður sækir um styrk skal nefndarmaður að sjálfsögðu víkja. En það var ekki í þessu tilviki.."  -  Spurningin er : Afhverju vék hann ekki og lét hanka sig á þessu ?

Már Elíson, 2.10.2015 kl. 07:47

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Verð að vera sammála Má hér, að mínu mati er Árni Sigfússon siðblindur maður og ferill hans er ekki fallegur, hann dansar á línunni og dettur oft yfir hana í að hygla vinum og vandamönnum eða flokksbræðrum. Hélt satt að segja að það væri ekki hægt að ljúga upp á hann smile

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.10.2015 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband