Þegar umhverfisráðherra hundskammaði ökumanninn
28.9.2015 | 14:45
Fyrir um tuttugu árum var ekið á bíl utan vegar á Fimmvörðuhálsi. Ökumaður var greinilega að stytta sér leið. Hann náðist ekki en við vorum nokkur að koma úr viðhaldsferð í skála Útivistar og tókum að okkur að raka í hjólförin og reyna að bæta skaðann eins og hægt var. Þrátt fyrir talsverða vinnu var í nokkur ár hægt að sjá móta fyrir hjólförunum í sandinum.
Þetta minnir á annað atvik. Þegar Fimmvörðuskáli var vígður, í ágúst 1991, var Eiður Guðnason umhverfisráðherra. Honum var boðið í vígsluna og þáði hann það með þökkum. Ég sótti ráðherrann að Skógum og ók með hann upp á Hálsinn.
Á leiðinni upp komum við auga á bíl með útlenskum númerum sem hafði verið ekið út af veginum og smáspöl á gróðurlendi, sem á þessum slóðum er sorglega lítið. Eiður spurði hvort ekki væri nauðsynlegt að benda ökumanninum á yfirsjón sína. Mér þótti það tilvalið.
Við gengum að bílnum og hafði Eiður orð fyrir okkur en varla er hægt að nefna ræðuna tiltal. Miklu frekar má segja að ráðherran hafi hundskammað aumingja ökumanninn sem nærri því beygði af. Ég vorkenndi manninum mikið og fannst það vart á bætandi að segja honum að sá sem sagt hefði honum til syndanna væri enginn annar en umhverfisráðherrann í ríkisstjórn Íslands og sleppti því þess vegna.
![]() |
Ólíklegt að þau hafi ekki vitað betur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Facebook
Athugasemdir
Ég man vel eftir ferðinni, Sigurður, en ekki eftir skömmunum. Átti hann það bara ekki skilið????
Eiður Svanberg Guðnason, 28.9.2015 kl. 17:45
Svona eiga ráðherrar að vera, ekkert hálfkák. Það hefði hins vegar alveg mátt benda bílstjóranum á hvaða embætti maðurinn gengdi, sem skammaðist svona.
Gunnar Heiðarsson, 28.9.2015 kl. 17:51
Jú, svo sannarlega. Enda voru hann og ferðafélagarnir ansi skömmustulegir. Annars voru þetta dálitlir hrakningar hjá okkur. Þoka og slagviðri. Þurftum að ganga upp að skálanum og komum þangað rennblautir. Svo blautir hafa engir ráðherrar verið í vígsluferð ...
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 28.9.2015 kl. 17:55
Gunnar, manngreyið hefði þá fengið hjartastopp.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 28.9.2015 kl. 17:56
Það var blíða á Skógum, þegar við fórum þaðan. Þetta var stuttur spölur sem við þurftum að ganga, en maður varð gegndrepa næstum samstundis. Hávaðarok og ekta slagveður, - lárétt rigning. Þetta gleymist ekki !
Eiður Svanberg Guðnason, 28.9.2015 kl. 18:56
Þótt sé liðinn næra aldarfjórðungur, Sigurður, þá heldég að ég hafi ekkert breyst í þessu efni. Mundi gera þetta aftur í dag, ef tilefni væri til. Verður oft hugsað til þessarar ferðar. Úr ráðunaytinu var dr. Jón Gunnar Ottósson með mér.
Eiður Svanberg Guðnason, 29.9.2015 kl. 09:49
Já, ekki má gleyma dr. Jóni Gunnari í þessari hrakningaferð. Verst þykir mér að hafa ekki tekið myndir af ykkur félögum í ferðinni. Veit þó að einhverjir félaga minna eiga myndir af ykkur haugblautum við komuna í Fimmvörðuskála.
Á þessum tíma var enn nokkuð algengt að ekið væri utan vega þó talsverður áróður væri gegn því, þó ekkert á borð við það sem nú er. Ekki var heldur algengt að almenningur gerði athugasemdir við þvílík athæfi.
Sem betur fer hafa viðhorfin breyst mikið. Nýjar kynslóðir stunda útiveru og ferðalög, læra að þekkja landið og njóta þess. Þetta fólk sættir sig ekki við náttúruspjöll. Margar eldri kynslóðir fóru lítið sem ekkert um landið nema um þjóðvegi, þekktu ekki hálendið og aðrar gersemar á borð við það sem nú gerist. Þar af leiðandi gerði fólk litlar athugasemdir við framkvæmdir sem nú teljast umhverfis- og náttúruspjöll.
Svo hafa viðhorf gjörbreyst að ég er sannfærður um að spjöll á náttúru landsins sem stjórnvöld sætta sig við í dag, munu innan fárra ára þykja algjör óhæfa. Nefni bara vegagerð um Gálgahraun, efnisnámur, vegagerð um viðkvæm svæði, virkjanaáform og fleira.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.9.2015 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.