Farsinn um formennsku og ekki-formennsku

Helgi SigAllt er svo skrýtið við Bjarta framtíð. Flokkurinn er með sex þingmenn en þeir sjást ekki og svo virðist sem þeir dormi í þingstólum sínum án þess að gera nokkurn skapaðan hlut nema leggja til að klukkunni verði breytt.

Svo verður til einhvers konar farsi. Heiða Kristín Helgadóttir, sú sem stofnaði Bjarta framtíð og á fyrsta veðrétt í flokknum, segist ekki ætla taka sæti varaþingmanns vegna þess að formaður flokksins sé svo ... tja, óskemmtilegur. Þetta fengum við, almenningur, á tilfinninguna eftir að hafa fylgst með fjölmiðlum.

Næst á dagskránni var að unga konan lýsti því yfir að hún ætlaði að verða formaður í stað Guðmundar Steingrímssonar, sem gerir ekkert, aflar ekki atkvæða og ... tja er bara svo óskemmtilegur.

Þá segist þessi Guðmundur vera hættur, gefi ekki framar kost á sér sem formaður, líklega af því að Heiða Kristín hafi rétt fyrir sér. Besti vinur hans og samhlaupsmaður úr Samfylkingunni, Róbert Marshall, þingflokksformaður, segist líka ætli að hætta sem formaður.

Undur og stórmerki gerast þá á eftir, Guðmundur Steingrímsson leggur til að öll dýrin í skóginum verði vinir og skiptist á að ver'ann, það er að segja formaður flokksins, helst í nokkra daga í senn.

Af sex þingmönnum finnast tveir sem ekki vilja verða formenn en við bætast stórbændur í sveitarstjórnum sem segjast geta alveg hreint tekið að sér formennskuna. Óvíst er hvort þeir eigi við hefðbundna formennsku eða þá sem kenna má við höfrungahlaup.

Einn þingmaður segist ekkert hafa pælt í formennsku af því að enginn hafi skorað á hann ...

Loks kemur Heiða Kristín og segist ekki ætla að verða formaður. Hún hafi bara verið að plata, fá upp umræðu og sjá hvernig málin þróuðust. Enginn þýfgaði hana þó um þetta og fjölmiðlar létu sem hún hefði á réttu að standa.

Jæja, hér á undan er nokkur grein gerð fyrir þróun mála. Ljóst má þó vera að margt undarlegt og eðlilegt vantar inn í lýsinguna. Til dæmis hvort einhverjir fleiri hafi slegið úr og í um formennskuna og jafnvel hvort þingmaðurinn sem enginn skoraði á til formennsku hafi í raun hugsað vel og vandlega um hugsanlega formennsku og sé þar af leiðandi mjög svo tilkippilegur, að minnsta kosti tilkippilegri en hann áður vildi vera láta.

Svona gerast nú kaupin á eyrinni og stórskemmtilegt er að fylgjast með Bjartri framtíð um leið og pælt er í veðrinu. Hvort tveggja mun halda áfram að koma okkur á óvart en þó er líklegast að veðrið sé til framtíðar en síður Björt framtíð.

Meðfylgjandi mynd er eftir Helga Sigurðsson, skopmyndateiknara og birtist í Morgunblaðinu 27. ágúst  2015. Hún lýsir betur stöðu Bestaflokksins en pistillinn hér að ofan.


mbl.is Snerist aldrei um að verða formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband