Á mótorhjóli á göngustígum í Heiðmörk

MótorhjólHann sparaði ekki bensínið fanturinn á ónúmeraða mótorhjólin sem spændi upp göngustíga í Heiðmörk í gær. Sem betur fer voru fáir á ferð á þessum slóðum.

Ekki var ég nógu snöggur að grípa til myndavélarinnar í símanum en náði þó mynd af manninum þegar hann þeysti framhjá mér.

För 1Auðvitað er akstur mótorhjóla bannaður á göngustígum í Heiðmörk. Það segir sig sjálft. Hjólunum er ekið hratt og víðast eru blindbeygjur á stígum og þar er mikil slysahætta.

Mótorhjól spæna upp göngustíga. Þeim er bremsað á beygjum, gefið í þegar komið er út úr þeim, spænt í brekkum og svo framvegis. 

Ég var akandi þegar ég mætti mótorhjólakappanum. Hann snarstoppaði, hringspólaði og hvarf svo af veginum og inn á göngustíginn. Sá ekki betur en að hann sendi mér fingurinn um leið og hann hvarf.

Eftir þetta heyrði ég vélarhljóðið af og til hingað og þangað um skóginn.

För 2Þegar ég snéri til baka sá ég að hann hafði greinilega farið um flestar gönguleiðir sem lágu yfir veginn, yndislega fallegar gönguleiðir sem margir nota til að styrkja sig í hlaupum.

Ekkert eftirlit er með umferð í Heiðmörk. Komið hefur fyrir að för hafa sést eftir bíla sem hringspóla á bílastæðum. Stundum hafa orðið stórskemmdir á þeim. Skógræktin hefur brugðist við þessu með því að raða stóreflis björgum á bílastæðin, til að auðvelda þeim að leggja sem vilja og um leið að takmarka olnbogarými ökufanta. Það hefur dugað.

Hins vegar gengur ekkert að koma í veg fyrir umferð mótorhjólafanta. Þessi sem ég sá í gær var greinilega um tvítugt og því varla hægt að kenna óvitaskap um gerðir hans.

För 3Vandinn er sá að mótorhjólamenn hafa fært sig ansi mikið upp á skaftið á síðustu árum. Þeir hafa myndað ljótar slóðir vestan undir Henglinum, hringekið Bláfjöll og í þokkabót aka þeir margir um á númerslausum hjólum sem á eingöngu að nota á lokuðum keppnissvæðum. Slíkt svæði er við Bolöldu, við veginn inn í Jósefsdal. Þar leika þeir sér og ættu að vera öllum til friðs. Hins vegar aka þeir einir eða í hópum um nágrennið og til að mynda hafa þeir spænt um gróin svæði vestan undir Vífilsfelli, við Öldustein og í áttina að skíðasvæðunum.

Þetta lið skemmir að sjálfsögðu fyrir þeim sem iðka íþrótt sína á lokuðum svæðum eða fara löglega um vegi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Vissulega er þetta slæmt Sigurður. En öllu verri hafa verið ferðir fólks á hestum á vorin á þessum sömu stígum, sem gera það að verkum að verulegar ójöfnur myndast og frjósa jafnvel þannig að maður getur snúið sig við hlaup á þeim.  Þar hafa mótorjólamenn líka verið á ferð.

Annars að öðru, afstígavæðing Svandísar Svavarsdóttur gerði mótorhjólafólki skráveifu, oft að óþörfu. Gamlir stígar upp um landið eru margir hverjir skemmtilegir yfirferðar á enduro- hjólum, en nú má ekki neitt!

Ívar Pálsson, 21.8.2015 kl. 15:37

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég sleppti hestunum viljandi, Ívar. Hestar skemma göngustíga á annan hátt en vélhjólin. Þau grafa en hestarnir sundra. Hvort tveggja er slæmt fyrir göngu- og hlaupafólk. Annars er þetta alveg óþolandi í Heiðmörk. Nóg er að eiga von á reiðhjólum hljóðlausum á móti sér en vélhjól er langtum verri.

Annars hef ég líka mætt hestum á á þröngum göngustígum í Heiðmörk. Gettu hver þurfti að víkja?

Já, sumir freistast til að fara á mótorhjólum um gamlar kindagötur, göngustíga og reiðstíga. Það er utanvegaakstur samkvæmt lögum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.8.2015 kl. 15:48

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var á vel sóttum fundi samtaka, sem mig minnir að hafi nafnið Slóðavinir eða eitthvað þvíumlíkt. Með mér á fundinum var Andrés Arnalds frá Landgræðslunni. 

Við áttum í vök að verjast fyrir háværum hópi innan þessara samtaka sem töldu eðlilegt að þeir mættu djöflast á vélhjólum sínum á öllum göngustígum og kindagötum landsins. 

Þeim nægir ekki að hafa til umráða meira en 20 þúsund kílómetra af mektum jeppaslóðum, heldur líka ennþá hærri kílómetratölu af göngustígum og kinda- og hestagötum. 

Ómar Ragnarsson, 21.8.2015 kl. 17:29

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Er þá ekki vissara að halda vöku sinni, Ómar. Verði gefnir nokkrir þumlungar eftir er umsvifalaust gengið á lagið rétt eins og sést við Vífilsfell og Hengil. Annars finnst mér ég vera eins og einhver kverúlant að kvarta yfir þessari ágengni vélhjólaliðs.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.8.2015 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband