Hvað gerir verslunin í landinu þegar tollar lækka?
20.8.2015 | 10:54
Ég held að of margar kynslóðir sem alist hafa upp á Íslandi hafi litið á það sem sjálfsagðan hlut að margir hlutir kostuðu meira á Íslandi en annars staðar. Það væri því eftirsóknarvert að komast til útlanda til að sækja sér hluti sem væru ódýrari þar. Ég spyr; hvers vegna í ósköpunum ættu slíkir hlutir að vera eitthvað dýrari sem einhverju nemur hér en annars staðar? Munurinn ætti eingöngu að liggja í fjarlægðinni og með nútíma flutningatækni er að verða sífellt ódýrara að koma hlutum heimshorna á milli.
Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins og efnahags- og fjármálaráðherra, í merkilegu viðtali í Morgunblaðinu í dag (feitletranir eru mínar). Í sannleika sagt velta flestir fullorðnir Íslendingar verðlaginu mikið fyrir sér og undrast hvernig á því geti staðið að allar vörur séu margfalt dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum. Auðvitað er það algjörlega ótækt að það sé hagkvæmara að fara til útlanda og kaupa fatnað eða raftæki.
Óhófleg álagning verslunarinnar?
Á síðustu dögum hafa Neytendasamtökin birt markaðskönnun á verði sjónvarpa hér á landi og í Danmörku. Miklu munar á verðinu en það sem athyglisverðara er að Neytendasamtökin fullyrða að ekki sé hægt að skýra verðmuninn með því að kenna opinberum álögum um. Þá liggur við að beina sjónum að álagningu verslunarinnar.
Páll Vilhjálmsson, segir í pistli á bloggsíðu sinni Tilfallandi athugasemdir undir fyrirsögninni Samtök verslunar og þjófnaðar:
Raftæki eru dýrust á Íslandi í allri Evrópu, þótt opinberar álögur séu hér alls ekki hærri en til dæmis í Danmörku.
Verslunin hér á landi kemst í krafti fákeppni upp með að okra á okkur.
Það er mergurinn málsins.
Gæti verið að álagning verslunarinnar sé úr hófi fram? Hvernig stendur til dæmis á því að hægt er að bjóða meira en 80% afslátt á útsölum?
Tollalækkanir
Lífsbaráttan snýst hins vegar um meira en sjónvarpstæki. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir í Morgunblaðsviðtalinu:
Við eigum að grípa þau tækifæri sem liggja í þessu og leggja áherslu á að það verði auðveldara fyrir fólk að ná endum saman eins og þetta er dæmi um. Það er hægt að vinda ofan af þessu og nú árar þannig að við erum að framleiða gríðarleg verðmæti, fáum miklar gjaldeyristekjur og þá er lag að fjarlægja þessar eftirlegukindur erfiðra ára. Þetta er kjarabót fyrir þá sem komast sjaldnar út fyrir landsteinana, þetta færir verslun heim og opnar fyrir tækifæri í netverslun. Menn eru þá lausir við þau gjöld sem ella yrðu lögð á.
Fyrir okkur launþega eru þessi orð í tíma töluð. Við fylgjumst auðvitað með framhaldinu af miklum áhuga og jafnvel spenningi. Ef að líkum lætur þarf ekki að bíða lengi eftir því að Bjarni fylgi þessum málum eftir.
Er versluninni treystandi?
Hitt er svo allt annað mál hvernig verslunin tekur á tollalækkunum. Reynslan hefur kennt okkur að ekki er öllum verslunarrekendum treystandi. Þarf af leiðir að brýnt er að Neytendasamtökin haldi vöku sinni og gæti að verðlagi fyrir og eftir tollabreytingar. Það er ekki einfalt mál.
Um daginn lagði ég leið mína í útsölu í verslun þar sem ég hafði mánuði áður keypt vöru til heimilisnota og vildi bæta við. Kom þá í ljós að nákvæmlega sama vara og hafði áður kostað 9.900 krónur var á útsölunni verðlögð á 13.900 krónur. Í einfeldni minni hélt ég að á útsölum lækkaði verð en ekki öfugt.
Lái mér hvers sem vill þegar ég opinbera hér efasemdir mínar á heiðarleika margra sem reka verslanir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Facebook
Athugasemdir
Á ég að trúa því Sigurður, að þú sérst að mæla með opinberu eftirliti með verðlagningu á frjálsum markaði? Neytendur sjá um að afgreiða þá sem okra, eða hvað?. Maður skildi ætla að þannig virkaði frjáls samkeppni. Frjáls samkeppni finnst hins vegar varla á Íslandi. Hér ríkir fáheyrð fákeppni, þar sem tvær til þrjár blokkir eru einráðar á markaðnum, á öllum sviðum. Þessar blokkir stunda svipaðan leik og olíufélögin, svo niðurstaðan fyrir frjálsa samkeppni á Íslandi er sú, að hún fyrirfinnst ekki, nema sem frjálst samráð.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 20.8.2015 kl. 22:58
Nei, ekki trúa því, Halldór. Af reynslu minni dreg ég stórlega í efa að neytendur afgreiði þá sem okra vegna þess, eins og þú segir réttilega um fákeppni. Fleira kemur til eins og þetta með háu verði á sjónvörpum sem ég bendi á í pistlinum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.8.2015 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.