Hvað er til ráða er fólki verður mál?
10.8.2015 | 17:58
Þórólfur [Mostraskeggur] kastaði þá fyrir borð öndvegissúlum sínum, þeim er staðið höfðu í hofinu. Þar var Þór [goðið] skorinn á annarri. Hann mælti svo fyrir að hann skyldi þar byggja á Íslandi sem Þór léti þær á land koma. En þegar þær hóf frá skipinu sveif þeim til hins vestra fjarðarins og þótti þeim fara eigi vonum seinna. [...]
Þar sem Þór hafði á land komið, á tanganum nessins [Þórsness], lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing. Þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.
Svo segir í Eyrbyggju frá landnámi á Þórsnesi en á því nyrst stendur nú sá fallegi bær Stykkishólmur. Enginn skyldi ganga örna sinna á þingi heldur fara erinda sinna út í sker.Sem kunnugt er heitir þingstaðurinn Þingvellir á Þórsnesi og má ekki rugla saman við annan stað með sama nafni.
Ekki þarf nú Eyrbyggju til að ímynda sér að úrgangur hafi verið til ama, sérstaklega þegar margir koma saman. Fólk getur rétt ímyndað sér hvernig staðan hafi verið á Þingvöllum syðra þegar Alþingi var háð og mörg hundruð og jafnvel þúsund manns eða fleiri komu til starfa. Þó engir hafi fært í fornar bækur vandkvæði sem hljóta að hafa fylgt stórum og litlum samkomum þýðir það síst af öllu að allir hafi verið glaðir og kátir og enginn fnykur í loft þar sem ilmur af birki og lyngi var alla jafna að sumri til.
Í fámenninu skipti litlu þó einn og einn brygði sér afsíðis og létti á sér. Það gerðist auðvitað í ferðalögum á öllum tímum og flestir hljóta að hafa notað náttúrulegar aðstæður þegar kallið kom.
Auðvitað kann útlensku fólki að finnast þetta undarlegar aðfarir. Man eftir fleiru en einu tilviki að til mín kom útlent fólk sem ég var með í fjallaferð og spurði: Where is the bathroom, I need to go .... Og maður leit í augun á þessu fólki og bað það um að litast um. Bak við næsta stein og þvottur í læknum ...
Svona er nú lífsins gangur að hluti af því sem fólk neytir þarf útgöngu á einhvern hátt. Það á ekki að koma neinum á óvart, hvorki í Noregi né á Íslandi.
Hér á landi halda margir að ekkert nema gott fylgi auknum fjölda ferðamanna. Því miður er það nú þannig að vont fólk flækist með sem er heimamönnum og öðrum til leiðinda. Margir meiða sig og slasa, sumir týnast og þurfa hjálp af ýmsu tagi. Öllum er það svo sameiginlegt að verða á einum tíma eða öðrum mikið mál.
Það er saur í nánast hverjum runna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vats-salerni var víst fundið upp fyrir dálítið löngu síðan. En á Íslandi er þetta uppfiningar-tækniundur víst dálítið mikið of dýrt til að hægt sé að nota það til gagns?
Þegar einhverjum verður mikið mál, þá grípa þeir til íslenskrar fjármála-hagfræði og; PISSA BARA Í SKÓNA?
Eða hvað annað?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.8.2015 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.