Gamli klaufi
14.6.2015 | 11:36
Nokkrar leiðir eru upp á toppinn á Vífilsfelli. Ein kallast í daglegu tali sprungan eða sprunguleiðin. Þar smokrar göngufók sér upp og niður þrönga sprungu sem er ævintýraleg skemmileg þó stutt sé.
Í vor höfum við nokkrir verið að stika gönguleiðina upp á Vífilsfell og miðað talsvert áleiðis þó enn sé mikið eftir. Í góða veðrinu í gær skrapp ég á fjallið, einn samall. Braut þar með reglu sem maður hefur prédikað í langa tíma: Aldrei fara einn í fjallaferð. Ástæðan er einföld því fátt segir af einum. Ekki í fyrsta sinn sem ég fer ekki eftir reglum.
Nú, þarna stóð ég svo með þunga sleggju í báðum höndum og var að berja ofan á stiku við áðurnefnda sprungu. Þá gerðist það sem ekki átti að gerast. Mér skrikaði fótur. Rann einhvern veginn af steininum sem ég stóð á með syðri fótinn. Um leið brast jafnvægið og ég hrasaði, fyrst ósköp rólega, en þegar ég reyndi að stíga á annan stein þarna fyrir neðan brást hann algerlega vonum mínum, lét undan. Þá féll ég... Skall niður á hliðina og valt eins og tunna. Verra var að ég fann að seinni steinninn, hlunkur stór, fylgdi í kjölfarið á mér og stefndi að ég hugði í bak mér.
Þarna fannst mér ég eiga tveggja kosta völ. Annar var að taka höggið. Taldi frekar ólíklegt að hryggur minn væri svo vel hannaður og traustur að hann stöðvaði þungt grjótið án þess að gefa eftir. Valdi ég þá þann kostinn sem mér sýndist í flugsýn eitthvað skárri en það var að halda veltunni áfram og flýja grjótið á þennan óvirðulega hátt.
Innifalið í kosti fólst að ég þurfti að hlunkast niður á stall fyrir neðan þann fyrsta. Á meðan hlustaði ég eftir grjótinu en skall þá svo niður á þar næsta stall. Taldi ég þá nóg komið af veltum og stöllum enda þær ekki alveg sársaukalausar. Náði ég nú að bremsa mig af og líta upp í brekkuna. Allt gerðist þetta auðvitað á örskotsstundu en í minningunni var þetta sem kvikmynd í hægagangi, ... slow motion eins og það heitir á útlensku fagmáli.
Þegar þarna var komið sögu var kjölfarsgrjótið stoppað og því var ég hólpinn en fyrir neðan mig voru ekki fleiri stallar heldur nokkuð hrap niður í brekkuna fyrir neðan. Sá ég í hendi mér að vont hefði verið að velta þar fram af.
Þarna var þjóðráð að grípa andann á lofti enda var súrefnisskortur farinn að há mér eftir ævintýrið. Eftir margvísleg föll í gegnum ævina hef ég komist að því að maður heldur niður í sér andanum uns allt er yfirstaðið og þar af leiðir að maður verður frekar andstuttur á eftir, haldið maður á annað borð lífi.
Sat ég nú þarna lengi og horfði í gaupnir mér, mikill andans maður, er ég dró hann ótt og títt. Sá ég þá að úr löngutöng hægri handar blæddi. Hvernig mátti annað vera, holdið marið til ónýtis? Víðar á höndum voru skrámur þó ekki blæddi. Særindi og mar voru í syðri mjöðm og einnig á nyrðri fæti. Verra fannst mér að finna blóð leka úr enninu i hánorðri. Þar reyndist þó lítill skaði enda aðeins blóð úr löngutöng sem kom er ég strauk hendi um þær slóðir hvar fyrir mörgum árum liðuðust fagrir lokkar.
Særindi voru í norðaustanverðu enninu og kom í ljós eftir myndatöku, selfie, að horn nokkurt hafði vaxið út úr því. Líklegast hafði það kom eftir að ég skallaði fjallið í einhverri veltunni.
Þegar ég hafði náð að róa anda minn og æðaslátt og drukkið fáein vötn leit ég upp eftir slysstaðnum. Þarna höfðu greinilega orðið mikil átök við fjallið sem leit þó mun verr út eftir þau viðskipti en ég. Með það sendi ég myndi úr síma mínum til eldri sonar míns, svokallaða Snapchat mynd. Svarið sem ég fékk var stutt og laggott en svo ósköp satt: Gamli klaufi ....
Myndirnar skýra sig sjálfar. Af tillitssemi við börn og viðkvæma eru ekki birtar myndir af öðrum skaða en fjallið varð fyrir.
Sjá annars vefsíðu Vífilsfells.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:47 | Facebook
Athugasemdir
Þörf áminning! Sem betur fer slappstu með skrekkinn.
Wilhelm Emilsson, 14.6.2015 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.