Hrákasmíði Steingríms sem átti að bjarga fólki frá gjaldþroti
2.6.2015 | 20:59
Steingrímur J. Sigfússon hættir aldrei að koma mér á óvart með einkennilegum málflutningi. Sjáum hvað mbl.is les út úr orðum hans á Alþingi í dag:
Benti Steingrímur að 110% leiðin væri eigna- og tekjutengd. Hún snérist um að færa niður kröfur á fólki sem var í bullandi yfirveðsettu eignum og átti ekki aðrar eignir á móti, sagði Steingrímur.
Sagði hann að í 110% leiðinni hefðu menn ekki verið að gefa neitt eftir af innheimtanlegum kröfum, heldur hafi fólk í raun verið gjaldþrota.
Ég hef aðeins kynnt mér þessi mál, eins og líklegast hefur komið fram áður. Mín niðurstaða er einföld:
110% leiðin var arfavitlaus vegna þess að hún gekk EKKI út á að meta greiðslugetu, heldur að fólk gæti nýtt sér dapra stöðu fasteignaverðs, sem síðan hefur hækkað mjög mikið.
110% leiðin var bara fyrir það fólk sem hafði góðar tekjur, vegna þess að eingöngu það gat staðið undir 110% af skuldum miðað við eignaverð.
Langflestir sem hefðu þurft á lækkun skulda, gátu ekki nýtt sér 110% leiðina vegna þess að þeir höfðu ekki heldur greiðslugetu fyrir 110%-unum.
110% leiðin var leið bankanna vegna þess, að þá gátu þeir fært út úr bókunum sínum upphæðir, sem þeir lögum samkvæmt áttu að færa á varúðarreikning.
Ég hef ítrekað sagt, að rangt hafi verið að nota eignaverð sem viðmið, því það breytist yfir lánstímann. Eina rétta hefði verið að taka fólk í nýtt greiðslumat og gera eins og lög 107/2009 sögðu til um, að laga skulda- og eignastöðu að greiðslugetu.
Sá er ekki gjaldþrota sem getur greitt af lánum sínum, þó svo að eiginfjárstaðan sé neikvæð. Þá væru allir námsmenn gjaldþrota, þegar þeir koma úr námi. Samkvæmt íslenskum gjaldþrotalögum er sá gjaldþrota sem ekki getur staðið undir skuldbindingum sínum, sama hver eiginfjárstaða viðkomandi er.
Mér finnst alveg með ólíkindum að Steingrímur J. sé enn að verja arfavitlausa löggjöf Árna Páls Árnasonar. Því miður héldu nær allir þingmenn að þetta væri sniðug löggjöf og veittu frumvarpinu brautargengi.
Fyrir þá sem ekki muna, þá voru lögin afgreidd úr nefnd með fundi sem haldinn var undir stiga í þinghúsinu. Enda þurfti að flýta sér svo hægt væri samþykkja lögin áður en kjördæmavika gengi í garð! Nákvæmlega engu hefði munað, að bíða með málið 3-4 vikur og vanda til verksins, en í staðinn fengum við hrákasmíðina sem Steingrímur segir að hafi bjargað hátekjufólki frá gjaldþroti.
Yfirleitt kann ég betur við að skrifa sjálfur pistla mína en stöku sinnum vitna ég í skrif annarra. Hér að ofan eru skrif Marinós G. Njálssonar, ráðgjafa, á Facebook. Hann met ég mikils þó ekki sé ég nú alltaf sammála.
Marinó man auðveldlega eftir misgjörðum síðustu ríkisstjórnar. Hann tók eflaust tekið eftir frásögn Ríkisútvarpsins af orðaskiptum Steingríms og nokkurra stjórnarsinna sem í þinginu í dag fullyrtu að 110% leið vinstri stjórnarinnar hafi verið afar slæm. Þá byrsti Steingrímur og hélt því fram á móti að svo væri ekki og hann gæti á stundinni tekið snerru um þessa leið. Þegar Steingrímur hefur hátt ætlast hann ábyggilega til þess að andstæðingar hans hafi sig hæga. Þannig er háttur manna sem kunna ekki rökræðu.
Ég skrifaði umræðuna hjá mér og ætlaði að rita pistil um norrænu velferðastjórnina sem var svo góð við almenning að hann hefur varla borið þess bætur síðan. Marinó tók hins vegar af mér ómakið og skrifaði ofangreint sem ég birti án leyfis, bætti við greinaskilum og feitletraði ýmislegt til að auðvelda lesturinn. Raunar hefði þurft að feitletra allan pistilinn, svo góður er hann og hnitmiðaður. Ég hef afar litlu við hann að bæta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður
Í 110% leiðinni voru það bankarnir sem útveguðu matsmenn til að meta verðgildi fasteignanna sem voru með 110+% veðsetningu. Fyrir tekjulága sex manna fjölskyldu var litla hjálp að fá í gegnum þessa leið.
Tómas Ibsen Halldórsson, 2.6.2015 kl. 22:16
Sæll, ég man eftir þessu. Mér nákomið fólk fór þessa leið. Hún dugði lítið. Matsmaðurinn var engu að síður hjálpsamur.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.6.2015 kl. 22:33
Það hefði í einhvern tíma verið kallað sleifarlag að svona ódráttur væri enn gasprandi á Alþyngi eftir alla lygina, svikinn, hrottaskapinn og undirferlið sem hann bauð landanum uppá.
Hrólfur Þ Hraundal, 3.6.2015 kl. 06:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.