Gott fólk, vont fólk og sannleikskornið

Ég hef reynt að hafa þá nálgun í nokkurn tíma, þegar ég skoða málflutning fólks sem ég er kannski ósammála að:

    1. Ganga út frá því (þangað til annað kemur skýrlega í ljós) að fólk stjórnist af góðum hvötum.
    2. Reyna að finna sannleikskornin í málflutningi viðkomandi. Það er (eiginlega) alltaf sannleikskorn. Verstu ályktanir leiða gjarnan af einhverju sannleikskorni.

Ef manni tekst þetta, tekst maður á við málflutninginn eins og hann er og rótast ekki bara í eigin fordómum. Maður víkkar út eigin hugmyndaheim og skilur fólk betur.

Þannig skrifaði Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri, á Facebook um daginn. Ég þekki manninn ekki nema af skrifum hans. Hins vegar líkar mér vel við þessa nálgun. Hún er í ætt við það sem ég hef reynt að tileinka mér í skrifum og umræðu. Það er hins vegar afar erfitt.

Þeir sem rita undir fréttir í ýmsum fjölmiðlum fá heitið „virkir í athugasemdum“ vegna mikilla afkasta í athugasemdunum. Munum hins vegar að afköst eru ekki alltaf beintengd við gæði. Raunar er það sjaldnast svo. Sjaldnast eru athugasemdirnar málefnalegar. Lítt ígrundaðir dómar eru þar algengir, fólk veður fram með sleggjudóma og ekki síður persónulega óvild. Þannig er það líka hjá mörgum bloggurum.

Ofangreindur Gunnlaugur getur ekki um þetta fólk né þessi sóðaskrif, enda sjaldnast sannleikskorn að finna í þeim.

Á langri æfi hef ég komist að því að fólk skiptist í tvo hópa. Gott fólk og vont fólk. Langflestir eru tilheyri fyrrnefnda hópum. Almennilegt fólk sem kemur fram við aðra á sama hátt og það vill að aðrir komi fram við sig, án þess þó að það sé einhver krafa. Þetta er ábyggilega langstærsti hluti fólks, ábyggilega 90% mannkyns.

Svo eru það hinir. Fólkið sem lætur öðrum líða illa, annað hvort meðvitað eða ómeðvitað, gerir daginn slæman. Þannig fólk reynir aldrei að skilja aðra, fer til dæmis ekki að ráðum Gunnlaugs Jónssonar og reynir sjaldnast að finna sannleikskornið. Ef til vill vegna þess að stundum er sannleikurinn ekki alltaf auðsjáanlegur og afgerandi heldur falinn og þá krefst það vinnu að finna hann. Er þá ekki betra að vaða fram með reitt sverð og höggva á báðar hendur í þeirri „von“ að eitthvað láti undan? Stundum er þetta fólk nefnt „fyrirsagnahausar“ vegna þess að það leggur ekki á sig leitina að sannleikskorninu, heldur að fyrirsögnin segi allt.

Nú kann einhver sem les þennan pistil að tauta fyrir munni sér að ekki séu allir annað hvort vondir eða góðir. Einhverjir hljóta að hrökkva þarna á milli í skilgreiningunni. Jú, þetta hélt ég líka en ég hef misst trúna á þeim sem hafa ekki döngun til að skipa sér í hóp þeirra sem teljast góðir heldur asnast til að vera ýmist eða allt sitt líf. Það er einfaldlega heimskulegt.

Og hver þykist þú vera? Kann einhver lesandinn að spyrja. Því er til að svara að ég kann að hafa verið í vonda liðinu en það er dálítill tími síðan ég ákvað að gera meðvitaða tilraun til að skipa mér afgerandi í góða liðið. Láta ekki vonda fólkið stjórna lífi mínu eða gjörðum. Ég vona að mér hafi tekist það, en eigi einhver einhvera klögu á mig biðst ég afsökunar og reyni að gera betur næst.

Vonda fólkið má hins vegar æsa sig, rægja þá sem það vill, reyna allt hvað það getur til að eyðileggja fyrir þeim sem vilja vel, skemma góða fyrirætlan með neikvæðum umsögnum, kalla aðra ónefnum og svo framvegis.

Mér finnst það farsælla að reyna að sjá og skilja sannleikskornið frekar. Það er málefnalegra og svo þannig nýtur maður dagsins helmingi betur. Látum ekki vonda fólkið stjórna lífi okkar. Lokum á vonda fólkið, horfum í birtuna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er bara asskoti góð hugleiðing

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.6.2015 kl. 20:44

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir, gott að fá hól frá manni úr góða liðinu ...smile

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.6.2015 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband