Hvar var maðurinn þegar refurinn nam land á Íslandi?
20.5.2015 | 10:03
Bóndinn á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp er einn helsti andstæðingur refsins á Íslandi og hefur skrifað ótal greinar í Morgunblaðið honum til höfuðs og hvetur stjórnvöld af öllu tagi til að láta drepa dýrið, skaðvaldinn sem getur átt það til að drepa mófugla, sjófugla, þar með talinn æðarfuglinn, og ekki síst sauðfé.
Mér finnst alltaf jafngaman að lesa greinar eftir Indriða Aðalsteinsson, á Skjaldfönn. Hann er merkilega kjaftfor og tekst oft að tvinna saman í einni grein margvíslegar ádeilur, til dæmis þessa í lok greinar sinnar í Morgunblaði dagsins sem hann kallar Tíu þúsund ríkisrefir:
En þetta er bara í takt við aðrar yfirtroðslur og lítilsvirðingu að sunnan í garð okkar Vestfirðinga. Fiskauðlindinni að mestu rænt, jarðgöng til að losna við manndrápshlíðar fá og seint, nokkrar birkikræklur í Teigsskógi látnar standa í vegi fyrir að Barðstrendingar komist í viðunandi vegasamband og nú vofir þjóðlenduskrímslið yfir okkur, til a ná vatnsréttindum undir sig.
Semji nú aðrir álíka ádeilu í einfaldri grein sem fjallar þó eingöngu um refi.
Jú rebbi lifir á Hornströndum sem er friðland. Þar segir Indriði að refakynið blómgist og ekkert sé um mófugla og jafnvel sjófuglar séu í útrýmingarhættu. Ég held að þetta sé tóm vitleysa í bóndanum.
Rebbi kom til Íslands þúsundum ára áður en fyrstu landnámsmenn komu hingað til lands með sauðfé. Fram að landnámi hafði rebba ekki tekist að útrýma mófugli eða öðrum fyglum og var þó landið allt undir, friðað. Enginn sinnti grenjavinnslu og rebbi fékk án nokkurra vandræða að valsa um landið og éta það sem hann vildi, þó ekki lambakjöt. Eða voru vandræðin næg í lífi rebba, rétt eins og í dag. Líklegast er það svo að náttúran stemmi stigu við offjölgun dýra og fugla.
Greinar Indriða á Skjaldfönn eru hins vegar alltaf skemmtilegar og fáir sem komast með tærnar þar sem hann hefur hælana hvað varðar þekkingu, rökvísi og vandað íslenskt mál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:20 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta og tek undir hvert orð. Nú hefur ref fækkað að nýju á Hornströndum án þess að nokkur maður hafi hleypt af skoti. Það skyldi þó aldrei vera en að náttúran sjálf hafi áorkað meira á stuttum tíma en tugir refaskyttna?
Ómar Ragnarsson, 20.5.2015 kl. 10:16
Var að vinna örlítið í handriti og tökum með Guðbergi Guðbergsyni, kvikmyndagerðarmanni, að mynd um refinn á Hornströndum. Myndin var frumsýnd í apríl, þar er komið inn á náttúrulega fækkun refsins. Vel tekin og góð mynd.
Á sama tíma var lið frá BBC að gera mynd um refinn á Hornströndum. Veðurskilyrðin voru þó þau sömu hvort fyrir báða aðila og eitt sinn í fyrrasumar þurftu allir myndatökumenn að sæta því að bíða af sér veður í heila viku í bátaskúrnum að Horni.
Þar ku hafa ýmislegt verið rætt meðan slagveðurshryðjurnar lömdu húsið og voru enskir mest hissa á að einn maður íslenskur væri að gera heimildarmynd um rebba en BBC þyrfti fjölda fólks við sína.
Hef séð báðar myndirnar. Mynd Guðbergs er fyllilega sambærileg við þá frá BBC og um margt betri.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.5.2015 kl. 11:22
Þó Indriði á Skjaldfönn sé kjarnyrtur í greinum sínum skyldi enginn gera lítið úr vitneskju hans um dýralíf og náttúru fyrir vestan. Það virðist vera orðin lenska hér á landi að ef þú ert ekki háskólagenginn og helst með prófessorstitil þá eru orð þín ómarktæk. Hvernig í ósköpunum má það vera að fólk trúi frekar stelpuskjátu með háskólapróf heldur en fjölda bænda og grenjaskyttna þegar rætt er um fjölda, útbreiðslu og hegðun refsins hér á landi? Stelpuskjátu sem tilkynnir fækkun í refastofninum vegna þess að innsendum hræjum frá veiðimönnum fækkaði milli ára. En margir veiðimenn eru einmitt búnir að fá sig fullsadda af friðunartilburðum gagnvart refnum á meðan flestir vita af stórkostlegri fjölgun tófunnar. Og vel að merkja þá er refurinn friðaður í öllum þjóðgörðum í stað þess að halda honum í skefjum eins og gera þarf. Tófur eru á síðustu árum komnar með ný greni um allt og það heim undir bæi og allt um kring.
Högni Elfar Gylfason, 20.5.2015 kl. 13:00
Ég er sammála þér, Högni Elfar. Enginn skyldi gera lítið úr þekkingu Indriða á Skjaldfönn enda fjarri mínum hugsunarhætti.
Hins vegar skyldi enginn gera lítið úr "stelpuskjátu með háskólapróf", þekkingu hennar eða persónu.
Farsælast er ef allir tileinka sér kurteisi og virðingu í samskiptum við aðra eða í umsögnum um aðra. Þá mun flest ganga á betri veg.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.5.2015 kl. 13:50
Rétt hjá þér Sigurður. Ég á ekkert með að tala niður til hennar, en ég á það til að pirrast yfir refaumræðum þar sem eins og ég skrifaði lítið mark er tekið á fólki sem segir frá þessari miklu fjölgun á tófu hér á landi, að því er virðist aðallega vegna þess að það hefur ekki háskólagráðu.
Högni Elfar Gylfason, 20.5.2015 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.