Helmingur kjósenda í Skotlandi fær aðeins þrjá þingmenn ...
10.5.2015 | 14:13
Úrslit bresku kosninganna þykja merkilegar fyrir margra hluta sakir. Upp úr stendur þó að Íhaldsflokkurinn náði meirihluta þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn frá því 2010. Hitt er einnig afar athyglisvert hversu skoðanakannanir fyrir kosningarnar voru fjarri úrslitunum.
Rætt er um kosningakerfið í Bretlandi og finnst sumum það ólýðræðislegt jafnvel þó Bretar séu nú frekar sáttir við það. Að sjálfsögðu hefur kerfi sem byggist á einmenningskjördæmum stóran galla í för með sér. Aðeins einn nær kjöri, hinir ekki og atkvæði þeirra nýtast engum.
Kosningakerfi eins og við erum með er ólíkt skárra. Atkvæðin nýtast að minnsta kosti miklu betur.
Hins vegar má spyrja hinnar ólýðræðislegu spurningar hvort það sé yfirleitt tilgangurinn að atkvæðin nýtist.
Í breska kerfinu er markmiðið að kjósa þingmann í hverju kjördæmi. Það byggist ekki ástjórnmálaflokkum, heldur einstaklingum í frambði. Svo einfalt er það. Hér á landi eru stór kjördæmi, stjórnmálaflokkar eru í kjöri og atkvæðin nýtast þar af leiðandi mun betur, það er að segja nái flokkur kjöri, að öðrum kosti gera þau það ekki.
Svo má endalaust ræða um það hvort kerfið er betra eða hvort sé hægt að gera betri útgáfur af þeim. Ég gef lítið fyrir breska kerfið, vil alls ekki að það verði tekið upp hér á landi.
Í kosningunum hlaut Íhaldsflokkurinn meirihluta þingmanna. Skiptingin í öllu Bretlandi er eins og sést á töflunni hægra megin. Kosningaþátttakan var 66,1%. Ég hirði ekki um að þýða nöfn flokka, þau hljóta að vera flestum ljós sem á annað borð fylgjast með stjórnmálum í Bretlandi.
Sjá má að lítið samræmi er milli fjölda þingsæta og hlutfallslegs fjölda atkvæða sem einfaldlega bendir til að fjöldi atkvæða að baki þingmanna er misjafn.
Ætlum við að taka þann pólinn í hæðina að þetta sé óréttlátt kosningafyrirkomulag hljótum við að álykta sem svo að það bitni jafnt á öllum. Eflaust er hægt að fullyrða að gömlu flokkarnir hagnist umfram aðra á svona kerfi.
Í því sambandi er þá gott að líta á niðurstöðurnar í Skotlandi. Þar sigraði Skoski þjóðarflokkurinn með yfirburðum ... Eða hvað?
Í Skotlandi eru einmenningskjördæmi, rétt eins og annars staðar á Bretlandi, og því fer fjarri að úrslitin þar sé eins afgerandi og við fyrstu sýn mætti halda.
Svona eru úrslitin í Skotalandi en kosningaþátttakan var 71,1%:
- SNP 56 þingmenn, 50,0% atkvæða
- Lab 1 þingmann, 24,3% atkvæða
- Con 1 þingmann, 14,9% atkvæða
- LD 1 þingmann, 7,5% atkvæða
Helmingur Skota kaus annað en Skoska þjóðarflokkinn sem bendir til að þarlendir skiptist í flokka eins og annars staðar. Engu að síður er helmingur atkvæða stórmerkilegur árangur fyrir alla stjórnmálaflokka sem slíkan stuðning fá.
Ef við lítum nánar á úrslitin í Skotlandi og þá með gagnrýnum augum hefðu þau hugsanlega getað orðið á þann veg að Skoski þjóðarflokkurinn hefði ekki náð neinum þingmanni inn.Að minsta kosti dugði helmingur atkvæða ekki til annars en að þrír flokkar fengu aðeins þrjá þingmenn.
Í þessu endurspeglast vandinn með einmenningskjördæmi. Þau eru alls ekki góð. Íslenska kjördæmaskipanin er að þessu leiti miklu betri en sú breska ... að mínu mati. Ég er þó þess fullviss að almenn sátt er um fyrirkomulagið í Bretlandi.
Óréttlæti einmenningskjördæma endurspeglast meðal annars í eftirfarandi:
- Skoski þjóðarflokkurinn, sem fékk 56 þingmenn, fékk samtals 1,5 milljón atkvæða.
- UKIP fékk einn þingmann en engu að síður kusu 3,9 milljónir manna flokkinn.
- Liberal Democrats fékk átta þingmenn, þá kusu 2,4 milljónir manna kusu flokkinn.
Eflaust má endalaust velta vöngum yfir úrslitunum í bresku þingkosningunum og sitt sýnist ábygglega hverjum. Mér finnst það hins ástæða til að varast að taka aftur upp einmenningskjördæmi hér á landi. Slíkt kerfi var ekki vinsælt á sínum tíma.
Athugasemdir
Á Íslandi er bráð nauðsýnlegt að jafna vægi atkvæða, að atkvæði greitt á Stór-RVK. svæðinu vegji jafnt við atkvæði greitt í Norð-Austur kjördæmi t.d.
Jónas Ómar Snorrason, 11.5.2015 kl. 07:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.