Skúr í nánd ... veðurlag í þúsund ár
13.4.2015 | 11:49
Veðurspár fyrir sumarið eru frekar ómarkvissar svona rétt eins og hjá þeim sem ráða í framtíðana með hliðsjón af draumum sínum, útliti innyfla lamba eða innliti kaffibolla. Áður en þjóðin grípur í örvæntingu sinni til örþrifaráða eins og að flytjast til Færeyja, vesturstrandar Noregs eða Írlands er vissara að anda rólega og skoða staðreyndir mála.
Forfeður okkar hafa búið á þessu skeri í rúmlega eitt þúsund ár. Samkvæmt heimildum völdu þeir ekki landið vegna veðurfars. Allt annað lá til grundvallar. Veðurlag hefur ábyggilega verið mjög svipað frá landnámsöld. Því má lýsa þannig: Skúr í nánd ...
Og hvað með það þó hér rigni? Hvaða máli skiptir þó hér verði örlítið kaldara þetta sumar en meðaltal síðustu fimmtan sumra segir til um? Engu.
Hvað segir svo Evrópureiknimiðstöðin um sólskin næsta sumar? Ekkert. Spámenn sem byggja vitneskju sína um framtíðina á draumum, innyflum og kaffibollum fullyrða með 96% líkum að sumarið í sumar verði sólríkara en síðustu árin. Þessa ályktun dreg ég af viðtölum við draumaspakan náunga, kjötiðnaðarmann og kaffiþambara. Þeir eru afar spámannlega vaxnir svo ekki sé meira sagt.
Svo má nefna þá lífsspeki sem margir hafa tileinkað sér að veður sé einfaldlega hugarástand. Þessi vísdómur varð ekki til úr engu heldur flís ... Nánar tiltekið er fatnaður nútímamannsins miklu betri en forfeðra okkar og þar af leiðandi getum við farið nær allra okkar ferða á tveimur jafnfljótum án þess að veðrið hamli för, að minnsta kosti að sumarlagi.
Auðvitað veldur spá Evrópureiknimiðstöðvarinnar þeim sem horfa á lífið og tilveruna út um stofugluggann miklum áhyggjum. Þeir kvarta undan slæmu vori (og vorið er ekki einu sinni komið) og væla undan kulda og rigningu rétt eins og veðurlag hér á landi sé að öllu jöfnu eins og við miðbaug.
Sá sem venur sig á útiveru og hreyfingu finnur æ minna til veðursins, hann lætur það ekki stoppa sig eða trufla.
Annars er það afar slæm tilhugsun ef auðlindir þjóðarinnar, heita vatnið og rafmagnið, séu að gera hana að aumingjum sem góna á tilveruna út um stofugluggann. Það er hræðilegt.
Kalt sumar framundan? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Facebook
Athugasemdir
Öll veður hafa sinn sjarma, hvert á sinn hátt. Eiginlega eru ekki til vond veður, nema þá helst erlendis þar sem hitinn er stundum að drepa mann. Kuldann, regnið og vindinn getur maður klætt af sér, en ekki hitann. Við erum því heppin að búa hér á landi þar sem sjaldan verður of heitt.
Ágúst H Bjarnason, 13.4.2015 kl. 14:39
Bestu þakkir fyrir innlitið, Ágúst. Rétt hjá þér. Gleymum samt ekki að geta þess að miðað við okkar hæfilega milda, eða kalda, loftslag eru alls kyns kykvendi fjarri, skordýr sem leita á fólk, skriðdýr og flugur eins og til dæmis moskítóflugur. Ein og ein lægð með rigningu eða snjókoma síðla vetrar er ekki merkileg ef við ættum að velja.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 13.4.2015 kl. 14:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.