Trú fólks er einkamál, kemur öðrum ekkert við

Morgunblaðið notar frekar niðurlægjandi fyrirsögn á frétt. Hermir upp á presta að þeir „fari á límingum“. Merkingin á þessu orðtaki er að viðkomandi missi sjálfstjórn sína vegna greinar Jóns Gnarr sem blaðamaður telur eflaust réttari en viðhorf prestanna.

Staðreyndin er hins vegar sú að mönnum er frjálst að hafa skoðun á kristinni trú sem og öðrum trúarbrögðum. Eðlilega rísa fjölmargir upp til varnar sinni trú. Það þýðir ekki að allir séu að „fara á límingunum“ þó sumum reynist illt að halda sig við rök.

Hér er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvers vegna einhver vilji gera lítið úr trú annars. Jú, oftast er það vegna þess að sá hinn sami vill upphefja sjálfan sig á kostnað þess trúaða eða hann vill halda því fram að trúin sé ósannað fyrirbrigði. Hvort tveggja er svona frekar heimskulegt. Tilraun til þess að gera útaf við þann sem trúir eða trú hans er svona svipað eins og að gera lítið úr þörf einstaklings fyrir hreyfingu, lestri, hugleiðslu eða álíka. Grundvallarreglan á að vera sú að láta trú fólks afskiptalausa. Eðli trúarbragða er yfirleitt sprottin af innri þörf. Sá hlýtur að vera ansi hreint vitlaus sem heldur að hann sé þess umkominn að geta fengið einhvern til að afneita trú sinni.

Í ljósi þessa er ótrúlegt að fyrrum borgarstjóri skuli sjá sér sóma í að agnúast út í trúarbrögð. Hins vegar gerir hann það á frekar hófstilltan máta og það mega þeir sem standa upp til varnar kristinni trú líka gera. Algjör óþarfi er að stilla fólki upp við vegg vegna skoðana sinna, hvort heldur það er með eða á móti ákveðinni trú. 

 


mbl.is Prestar fara á límingum yfir Jóni Gnarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Um margt hér og lengstum framan af er ég sammála þér, Sigurður, en ekki það, að ritað hafi Jón Gnarr þessa dæmalausu grein "á frekar hófstilltan máta". Miklu frekar ber að taka undir megnið af skarpri gagnrýni sóknarprestsins í Hallgrímskirkju, dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar, í Fréttablaðinu í morgun, en hún er hér: Guð og Jón Gnarr.

Eini ljósi punkturinn í þessu nýjasta upphlaupi Jóns Gnarr er, að nú geta kristnir menn og allir þeir, sem trúa á Guð, beint sjónum sínum að einhverjum öðrum sem vænlegum manni á forsetastól á Bessastöðum.

Jón Valur Jensson, 17.2.2015 kl. 23:27

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir pistilinn, Sigurður. Þú skrifar: "Sá hlýtur að vera ansi hreint vitlaus sem heldur að hann sé þess umkominn að geta fengið einhvern til að afneita trú sinni." Myndirðu segja að trúboði sé "ansi hreint vitlaus"?

Wilhelm Emilsson, 18.2.2015 kl. 08:55

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Auðvitað er hægt að snúa út úr orðum mínum á allan þann hátt sem menn vilja misskilja með vilja. Get ómögulega fengið mig til að taka þátt í spurningaleik sem byggist á slíku. Held að ekkert sé illskiljanlegt í pistli mínum. Hann fjallar um virðingu og umburðarlyndi gagnvart náunganum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.2.2015 kl. 09:01

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

En ég verð nú eiginlega að taka undir með Wilhelm hér -- það er vitaskuld hin heilbrigða von heilbrigðs trúboða, ekki sízt þess sem er vel upplýstur og þekkir vel til þeirrar trúar, sem ríkt hefur í viðkomandi landi, að honum megi takast að sannfæra fólk þar um betri trú og sannari. Þetta er öllum kristnum trúboðum ætlað, þetta liggur í sjálfri "kristniboðstilskipuninni" sem Kristur gefur postulunum: "Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni Föður og Sonar og Heilags Anda, og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Mt.28.18-20)

Hvernig geta menn tekið þessu svo léttilega að segja: "Nei, við eigum bara að virða þá trú, sem fyrir er, og ekki gera upp á milli ólíkra trúarforma -- eða að minnsta kosti viðurkenna, að trú sé bara einkamál, sem öðrum kemur ekki við og engum ber að skipta sér af!"?

Þessi theoría: "Trú er einkamál!" og jafnvel í svo róttækri merkingu sem ég útlistaði hér,* stenzt ekki kröfur kristindómsins. Og fjarri fer því, að trúin sé bara einkamál. Trú Aztekanna, sem fórnuðu ímynduðum guðum sínum 25.000 manns árlega og það með afar kvalafullum hætti, var ekkert einkamál þeirra, sem trúðu, ekki frekar en Ásatrúin sem olli því, að menn voru með mannfórnir, eins og við réttilega sjáum í myndaflokknum um Ragnar loðbrók (Víkingarnir).

Trú getur haft margvísleg samfélagsleg áhrif. Trú er í senn persónuleg og samfélagsleg (communal) -- nokkuð sem við eigum samfélag um með öðrum. Hugmyndin um, að hver búi bara að sinni trú, er ekki frá Kristi komin, heldur þýzka heimspekingnum Friedrich Schleiermacher, og sú blekkingarhugmynd gengst mjög inn á, að trúin sé e.k. Empfindung, tilfinningamál, fremur en að þar sé verið að trúa einhverjum og trúa á einhvern. Í kristinni trú trúum við Kristi og vitnisburði hans, og við trúum á Guð og á hann sjálfan ("Trúið á Guð og trúið á mig," segir hann sjálfur í Jóhannesarguðspjalli).

* En vitaskuld verður trúin að vera líka persónuleg hjá viðkomandi; það er hann eða hún sem trúir, hann/hún er ekki einfaldlega lítt meðvitaður partur af trúarverki annarra, ekki nema í frumberskunni.

Takk fyrir umræðuna, Sigurður og Wilhelm!

Jón Valur Jensson, 18.2.2015 kl. 14:54

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kristin trú er líka samfélagsleg í þeirri merkingu, að okkur er ekki ætlað að iðka hana bara ein með sjálfum okkur (þó að sú iðkan sé absolút mikilvæg). Kristur ætlast ekki til þess, að við sitjum heima á helgum degi! Hann ætlast til þess, að við höfum samfélag um trúna með trúsystkinum okkar, að við komum saman með þeim og hlýðum á Guðs orð og höfum samneyti um sakramenti hans.

Eins er bróðurlegt hjálparstarf líka í sjálfri náttúru hins kristna trúarlífs frá byrjun, eins og við sjáum í Postulasögunni, 2.44 o.áfr., og víðar.

Jón Valur Jensson, 18.2.2015 kl. 15:00

6 Smámynd: Kristin stjórnmálasamtök

Ég er mjög þakklátur þér, Sigurður, og ykkur báðum að hafa ýtt við mér til að skrifa þessi innlegg, og úr þeim gerði ég grein á Kristblogginu, þar sem ég slípa þetta aðeins til og eyk við meiri hlutum, einkum undir lokin. Sú grein er hér: 

Trú er ekki bara einkamál !

En mig langar líka til að bæta við þessar athugasemdir einni enn, með tilvísan í eitt af fáum ritum fornra manna kristinna, sem þýdd hafa verið á íslenzku, þ.e. smárit eftir Tertúllíanus (um 160-225), sem var ófeiminn við að boða Rómverjum trúna, meðan þeir þó ofsóttu kristna menn, og þeir fá líka að heyra það, að þeirra eigin trú var afleit í samanburði! 

Ég fæ vonandi tækifæri til þessa á eftir.

Kristin stjórnmálasamtök, 18.2.2015 kl. 15:57

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Úpps! - þarna var ég staddur innloggaður á Kristbloggi, en þetta átti að vera skrifað með mínu nafni.

Jón Valur Jensson, 18.2.2015 kl. 15:59

8 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir svarið, Sigurður.

Ég get skilið að það sem ég skrifaði hafi virkað eins og útúrsnúningur, en það sem vakti fyrir mér var að skilja afstöðu þína betur og gefa í skyn að önnur sýn á málið væri möguleg. 

Núna hefur Jón Valur skýrt málið eins og það lítur úr frá sínum bæjardyrum og ég held að margir, bæði trúaðir og efasemdmenn, séu sammála honum. Takk fyrir það, Jón Valur.

Ég er svolítið gamaldags og trúi því, líkt og John Stuart Mill, að umræður, sérstaklega kurteislegar umræður eins og þessar, færi okkur nær sannleikanum :)

Wilhelm Emilsson, 18.2.2015 kl. 19:58

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sammála þér, Wilhelm og raunar John Stuart Mill. Var kannski dálítið snöggur upp á lagið í svari mínu enda margir sem hér banka upp á aðeins í sparðatíningi og útúrsnúningu í athugasemdum á bloggi og á þeim er maður dauðleiður. Tilgangurinn var síst af öllu að sýna þér óvirðingu. 

Mér hefur gramist þegar þeir sem segjast vera trúlausir vilja „aftrúa“ þá trúuðu og eru margir afar ruddalegir og ókurteisir í þessu ætlunarverki sínu. Einnig er ég afar ósáttur við skort á kristilegu umburðalyndi margra trúaðra gagnvart öðrum trúarbrögðum. Í sannleika sagt geri ég ekki greinarmun á fólki eftir trú, lit, kyni, kynhneigð og öðru álíka. Tek það þó fram að ég er frekar andsnúinn framsóknarmönnum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.2.2015 kl. 20:21

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

>...eða hann vill halda því fram að trúin sé ósannað fyrirbrigði. Hvort tveggja er svona frekar heimskulegt. 

Ertu að segja að það sé heimskulegt að halda því framað trúin sé ósanð fyrirbrigði? Skil ég þig rétt?

>Sá hlýtur að vera ansi hreint vitlaus sem heldur að hann sé þess umkominn að geta fengið einhvern til að afneita trú sinni.

En raunin er sú að *fólk hefur misst trúna* vegna málflutnings annarra. Til dæmis núverandi formaður Vantrúar!

>Grundvallarreglan á að vera sú að láta trú fólks afskiptalausa.

Það er nú erfitt að ætlast til þess að trúleysingjar láti trú fólks í friði, í þeim skilningi að þeir ættu ekki að ráðast á trú opinberlega, á meðan til dæmis: 1) Ríkið er að ausa milljörðum úr sameiginlegum sjóðum okkar í trúfélög. 2) Trúnni er þröngvað upp á börn trúleysingja í opinberum skólum.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.2.2015 kl. 23:40

11 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Kærar þakkir fyrir svarið, Sigurður. Fyndið þetta með Framsóknarmannafóbíuna :) 

Wilhelm Emilsson, 19.2.2015 kl. 05:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband