Við hvað er Gunnar Svavarsson hræddur?
23.3.2007 | 09:16
Við hvað er meirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði hræddur? Ég spyr vegna þess að flokkurinn og bæjarfulltrúar hans þora ekki að gefa upp afstöðu sína vegna íbúakosningar um deiliskipulag Álversins í Straumsvík.
Í morgun var viðtal í Ríkisútvarpinu við Gunnar Svavarsson, forseta bæjarstjórnar sem skýlir sér á bak við það að málið sé nú komið í hendur íbúanna sem eigi að taka afstöðu án truflunar frá Samfylkingunni.
Flestir sjá í gegnum svona sjónarspil. Önnur ástæða er fyrir fælni þeirra Samfylkingarmanna. Opinberlega hafa þeir sagt að fresta eigi öllum álversframkvæmdum næstu fimm árin. Þess vegna þora þeir ekki að taka afstöðu með Álverinu í Straumsvík þó þeir fegnir vildu. Þeir vilja ekki heldur taka afstöðu á móti vegna þess að EF Álverið verður samþykkt þá hafa þeir tapað.
Þetta er nákvæmlega það sem plagar Samfylkinguna. Hana skortir sýn og eldmóð. Svo hræddir eru þeir við kjósendur að stefnan er ein í dag og önnur á morgun. Kjósendur bera meiri virðingu fyrir þeim sem standa við skoðun sína jafnvel þó sú skoðun njóti stuðnings minnihluta kjósenda í skoðanakönnunum. Út á það gengur pólitík, að berjast fyrir skoðunum og afla þeim fylgis.
Pólitík á hins vegar ekki reka samkvæmt niðurstöðu í skoðanakönnunum. Þeir sem gera slíkt eru sannnefndir vindhanar.
Enginn er hlutlaus þegar til kastanna kemur. Hinn almenni kjósandi getur leyft sér að gefa ekki upp afstöðu sína. Stjórnmálamaður sem tekur ekki opinberlega afstöðu er heigull.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.