Stefán Ólafsson snýr staðreyndum Icesave málsins á haus
21.12.2014 | 12:53
Bresk stjórnvöld sendu í gær frá sér tilkynningu um að þau hafi nú endurheimt um 85% af Icesave skuld Íslendinga, sem þau lögðu út fyrir strax eftir hrun.
Stefnt er að því að skuldin verði að fullu innheimt árið 2017, segir jafnframt í tilkynningunni (sjá hér).
Þetta hljómar auðvitað undarlega á Íslandi.
Íslendingar kusu tvisvar í þjóðaratkvæði gegn Icesave og töldu sig vera að hafna því að greiða skuldina, enda væri þetta ekki skuld Íslands.
Síðan unnum við dómsmálið fyrir EFTA dómstólnum og þar með var staðfest að stjórnvöld bæru ekki ábyrgð á málinu.
En þrotabú gamla Landsbankans greiðir samt skuldina upp í topp, í gegnum nýja Landsbankann, sem er nærri 100% í eigu íslenska ríkisins (okkar allra).
Þannig skrifar Stefán Ólafsson, prófessor, í Pressubloggi þann 19. desember 2014. Ég les stundum pistla hans en er oftar en ekki ósammála því hann er afar pólitískur, dregur jafnan taum Samfylkingarinnar og oftar en ekki finnst mér hann hafa rangt fyrir sér. Hins vegar er hann vel máli farin og rökfastur með afbrigðum.
Viðbrögðin við ofangreindum orðum Stefáns urðu hörð í athugasemdadálknum sem fylgir blogginu, og segja má að hann hafi fengið það óþvegið frá þeim sem miklu betur þekkja til um Icesave málið. Einna athyglisverðust voru þó eftirfarandi orð Gunnars Jóhannssonar, sem í raun endurspegla það sem flestir gera athugasemdir við:
Stefán það eru svona skrif frá þér sem fær mann til að efast um allt annað sem þú skrifar. Að þú skulir ekki vera búinn að átta þig útá hvað icesave málið gekk er með hreinum ólíkindum. Eða þá að þú skulir skrifa svona þvælu gegn betri vitund. Veit ekki hvort er verra.
Svo ótrúlegt sem það er virðist sem svo að Stefán og fleiri haldi að þeir geti skákað í því skjólinu að landsmenn séu búnir að gleyma því hvað Icesaveg málið fjallaði um. Þannig segir Stefán sjálfur í athugasemdadálknum:
Um 99% þátttakenda í Icesave kosningunum héldu að þeir væru að greiða um að borga eða borga ekki Icesave kostnaðinn, sem eigendur og stjórnendur Landsbankans færðu þjóðarbúinu, með tilraunum sínum til að bjarga eigin skinni.
Þetta er svo ótrúleg fljótfærnisleg fullyrðing að draga má einfaldlega í efa að Stefán Ólafsson viti hvað hann er að segja. Bætti þetta ekki úr skák fyrir manninn í rökræðunum. Raunar hrekst Stefán úr einu víginu í annað og þrátt fyrir allar sínar staðreyndavillur leyfir hann sér ekki að draga neitt í land heldur lemur höfðinu við steininn svo stórlega sér á upprunalegri færslu.
Sem betur fer er flestir þess umkomnir að mynda sér sjálfstæða skoðun og byggja upp málefnaleg rök. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ætlaði að láta ríkissjóð Íslands taka ábyrgð á Icesave skuldinni birtust á sviðinu fjöldi fólks sem mótmælti og kom með skotheld rök gegn áformum ríkisstjórnarinnar. Þetta voru til dæmis þau sem mynduðu InDefence hópinn sem að öðrum ólöstuðum höfðu forystu í baráttunni gegn ríkisstjórninni.
Baráttan endaði auðvitað með því að ríkissjóður tók enga ábyrgð á skuldum Landsbankans og þrotabú hans hefur síðan greitt upp forgangsskuldir hans eins og venjan er í gjaldþrotum. Skattfé almennings hefur ekki verið sett að veði né heldur eignir ríkisins.
Í athugasemdadálknum segði Ólafur Elíasson eftirfarandi:
Það er leiðinlegt að þurfa að benda á að þetta er því miður alrangt hjá Stefáni Ólafssyni.
Í Icesave samningunum áttum við að bera ábyrgð á um 700 milljörðum sem Bretar og Hollendingar greiddu sínum sparifjáreigendum.
Þessar vaxtagreiðslur Íslendinga af "láninu" hefðu aldrei verið samþykktar sem forgangskröfur í þrotabúið. Það lá fyrir alla tíð. Þetta var ekki umdeilt.
Þessir 700 milljarðar áttu að bera 5.6% vexti. Það liggur fyrir að ef samningurinn hefði verið samþykktur stæði þessi "skuld" í á þriðja hundrað milljarða í dag.
Eftirtektarvert er hvernig Stefán Ólafsson svarar. Hann er umsvifalaust kominn í vörn og í stað þess að svara Ólafi efnislega segir hann:
Ég geri alls ekki lítið úr baráttunni gegn Icesave. Hún var mikilvæg og sérstaklega framlag InDefence manna. Vaxtakostnaðurinn var vissulega mikill ef hann hefði fallið á okkur. Svo má auðvitað velta fyrir sér hvað hefði unnist efnahagslega ef málið hefði leysts fyrr.
Guðmundi Má Ragnarssyni líst illa á skrif Stefáns og segir:
Þessi pistill er eitt það undarlegasta sem ég hef lesið um langa hríð, hef ég þó lesið sitthvað sérstakt frá síðuhaldara. Skyldi þjóðin þurfa að lifa við það í áratugi hér eftir að þeir sem voru svo á rangri hillu upphaflega í þessu vandræða máli skuli sífellt með fimbulfambi reyna að koma því að hjá okkur að þeir hafi samt eftir allt haft rétt fyrir sér?
Kunnir skrifarar í athugasemdadálkum létu bera á sér í umræðunni og málefnalegar athugasemdir voru ekki miklar. Gott dæmi um slíkt er eftirfarandi sem Ómar Bjarki Kristjánsson, ritar:
Það hefur nú þegar sýnt sig að framganga öfga-hægrimanna og annara rugludalla í umræddu máli var óskynsamleg og óábyrg. Það væri þó í lagi per se. Verstur er skaðakostnaðarklafinn sem hlýst af framsöllum, forseta og indefens. Sá skaðakostnaðarklafi leggst á herðar almennings sem mun þurfa að bera hann talsvert lengi. Dómurinn sögulega yfir nei-sinnum er þegar orðinn þungur og í framtíðinni verður hann strangur. Þetta verður tekið sem skólabókardæmi um lýðskrum og óábyrga pólitíska hegðun og jafnframt dæmi um hve slík pólitík er dýr.
Ofangreint rugl endurspeglar svo ótal marga sem hafa fyrir því að skrifa í athugasemdadálka en bæta engu við umræðuna, hvorki rökum né upplýsingum. Þannig er svo ótalmörgum einhver léttir að geta úðað frá sér ógreinilegri hugsanaflækju sem einna helst má flokkast með ragni og bölvi.
Mikill þrýstingur var á Stefán að vera málefnalegur en honum tókst það ekki alltaf. Hann segir til dæmis í athugasemdadálknum:
Við erum síðan sammála um að 400 milljarða undanþágan til Breta framhjá gjaldeyrishöftunum er sérstök og svo þarf Landsbankinn okkar líka að greiða "Landsbankabréfið" - hann fékk einungis lengri frest til þess með nýlegum samningum. Fyrir hvað er sú greiðsla? Icesave hefur þrátt fyrir allt valdið okkur miklu tjóni, þó þjóðin hafi unnið bæði þjóðaratkvæðagreiðsluna og dómsmálið. Það er sú mótsögn sem ég er einkum að skrifa um.
Ólafur Elíasson er alls ekki sammála Stefáni og segir í beinu framhaldi af þessu:
Þú spyrð "fyrir hvað er greiðslan" og vísar til Landsbankabréfsins.
Hún er fyrir þær eigur sem fluttar voru úr þrotabúinu yfir í nýja Landsbankann. Þannig eignaðist íslenska ríkið eignir sem áður tilheyrðu gamla banknanum (einkaaðilum)
Það var mat manna á þeim tíma sem gengið var frá þessu að ekki mætti taka þessi verðmæti úr gamla bankanum án þess að einhver önnur greiðsla, (eignarhlutur í nýja bankanum eða t.d. þetta skuldabréf) kæmi sem greiðsla á móti eignaupptökunni.
Við erum þannig með þessari 400 milljarða greiðslu, að greiða fyrir þær eigur sem við tókum yfir til okkar í nýja bankann, sem við eigum núna. (Eigur sem við áttum ekki áður en eigum núna).
Ótrúlegt ef satt er, að Stefán skuli ekki hafa vitað hvernig Landsbankabréfið var til komið. Og Stefán heldur áfram að berja höfðinu við steininn, reynir hvað hann árangurslaust að rétta hallan hlut sinn í rökræðunum um málið.
Í fyrirsögn greinar sinnar segir hann: Við greiðum Icesave - með bros á vör. Vel má vera að Stefán Ólafsson brosi þegar hann skrifar grein sem byggist á allt öðru en staðreyndum. Hitt er heiðskírt og öllum ljóst að íslenskir skattgreiðendur hafa ekki greitt krónu í skuldir vanskila gamla Landsbankans.
Sigurður Hrafnkelsson skrifar eftirfarandi og slær endanlega vopnin úr höndum Stefán Ólafssonar í þessari rökræðu:
Við skulum bara vitna beint í mat Seðlabankans af glæsilegri niðurstöðu Svavars [Gestssonar, formanns samninganefndar um Icesave I).
"Þegar Icesave-samningarnir eru metnir er gert ráð fyrir að í lok árs
2015 verði búið að selja allar eignir gamla Landsbankans erlendis en þá
verði skuld íslenska ríkisins vegna samninganna 340 milljarðar króna"
http://sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=7199
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:57 | Facebook
Athugasemdir
Stefán Ólafsson skrifar eins og tapsárum Samfylkingarmanni er lagið. Er hann ekki einmitt eyrnamerktur þeim flokki? Hefur hann ekki hvað eftir annað skrifað þeim flokki til þægðar á vefslóðum?
Nýi Landsbankinn er einfaldlega að borga skuldir sínar við gamla Landsbankann. Sú skuld er bara bankanna á milli og er ekki eyrnamerkt Icesave, jafnvel þótt Steingrímur Joð hafi komið að málinu og trúlega með sínum vitlausa hætti eins og honum var lagið, þ.e.a.s. að binda þessa háu fjárhæð við erlendan gjaldeyri, en það átti aldrei að gera, enda eru innistæður gamla bankans, sem sá nýi fekk við stofnun sína, flestar í innendum veðbréfum.
Jafnvl þótt kratar séu gjarnan tregir í skilningi á fjármálum, ættu þeir með tímanum og endurteknum lestri að geta skilið það, að þegar bankastofnun tekur við innistæðum eins og fasteignaveðbréfum á Íslandi frá annarri bankastofnun, þá fær sú fyrrnefnda þau veðbréf ekki ókeypis. Landsbankinn nýi innheimtir fasteignaveðlán gamla bankans með drjúgum vöxtum og verðtryggingu árlega um mörg ókomin ár, og það mun fara langt með að borga þessa skuld nýja bankans við hinn gamla.
Hverjar forgangskröfur í gamla Landsbankann eru – og hvort Icesave komi eitthvað inn á það, kemur okkur hins vegar ekkert við, enda var þetta ekki okkar banki, heldur Björgólfsfeðga.
Jón Valur Jensson, 21.12.2014 kl. 13:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.