ÓMARGRÉT!

Mér fannst hann ekki sannfærandi sem stjórnmálamaður, því miður. Ómar kom fram í fjölmiðlum og í Kastljósi Sjónvarpsins. Það er leitt að segja, en hann stóð sig ekki vel, var ekki sannfærandi - ekki einu sinni þegar hann talaði um virkjanir og álver. Svo vatnaðist þetta allt út þegar hann var spurður um önnur mál.

Frá barnæsku hef ég varið stórum hluta af hverju ári í ferðir um landið okkar. Kannski er ég grænn og þá hægri-grænn. Ég hef í áranna rás horft upp á syndir okkar gegn landinu, nýjar og gamlar. Þó margt hafi breyst í umhverfismálum má betur gera.

Ég get tekið undir margt af því sem „Framtíðarlandið“ svokallaða leggur til, ég get stutt margt sem Samfylkingin segir í stefnu sinni „Fagra Ísland“ og ég get stutt margt af því sem Ómar Ragnarsson hefur sagt.

Umhverfis- og náttúruverndarmál verða hluti af þeim málum sem kosið verður um þann 12. maí, en við þurfum að horfa til fleiri og jafnvel mikilvægari mála. Efnahagsmálin skipta þjóðina mestu, uppbygging atvinnulífsins og þróun þess er gríðarlega mikilvæg því ef þjóðin aflar ekki tekna getur hún ekki staðið undir rekstri sínum og þar með sinnt t.d. menntamálum og heilbrigðismálum. Getur einhver fullyrt að þessir málaflokkar skipti minna máli.

Menn hrista ekki stjórnmálahreyfingu fram úr erminni sjö vikum fyrir kosningar og reyna að halda því fram að málefnavinnan byggist á eldmóði og sannfæringu. Það er ekki hægt að tala eins og konan sem kom fram fyrir hina pólitísku hreyfingu aldraðra og sagði þegar henni var frekari orða vant: „Við munum styðja öll góð mál.“ Þeir sem tala svona eiga ekki erindi á Alþingi.

Þó svo að Ómar og Margrét telji sig hafa eitthvað fram að færa í umhverfismálum þá eru þau ekki sannfærandi þegar komið er að öðrum málum. Við byggjum ekki verðmætaframleiðslu landsins á eldfjallagarði, fjallagrasatínslu, afnámi kvótakerfis eða kyrrstöðu í efnahagsmálum. Við höfum ekki tíma til að bíða eftir því að vísindamenn nái tökum á djúpborunum, við getum ekki setið með hendur í skauti.

Það er rangt að hægt sé að stöðva þau öfl sem sameiginlega knýja hjól efnahagslífsins, sé það reynt mun það kosta þjóðina þau góðu lífsskilyrði sem náðst hafa á undanförnum árum.

Flokkur sem hefur það eitt að markmiði að koma í veg fyrir að álver verði reist byggir ekki á merkilegum grunni. Ekki er sá flokkurinn merkilegri sem byggir á því einu að leggja niður kvótakerfið. Þriðji flokkurinn er á þingi sem hefur þá skoðun að jafna eigi lífskjör þjóðarinnar með því að koma þeim úr landi sem hæst hafa launin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband